Ökumaður hunsaði stöðvunarmerki lögreglu seint í gærkvöldi í Grafarholti. Ökumaðurinn var að tala í farsíma og greip til örþrifa ráða þegar hann ók út af akbrautinni og yfir móa til þess að komast undan lögreglu. Maðurinn fannst skömmu síðar þar sem hann var handtekinn og látinn gista í fangaklefa. Er hann grunaður um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna og fyrir að hafa ekið ítrekað sviptur ökuréttindum.
Lögreglu barst tilkynning um þjófnað á hótelherbergi í miðbæ Reykjavíkur. Farið var inn á herbergi þar sem fartölvu var stolið auk annarra verðmæta. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.
Lögregla stöðvaði bifreið í Árbæjarhverfi um klukkan hálf tólf í gærkvöldi. Mátti litlu muna að slys hefði orðið þar sem maðurinn ók í veg fyrir lögreglubifreið en er hann grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna og án ökuréttinda.
Lögregla handtók þrjá ökumenn til viðbótar í nótt. Allir voru grunaðir um akstur undir áhrifum vímuefna.