Leysir kvenlega orku úr læðingi í vestfirskri náttúrufegurð.
Listakonan Kitty Von-Sometime, sem er hvað þekktust fyrir myndbandsþætti sína The Weird Girls Project þar sem konur eru í forgrunni, hefur tekið að sér að stýra sjálfsstyrkingarferð fyrir konur til Vestfjarða í haust.
„Ég ætla að aðstoða konur við að sleppa fram af sér beislinu, hjálpa þeim að finna sjálfar sig og hæfileika sína og leyfa þeim að njóta sín. Þetta er í raun sama hugmyndafræði og liggur til grundvallar The Weird Girls Project-myndbandsþáttunum sem ganga út á að efla sjálfstraust og líkamsmynd kvenna.“
Að sögn Kittyar gengur sú hugmyndafræði jafnframt út á viðbrögð við hinu óþekkta og óvænta. Þannig fái konurnar sem hún boðar í tökur aldrei að vita hvað sé í vændum. Að vissu leyti verði sami háttur hafður á í haust þar sem ákveðnum upplýsingum um ferðina verði haldið leyndum fram á síðustu stundu.
„Það sem ég get sagt á þessu stigi málsins er að þarna verða gestafyrirlesarar og kennarar og uppbyggilegar umræður. Þetta verður þriggja daga vinnustofa og gisting og matur eru innifalin. Að því loknu verður skotinn nýr myndaþáttur sem þátttakendum og konum á svæðinu gefst kostur að taka þátt í,“ segir hún full tilhlökkunar.
Það er Samfélagsmiðstöðin Blábankinn á Þingeyri sem stendur fyrir viðburðinum í samstarfi við Kitty, en frekari upplýsingar um verkefnið má nálgast á vefsíðunni www.theweirdgirlsproject.com/
Texti / Roald Eyvindsson
Mynd / Holly Buckle