Stefán Eiríksson útvarpsstjóri var endurráðinn með minnsta mögulega meirihluta stjórnar Ríkisútvarpsins. Fjórir af níu stjórnarmönnum lýstu sig andvíga endurráðningu hans og vildu auglýsa en fimm vildu ganga starx frá endurráðningu til fimm ára. Stjórn var því þverklofin. Stefán er umdeildur. Yfir starfi hans hvílir skuggi símamáls Páls Steingrímssonar skipstjóra.
Starfsmenn Ríkisútvarpsins voru í lykilhlutverki við að brjóta upp síma skipstjórans án þess þó að nýta þau gögn í þágu fjölmiðilsins. Fyrrverandi eiginkona skipstjórans rændi símanum af sjúkrabeði Páls og hefur vitnað um að hafa farið með hann í höfuðstöðvar RÚV þar sem Þóra Arnórsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Kveiks, og aðalframleiaðndi þáttarins tók við símanum. Fréttir byggðar á gögnunum birtust síðan í Kjarnanum og Stundinni,.
Stjórn Ríkisútvarpsins er pólitískt skipuð. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og VG vildu láta auglýsa en Framsóknarflokkurinn, Samfylking, Píratar og Flokkur fólksins slógu skjaldborg um útvarpsstjórann og tryggðu honum endurráðningu. Þeir fimm stjórnarmenn sem vilja ekki láta auglýsa eru Silja Dögg Gunnarsdóttir, fulltrúi Framsóknarflokksins, Mörður Áslaugarson, fulltrúi Pírata, Margrét Tryggvadóttir, fulltrúi Samfylkingar, Aron Ólafsson, fulltrúi Framsóknarflokksins, og Þráinn Óskarsson, fulltrúi Flokks fólksins.
Ingvar Smári Birgisson, varaformaður stjórnar RÚV, vakti athygli á málinu í færslu á Facebook.
„Ég var á þeirri skoðun, ásamt þremur öðrum stjórnarmönnum (samtals 9 í stjórninni), að með réttu hefði átt að auglýsa stöðuna, enda samræmast slík vinnubrögð best þeim gagnsæju vinnubrögðum sem þurfa að einkenna störf Ríkisútvarpsins,“ skrifar hann.
Stefán var ráðinn útvarpsstjóri í ársbyrjun 2020. Í janúar í fyrra greindi Stefán frá því í Bítinu á Bylgjunni að hann hygðist hætta sem útvarpsstjóri þegar skipunartíma hans lyki. Hann skipti svo um skoðun fyrir nokkru og upplýsti um þann vilja sinn að halda áfram í starfi sínu.
Útvarpsstjóri er lögum samkvæmt ráðinn til fimm ára í senn. Heimilt er að endurráða hann einu sinni. Meirihluti stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. ákvað á fundi sínum að nýta sér þá heimild og Stefán verður samkvæmt því útvarpsstjóri allt til ársins 2030.