Tikynning um umferðarslys barst lögreglunni um sjö leytið í gærkvöld. Segir í dagbók lögreglu að ökumaður bifreiðar hafi ekið á/í veg fyrir tvær 13 ára stúlkur á hlaupahjóli. Stúlkurnar féllu í götuna og voru laskaðar eftir fallið. Ökumaðurinn stakk af eftir að hafa ekið á stúlkurnar og rannsakar lögregla nú málið.
Lögregla handtók tvo menn í annarlegu ástandi í Hlíðunum í nótt. Mennirnir höfðu brotið rúðu í íbúðargám og voru komnir þangað inn en hafði lögregla ítrekað haft afskipti af þeim fyrr um kvöldið. Báðir gistu í fangaklefa.
Þá vaknaði húsráðandi í Vesturbæ við að ljósgeisla frá vasaljósi var beint í andlitið á honum. Taldi hann sig þekkja manninn sem hafði verið á heimili hans en sá fór þegar maðurinn vaknaði. Kom þá í ljós að búið var að stela verðmætum og róta í skúffum.
Auk þess sinnti lögregla útkalli vegna ofurölvunar og stöðvaði nokkra bíla vegna gruns um ölvunarakstur.