Miðvikudagur 15. janúar, 2025
7.8 C
Reykjavik

Komur á bráðamóttöku vegna fíkniefna og sterkra lyfja hafa aukist um 96,4%

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Samantekt á misnotkun ungmenna á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum er sláandi en veruleg aukning er í komum á bráðamóttöku, sjúkraflutningum og alvarlegum slysum vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

 

Aukin misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum hefur verið gríðarleg síðustu ár. Sífellt fleiri fréttir um einstaklinga í neyslu, jafnvel á barnsaldri, og aukin dánartíðni vegna lyfseðilsskyldra lyfja vekur óhug í samfélaginu og kröfur um aukin og bætt úrræði verða sífellt háværari. Langir biðlistar í meðferð og úrræðaleysi veldur einstaklingum í neyslu sem vilja bata og aðstandendum þeirra kvíða og vonleysi.

Í samantekt sem samtökin Eitt líf hafa tekið saman um misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum kemur fram aukning í tölum milli ára hvar sem borið er niður: dánartíðni vegna lyfja, sjúkraflutningar, komur á bráðamóttöku, akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og alvarleg slys vegna slíks aksturs.

Heimild / Samgöngustofa

Markmið Eitt líf fræðsluátaksins er að ná til grunnskólanema í 7.–10. bekk ásamt foreldrum og kennurum barnanna og sporna við misnotkun á lyfsseðilskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum.

Í samantekt þeirra kemur fram að vænlegast sé talið að ná til ungmenna áður en þau prófa, samanborið við að ná til þeirra eftir að þau hafa prófað. Flestar neikvæðar afleiðingar sem misnotkun á lyfseðilsskyldum lyfjum og öðrum fíkniefnum hefur í för með sér má helst rekja til þeirra sem eru á framhaldsskólaaldri og eldri og það er sá aldurshópur sem Eitt líf hefur áhyggjur af.

Heimild / Talnabrunnur embætti Landlæknis, maí 2019

Verndandi þættir eru að dala

- Auglýsing -

Niðurstöður rannsókna á meðal grunnskólanemenda sýna að verndandi þættir eins og góð andleg líðan, að foreldrar viti hvar börn þeirra séu á laugardagskvöldum, samverustundir með foreldrum og fleira eru að dala. Á sama tíma eru áhættuþættir eins og auðvelt aðgengi að lyfjum og fíkniefnum, vanlíðan og fleira að aukast. Kaup og sala hefur aldrei verið auðveldari og fer fram á samfélagsmiðlum, í appi og milli vina og kunningja.

Vanlíðan meðal ungmenna er áhættuþáttur, í dag er hún verri en nokkru sinni fyrr. Hátt í 40% tíundu bekkinga finna fyrir depurð vikulega eða oftar, 38% glíma við svefnerfiðleika og 17% segjast vera einmana mjög oft.

Notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum fer vaxandi 

- Auglýsing -

Almenn notkun á lyfseðilsskyldum lyfjum fer ört vaxandi um allan heim og sama á við á Íslandi. Í skýrslu Velferðarráðs frá maí 2018 segir: „gera má ráð fyrir að þróun samfélagsins og heilbrigðiskerfisins á síðastliðnum áratugum eigi þátt í að skapa væntingar og menningu sem lítur á lyf sem lausn margra vandamála og leitt hefur til mikillar aukningar á notkun þeirra. Þessi þróun ásamt miklu magni ávanabindandi lyfja í umferð skapar hættu á of- og misnotkun þessara lyfja.“

Nýir tímar, nýjar áskoranir, breytt neysla

Með forvörnum, fræðslu og aukinni samfélagsvitund hafa Íslendingar náð góðum árangri í að draga úr áfengisneyslu og tóbaksreykingum meðal ungmenna. Í dag eru hins vegar breyttir tímar og hafa lyfseðilsskyldu lyfin og misnotkun þeirra leitt til nýrra áskorana og forvarna á breyttan hátt.

Í rannsókn sem Rannsókn og greining lagði fyrir framhaldsskólanema árið 2018 kemur fram að 11% framhaldsskólanema höfðu notað morfínskyld verkjalyf án lyfseðils einu sinni eða oftar. Þá notuðu 20% háskólanema örvandi lyf til þess að minnka svefnþörf og bæta námsárangur samkvæmt könnun Lyfjastofnunar sama ár. Alls 11% nemenda í tíunda bekk hafa tekið svefntöflur eða róandi lyf án lyfseðils einu sinni eða oftar, sem ekki var ávísað á þau og 1,5% hafa reynt örvandi lyf, eins og ritalín, sem ekki voru ætluð þeim.

Í könnun Gallup á vegum Landlæknisembættisins í lok árs 2018 kom fram að rúmlega þriðjungur Íslendinga á aldrinum 18-67 ára hefur notað ólögleg vímuefni einhvern tíma um ævina. Flestir svöruðu því til að hafa fengið ávísað lyfjum frá lækni aðspurðir um aðgengi að lyfseðilsskyldum lyfjum.

Dánartíðni vegna lyfja eykst

Lyfjatengd andlát voru 39 árið 2018 en meðaltal andláta síðustu tíu ár eru 27. Það sem af er árinu 2019 eru 23 dauðsföll til skoðunar hjá Embætti landlæknis. Dánartíðni ungmenna vegna lyfjatengdra andláta, sérstaklega ungra karlmanna, var mjög há á síðasta ári. Þá létust 10 karlmenn á aldrinum 15-29 ára.

„Fikt getur í aðeins eitt skipti reynst dýrkeypt og óafturkræft“

Sjúkraflutningar vegna ofneyslu jukust um 7% árið 2018, en útköll voru 453 talsins. Auknar komur á bráðamóttöku LSH eru gríðarlegar, en ef miðað er við árin 2013-2017 er aukningin 96,4% vegna fíkniefna og sterkra lyfja. „Þetta eru ekki lengur jaðarhópar sem eru að fikta við vímuefni, þetta er orðið svo algengt meðal flottra ungra krakka sem koma frá heimilum þar sem þau hafa fengið góðan stuðning, hafa góðar einkunnir og hafa allt til brunns að bera,“ segir Jón Magnús Kristjánsson, yfirlæknir bráðalækninga á LSH, í fyrirlestri sem hann hélt í nóvember 2018.

Aukning í alvarlegum umferðarslysum

Síðustu ár hefur akstur undir áhrifum áfengis lækkað á sama tíma og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna verður algengari. Í tölum Samgöngustofu kemur fram að alvarlegum umferðarslysum vegna aksturs undir áhrifum fíkniefna hefur fjölgað gríðarlega. Árið 2017 slösuðust 52 af völdum fíkniefnaaksturs en árið 2017 var sá fjöldi kominn í 85 einstaklinga. Þegar bráðabirgðatölur eru skoðaðar fyrir árið 2019 má sjá að ástandið hefur batnað og telur Samgöngustofa að það megi þakka vitundarvakningu, bættri löggæslu, samráðsfundi aðila sem að málefninu koma og átakinu Eitt líf.

„Betur má ef duga skal og við verðum að halda áfram að berjast. Samgöngustofa mun styðja við verkefnið af fullum krafti áfram,“ segir Hildur Guðjónsdóttir, hópstjóri í öryggis- og fræðsludeild Samgöngustofu.

Hvað er til ráða?

Virkja þarf nærsamfélagið og styrkja verndandi þætti í umhverfi barna og ungmenna, auk þess að auka líkur á að þau nýti tíma sinn á jákvæðan og uppbyggjandi hátt. Forvarnarlíkanið, Íslenska módelið, sem byggir á samstarfi aðila í nærumhverfi barna og ungmenna, gengur út á að styrkja verndandi þætti í umhverfi barna og ungmenna, meðal annars með því að styrkja stuðningshlutverk foreldra og skóla og fjölga tækifærum barna og ungmenna til að stunda skipulagt tómstundastarf.

Með auknum úrræðum, fjármagni og forvörnum, auk betra aðgengis ungmenna og aðstandenda að ráðgjöf ætti að vera vel hægt að draga úr neyslu ungmenna. Aukin vitundarvakning og samkennd samfélagsins með vanda þeim sem steðjar að ungmennum í dag, auk þess sem umræðan um vandann verður sífellt opnari um leið og skömminni og leyndinni er svipt af málaflokknum veitir von um að draga megi verulega úr þeim háu tölum sem samantekt Eitt líf sýnir fram á. Það er í það minnsta vilji allra þeirra sem að málefninu koma.

Samantekt Eitt líf má finna í heild sinni inn á vef samtakanna eittlif.is

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -