„Þetta er svo stórkostleg upplifun að ég stóðst ekki mátið að fara aftur að gosinu,“ segir Kolbeinn Hreinssson, útivistarmaður og íbúi í Vogum á Reykjanesi, sem fór á gosstöðvarnar í gærkvöld og var fram í myrkur að njóta þess að horfa á rauðglóandi hraunið spýtast upp úr gígnum og breiða úr sér um Geldingadali.
Kolbeinn var kominn heim í Voga um klukkan tvö síðustu nótt. Hann lagði sig til klukkan sex að morgni þegar hann reif sig upp aftur og rölti að gosinu á ný en að þessu sinni með níu manna, sóttvörðum, gönguhópi Ferðafélags Íslands. Á 15 klukkustundum var Kolbeinn því búinn að ganga tvisvar þá 10 kílómetra sem eru að útsýnisstaðnum við gíginn ógurlega sem hópurinn kallar Gimbil, til heiðurs Stóra Hrúti sem trónir yfir sunnanvert við gosstöðvarnar. Þetta var í þriðja sinn sem Kolbeinn kemur að gosinu. Hann sér fyrir sér að eiga eftir að fara oft að gosinu sem hann reiknar með að standi lengi.
„Það er mjög sérstakt að sjá þær breytingar sem verða á svæðinu þar sem hraunið gjörbreytir landslaginu. Það er engin heimsókn eins,“ segir Kolbeinn.
Kolbeinn rétt slapp með seinni heimsóknina að gosstöðvunum því yfirvöld ákváðu að loka svæðinu á hádegi vegna veðurs. En þá var Kolbeinn kominn heim í Voga eftir að hafa gengið 20 kílómetra um fjöll og dali til að upplifa eldgos sem er einstakt á sína vísu.