Ólga er í Vestmannaeyjum eftir að Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra ákvað að Karl Gauti Hjaltason yrði næsti lögreglustjóri í Vestmannaeyjum. Karl Gauti á sér þá fortíð að hafa verið kosinn þingmaður Flokks fólksins. Þingmennska hans með Ingu Sæland og félögum endaði þó með þeim ósköpum að hann var rekinn eftir uppákomu á Klausturbar. Þar náðist á uppptöku þar sem hann, Ólafur Ísleifsson þáverandi þingmaður Flokks fólksins, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, Gunnar Bragi Sveinsson, varaformaður sama flokks, og fleiri fóru mikinn í orðræðu sem lýsti kvenhatri og fyrirlitningu á öðrum þingmönnum. Inga Sæland fékk sérstaka útreið og var kölluð illum nöfnum. Bára Halldórsdóttir náði fúkyrðunum á upptöku og sendi fjölmiðlum. Nokkru eftir brottreksturinn gengu Karl og Ólafur í Miðflokkinn en féllu báðir út í kosningunum á eftir í fylgishruni Miðflokksins. Meðal þeirra sem hafa mótmælt skipan Karls Gauta er Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri í Eyjum sem ætlar þó að vinna með Karli, þegar til kemur, Skipun Karls er enn ein hrafnsfjöðrin í hatt dómsmálaráðherra sem þarf að verjast vantrausti á Alþingi í dag …