Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð stendur nú yfir í Bíó Paradís. Að sögn Arons Víglundssonar dagskrárstjóra kennir ýmissa grasa á hátíðinni en í forgrunni verða sígildar perlur sem öll fjölskyldan getur haft gaman af.
„Það má segja að nostalgía einkenni hátíðina í ár, bæði hvað varðar innlendar og erlendar myndir, þar sem við ætlum að sýna myndir sem eru fyrir löngu orðnar sígildar. Foreldrar geta því farið með börnunum sínum í bíó og endurupplifað myndir sem þeir höfðu gaman af í æsku. Það verður eitthvað fyrir alla,“ segir Aron, en í bíóinu verður fjölbreytt úrval kvikmynda í fullri lengd ásamt vel völdum stutt- og heimildamyndum.
Þetta er í sjötta sinn sem Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð er haldin en hún var opnuð í gærkvöldi með sýningu á hinni sígildu Benjamín dúfu frá árinu 1995.
„Helstu aðstandendur myndarinnar voru viðstaddir, leikarar og höfundurinn Friðrik Erlingsson en þeir hafa ekki komið saman í nokkra áratugi. Auk þess hefur myndin sjálf ekki sést sést í bíó í tugi ára en þetta er endurbætt stafræn útgáfa sem hefur lengi verið í burðarliðnum og því má kannski segja að þetta sé seinni frumsýning myndarinnar á Íslandi,“ segir Aron kíminn.
Alls kyns skemmtilegir viðburðir
Fjöldi annarra áhugaverðra mynda verður til sýnis eins og áður sagði. Glæný stafræna útgáfa af Ronju ræningjadóttur með íslensku tali, The NeverEnding Story, Ghostbusters og Dark Crystal úr smiðju Jims Henson, skapara Prúðuleikaranna. Auk þess sem boðið verður upp á alls konar viðburði tengda myndunum.
„Til dæmis verður námskeið í slímgerð fyrir sýninguna á Ghostbusters núna á sunnudag, af því að í myndinni kemur slím talsvert við sögu. Borgarleikhúsið verður með leiklistarspjall í tilefni af sýningu á myndinni Matthildi en leikrit byggt á sama verki er sýnt í leikhúsinu. Og svo verður skrautskriftarnámskeið í tengslum við sýningar á japönskum fjölskyldumyndum. Sem sagt alls konar skemmtilegheit,“ segir Aron.
Til dæmis verður námskeið í slímgerð fyrir sýninguna á Ghostbusters núna á sunnudag
Hann bætir við að mikið sé lagt upp úr því að hafa dagskránna á hátíðinni sem veglegasta enda sé mikilvægt að glæða áhuga barna á kvikmyndum og menningu.
„Já, það skiptir ótrúlegu máli að auka framboðið af góðum myndum fyrir börn og færa þeim bæði fjölbreytt og áhugavert efni víðsvegar að úr heiminum. Þessi hátíð er frábært tækifæri til þess og fyrir kynslóðirnar til að koma saman og eiga góða stund,“ segir hann og getur þess að aðeins 1.000 krónur kosti inn á hátíðin sem stendur yfir til 14. apríl.