Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari þarf starfs síns vegna að horfa á barnaklám. Hún segir að flestir geri sér ekki grein fyrir hversu mikill hryllingur slíkt efni sé. Þetta ásamt öðru kemur fram í viðtali Sigmars Guðmundssonar við hana sem sýnt verður í kvöld.
„Það er verið að nauðga börnum fyrir framan myndavélina og það er eftirspurn eftir þessu. Þess vegna er þetta gert,“ segir Kolbrún í þættinum Okkar á milli.
Hún segir nauðsynlegt fyrir hana og aðra í kerfinu að horfa á barnaklám svo hægt sé að ákvarða refsingu. „Við þurfum að skoða barnaníðsefni til að vita hvað við erum með í höndunum. Refsingin fer ekki bara eftir magni heldur líka grófleika. Þetta er okkar að skoða og sjá hvers lags efni um er að ræða,“ segir hún.
Hún ítrekar að barnaklám sé einfaldlega það versta sem nokkur getur horft á. „Þetta er bara viðbjóðslegt. Ég held að margir hafi mynd af því að þetta sé svona ljósblátt Lolitu-klám þar sem sjáist í brjóst en þetta er alls ekki svona. Þetta eru viðbjóðsleg brot sem verið er að fremja gegn mjög ungum börnum. Þarna er um að ræða raunveruleg börn sem verið er að misnota einhvers staðar úti í heimi,“ segir Kolbrún og bætir við að nauðsynlegt sé að brynja sig gagnvart þessu.
Þá er ónefnd skelfing þolandans. „Bæði þegar fólk kemur sjálft eða foreldrar ungra barna eða unglinga, sem hafa orðið fyrir svona kynferðisbrotum, lýsa því hvernig börnin þeirra hafa orðið litlir vængbrotnir fuglar. Þetta hefur svo gríðarleg áhrif á þolanda og alla hans fjölskyldu. Ég hef þurft að berjast við tárin í skýrslutöku fyrir dómi. En ef þetta hætti alveg að hafa áhrif á mann ætti maður að pakka saman.“