Landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson beitti Þórhildi Gyðu Arnarsdóttur kynferðislegu og líkamlegu ofbeldi haustið 2017 á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur. Hún og vinkona hennar, sem lenti í svipuðu atviki af hendi Kolbeins, kærðu til lögreglu og málið var tilkynnt til stjórnar KSÍ.
Þetta herma heimildir Mannlífs. Kolbeinn greip í klof Þórhildar og tók hana seinna hálstaki svo hún hlaut af áverka. Hann gekkst við broti sínu, iðraðist, og greiddi henni miskabætur.
Sjá einnig: Landsliðið í stormi samfélagsmiðla – Ásakanir um kynferðisbrot og heimilisofbeldi
Þórhildur Gyða kom fram í viðtali við RÚV í gærkvöldi og gagnrýndi formann KSÍ, Guðna Bergsson. Þórhildur var mjög ósátt við að Guðni sagði í viðtali í Kastljósi í fyrradag að engin tilkynning um kynferðisofbeldi landsliðsmanna hefði borist inn á hans borð.
Þórhildur sagði að landsliðsmaðurinn sem braut á henni kynferðislega hefði viðurkennt brot sitt og greitt miskabætur. Hún nafngreindi Kolbein ekki.
Þórhildur sagði um atvikið að „hann grípur sem sagt í klofið á mér. Síðan á sér stað líkamsárás aðeins seinna þar sem hann tekur mig hálstaki í stutta stund. Þar sem það skarst annar einstaklingurinn inn í. Ég var með áverka í tvær til þrjár vikur eftir hann. Strax daginn eftir fæ ég áverkavottorð og fer síðan niður á lögreglustöð og legg fram kæru. Við vorum tvær sem urðum fyrir því sama af hans hálfu þetta umrædda kvöld og við fórum saman að kæra,“ sagði Þórhildur.
Sjá einnig: Segir tvo þjóðþekkta Íslendinga hafa nauðgað sér ítrekað: „Ég skila skömminni, FOKKIÐ YKKUR “
Kolbeinn lék engan landsleik á árinu 2017, og var fjarveran skýrð með meiðslum hans. Kolbeinn, sem er einn mesti markahrókur landsliðsins frá upphafi, hefur vissulega glímt mikið við meiðsli allan sinn feril, en hann var hins vegar tekinn úr hópnum eftir atvikið umrædda, en einungis í stuttan tíma. Síðan var banninu aflétt og í raun er það staðfesting á því að umræðan um þöggun innan KSÍ á sér stoð í raunveruleikanum.
Kolbeinn hefur áður komist í hann krappann en fyrir tveimur árum síðan var hann handtekinn á næturklúbbi í Svíþjóð vegna drykkjuláta, eins og lesa má hér um.
Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusambands Íslands, sagði ósatt í Kastljósi í fyrradag, þegar hann fullyrti að engin erindi vegna ofbeldis landsliðsmanna hefðu borist inn á borð sambandsins. Hann bar í gærkvöld við misskilningi í viðtali við RÚV, sagðist hafa haldið að brotið væri ekki kynferðislegs eðlis.
KSÍ hefur lítið sem ekkert tjáð sig um meint kynferðisafbrot og aðrar tegundir af ofbeldi sem virðast því miður loða við „Gulldrengina“ okkar sem komust í lokakeppni EM árið 2016 og í lokakeppni HM tveimur árum síðar.
Sjá einnig: Tengdafaðir Gylfa Þórs knattspyrnukappa: „Þau eru ekki að skilja“
Allir þekkja til máls Gylfa Sigurðssonar og svo eru uppi háværar raddir um nauðgun sem tveir landsliðsmenn eiga að hafa gerst sekir um fyrir nokkrum árum. Þá var Ragnar Sigurðsson tilkynntur til KSÍ eftir að hann gekk berserksgang á heimili sínu.
Í viðtali RÚV við Guðna í kvöld var ekkert komið inná um hvaða leikmann ræðir. Slíkt gerir það að verkum að allir sem léku með landsliðinu á sama tíma og ofbeldið átti sér stað liggja undir grun.
Árásin á ungu konuna kom inn á borð Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, sem gat að sögn ekki aðhafst beint. Annað mál sem kom til kasta KSÍ var mál Ragnars Sigurðssonar sem sætti yfirheyrslu eftir að hafa tryllst á heimili sínu. Nágranni hans tilkynnti um málið en KSÍ aðhafðist ekki. Þriðja málið snýr að meintri nauðgun þar sem tveir landsliðsmenn eru nefndir til sögu. Ljóst er að staða Guðna Bergssonar sem formanns KSÍ er afar slæm, og allt virðist benda til þess að múrar þöggunar séu að hrynja.
Sjá einnig: Fjölskylda og lögmenn umvefja Gylfa
Mannlíf hefur gert ítrekaðar tilraunir til að ná tali af Kolbeini, án árangurs. Líka af bróður hans, Andra, sem er umboðsmaður Kolbeins. Hvorugur svaraði símtölum eða smáskilaboðum.