Föstudagur 15. nóvember, 2024
0.3 C
Reykjavik

Kolbrún hundskammar sögukennarann orðljóta í Garðabæ: „Skrif Páls um Helga Seljan eru til skammar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Tíminn og orkan sem ákveðnir starfsmenn Samherja hafa eytt í að ata Helga auri, og leggja hann í einelti og vakta ferðir hans, var hins vegar ekki til umfjöllunar hjá Páli. Kannski finnst honum þær aðferðir hafa verið í góðu lagi. Ef svo er þá er það dæmi um afar sérkennilegt hugarfar,“ skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir blaðamaður í leiðara Fréttablaðsins í dag í tilefni að rógsherferð Páls Vilhjálmssonar, bloggara Morgunblaðsins og sögukennara við Fjölbrautarskólann í Garðabæ, á hendur Helga Seljan, margverðlaunuðum fréttamanni Ríkisútvarpsins.. Páll hefur uppskorið fordæmingu víða vegna skrifa sinna um að Helgi sé geðveikur og að ekki ætti að treysta honum til að fara með dagskrárvald á ríkisfjölmiðli. Þetta skrifar hann á þeim grundvelli að Helgi hafi sjálfur lýst glímu sinni við þunglyndi.

„Í skrifum sínum virtist Páll ganga út frá því að þetta gerði Helga ófæran til að sinna starfi rannsóknarblaðamanns, eða jafnvel hvaða starfi sem er. Helst mátti af skrifum Páls ráða að almennt væri ekkert mark á Helga takandi. Páll virtist einnig telja að nú væri komin skýring á því af hverju Helgi hefði unnið svo vasklega við að rannsaka mál Samherja; hann væri haldinn þráhyggju,“ skrifar Kolbrún.

Kolbrún Bergþórsdóttir

Í niðurlagi leiðarans fagnar Kolbrún því að sögukennarinn, sem lýsti Samherjamenn saklausa í nýlegum pistli, hafi ekki verið rekinn. Tjáningarfrelsið verði að vera leiðarljósið.

„Ekkert breytir því þó að skrif hans um Helga Seljan séu honum til skammar. Þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, orðaði þetta af nákvæmni þegar hún sagði um þau skrif: „Þetta er nú meiri smásálarhroðinn.“

Leiðari Kolbrúnar í heild sinni:

Gott samfélag verður ekki skapað með refsigleði að vopni. Ákæra á til dæmis ekki að jafngilda sekt og fólk sem segir fáránlega, jafnvel hræðilega hluti, á ekki sjálfkrafa að missa atvinnu sína og lífsafkomu. Í samtíma okkar sjáum við þó ríka hneigð í þessa átt. Refsigleðin er grasserandi og hinn alræmdi dómstóll götunnar telur hana sjálfsagða og eðlilega og réttlætir hana auðveldlega með því að tilgangurinn sé að uppræta illsku og fordóma, sem við viljum náttúrlega ekki búa við. Það er hins vegar alls ekki sama hvernig hlutirnir eru gerðir. Sá sem sakaður er um alvarlegt brot verður að fá tækifæri til að svara ásökunum í stað þess að vera samstundis kýldur niður og rúinn ærunni. Sá sem talar dólgslega á svo sannarlega skilið að honum sé svarað, en á ekki að þurfa að þola það að vera rekinn úr starfi. Á dögunum skrifaði Páll Vilhjálmsson, kennari og bloggari, pistil um fréttamanninn Helga Seljan, eftir að sá síðarnefndi sagði í vinsælum sjónvarpsþætti að hann hefði glímt við andleg veikindi og um tíma lagst inn á geðdeild. Í skrifum sínum virtist Páll ganga út frá því að þetta gerði Helga ófæran til að sinna starfi rannsóknarblaðamanns, eða jafnvel hvaða starfi sem er. Helst mátti af skrifum Páls ráða að almennt væri ekkert mark á Helga takandi. Páll virtist einnig telja að nú væri komin skýring á því af hverju Helgi hefði unnið svo vasklega við að rannsaka mál Samherja; hann væri haldinn þráhyggju. Tíminn og orkan sem ákveðnir starfsmenn Samherja hafa eytt í að ata Helga auri, og leggja hann í einelti og vakta ferðir hans, var hins vegar ekki til umfjöllunar hjá Páli. Kannski finnst honum þær aðferðir hafa verið í góðu lagi. Ef svo er þá er það dæmi um afar sérkennilegt hugarfar. Páll starfar enn sem kennari, þrátt fyrir skrif sín um Helga Seljan. Einhverjir vildu að hann yrði rekinn úr starfi vegna þeirra. Skólameistari skólans, sem Páll starfar við, er afar ósáttur við skrif hans og gerir athugasemdir við þau, en telur rétt að Páll haldi starfinu. Það er skynsamleg afstaða. Við búum í landi þar sem tjáningarfrelsi á að vera ríkjandi. Páll nýtur þess, eins og hann á að gera. Ekkert breytir því þó að skrif hans um Helga Seljan séu honum til skammar. Þingmaður Samfylkingarinnar, Helga Vala Helgadóttir, orðaði þetta af nákvæmni þegar hún sagði um þau skrif: „Þetta er nú meiri smásálarhroðinn.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -