Föstudagur 3. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Kökuhlaðborðið aðalsmerki hlaupsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Flóahlaupið verður haldið í fertugasta sinn um helgina en það er meðal annars þekkt fyrir kökuhlaðborðið sem boðið er upp á að hlaupi loknu.

Guðmunda Ólafsdóttir, formaður Umf. Þjótanda og skjalavörður á Héraðsskjalasafni Árnesinga. Mynd / Gunnhildur Lind

Ungmennafélaið Þjótandi sér nú um utanumhaldið og við fengum formann þess, Guðmundu Ólafsdóttur, til að segja okkur aðeins frá þessum skemmtilega viðburði.

Hlaupið er frá félagsheimilinu Félagslundi og boðið upp á þrjár vegalengdir; þrjá kílómetra, fimm og tíu. Brautin er nær marflöt, styttri vegalengdirnar á malbiki en tíu kílómetra hlaupið að stærstum hluta á malarvegi.

„Hlaupararnir eru í miklu návígi við náttúruna og jafnvel búpeninginn á nærliggjandi bæjum. Eitt árið kom það meira að segja fyrir að hrossahópur slapp út úr girðingu við hlaupaleiðina og hlupu samferða hlaupurunum hluta af leiðinni, flestum til ánægju,“ segir Guðmunda, formaður Umf. Þjótanda og skjalavörður á Héraðsskjalasafni Árnesinga.

„Hlaupið var fyrst haldið árið 1979 svo nú er 40 ára afmæli þess. Forvígismaður hlaupsins er Markús Ívarsson á Vorsabæjarhóli og í upphafi hófst hlaupið á hlaðinu í Vorsabæ, næsta bæ við Vorsabæjarhól, og hlaupinn var tíu kílómetra hringur sem kallast Vorsabæjarhringurinn. Keppendur voru tíu talsins og að hlaupi loknu bauð Markús þeim heim í kaffi að Vorsabæjarhól.

Forvígismaður hlaupsins, Markús Ívarsson á Vorsabæjarhóli, les upp nöfn vinningshafa í aldursflokkum.

Þegar fram liðu stundir og hlaupið varð vinsælla var upphafsstaður þess færður að Félagslundi til þess að hægt væri að koma öllum í kaffi. Frá byrjun hefur þó verið hlaupinn sami hringur. Markús er enn í dag aðalskipuleggjandi hlaupsins, enda þekkir það enginn eins vel og hann.“

Heimilislegt og „sveitó“

- Auglýsing -

Kökuhlaðborðið er fyrir löngu orðið aðalsmerki hlaupsins og er að sögn Guðmundu upprunnið í klassískri íslenskri gestrisni.

„Því aðalsmerki viljum við halda á lofti. Kaffiveitingarnar gera það að verkum að Flóahlaupið er ekki bara íþróttaviðburður heldur einnig menningarviðburður fyrir þá sem mæta. Þarna fær hlaupafólk víðsvegar að tækifæri til að setjast niður og eiga notalega stund að hlaupi loknu og spjalla saman. Kökurnar sem boðið er upp á eru allar bakaðar af húsmæðrum úr hreppnum en flestum íbúum sveitarinnar þykir sjálfsagt mál að rétta ungmennafélaginu hjálparhönd þegar eftir því er kallað með því til dæmis að gefa félaginu eina köku. Venjan er svo að fá hóp ungmenna til að koma og smyrja brauðið og baka vöfflurnar. Það myndast alltaf ágætisstemning í eldhúsinu við þessa vinnu,“ segir Guðmunda og mikil ánægja hefur verið meðal keppenda með þennan viðburð.

Kökurnar sem boðið er upp á eru allar bakaðar af húsmæðrum úr hreppnum.

„Enda er andrúmsloftið afskaplega heimilislegt og „sveitó“, eins og sumir vilja orða það. Sumir hafa jafnvel komið og tekið þátt áratugum saman. Kökuhlaðborðið hefur, eins og ég sagði, verið frá upphafi og á svo sannarlega sinn þátt í vinsældum hlaupsins. Keppendur hafa flestir verið á annað hundrað en fjöldi þátttakenda fer mikið eftir veðri eins og oft vill verða. Hlaupið fer alltaf fram byrjun apríl svo það er allra veðra von.“

- Auglýsing -
Heimilislegt og „sveitó“. Kökuhlaðborðið er fyrir löngu orðið aðalsmerki hlaupsins og er að sögn Guðmundu upprunnið í klassískri íslenskri gestrisni.

Guðmunda sjálf er með bakgrunn í frjálsum íþróttum og hefur reynt að halda sér við síðan. „Ég hef þó ekki gerst svo fræg að keppa í öðrum hlaupum en Kvennahlaupinu. Ég hef aldrei keppt í Flóahlaupinu sjálf, enda alltaf nóg að gera við framkvæmd hlaupsins. En ég er ákveðin í að taka þátt þegar ég verð hætt stjórnarsetu í Þjótanda og get farið að mæta sem óbreyttur borgari.“

Byggt á 100 ára gömlum rótum

Ungmennafélagið Þjótandi var stofnað haustið 2015 sem arftaki þriggja gamalgróinna ungmennafélaga sem störfuðu í Flóahreppi.

„Eftir að allir krakkar í Flóanum fóru að sækja nám í sama skóla, Flóaskóla, og sveitarfélögin þrjú í Flóanum voru sameinuð í Flóahrepp fundum við vaxandi þörf á því að allir krakkar í hreppnum væru í sama ungmennafélagi. Því varð raunin að leggja niður þrjú félög, Umf. Baldur, Umf. Samhygð og Umf. Vöku, og stofna Umf. Þjótanda. Umf. Þjótandi er því ungt félag byggt á rúmlega 100 ára gömlum rótum.

Starfssvæðið er sem sagt Flóahreppur í Árnessýslu. Helsta starfsemi félagsins er að halda úti íþróttaæfingum fyrir krakkana í sveitinni auk þess að skipuleggja hverskyns félagsstarf; halda þrettándagleði fyrir sveitungana, fara í skemmtiferðir til Reykjavíkur, halda íþróttamót, aðstoða jólasveinana við að komast á milli staða, halda dansnámskeið og fleira. Þetta þarf svo allt að fjármagna og er það gert með ýmsum fjáröflunum eins og skötuveislu, haustballi, páskabingói og svo Flóahlaupinu.“

Í þriggja kílómetra hlaupinu eru veitt verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin í flokki pilta og stúlkna 14 ára og yngri, og eins í fimm kílómetra hlaupinu nema þar er aldursflokkurinn opinn. Í tíu kílómetra hlaupinu eru veitt aldursflokkaverðlaun fyrir þrjá fyrstu í hverjum flokki hjá bæði körlum og konum. Að auki fá allir verðlaun fyrir þátttöku.

Hægt er að skrá sig í hlaupið á hlaup.is eða með því að mæta tímanlega á svæðið á keppnisdag. Hlaupið hefst klukkan 13 þann 6. apríl 2019.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -