Kona í Kópavogi lenti í þeirri hræðilegu reynslu að ráðist var á hana á heimili hennar fyrir framan börn hennar og hundur þeirra numinn á brott. Konan sem vill ekki koma fram undir nafni af ótta við hefndaraðgerðir sagði Mannlífi sögu sína.
„Þann fimmta september í fyrra fékk par hvolp hjá mér sem ég afhenti þeim á Akureyri. Tíu dögum síðar lendir hvolpurinn í slysi þar sem hann brotnar á framfæti, því þriggja ára gömul dóttir þeirra var eftirlitslaus með hvolpinn að leika sér, sagði maðurinn mér í samtali þann fjórtánda október þegar hann óskar eftir því að fá að skila hvolpinum til mín aftur. Ástæðan fyrir því var sú að konan hans stakk af; hún hafi skilið hann eftir með þrjú börn og hundinn og hann segir að hann geti ekki sinnt hundinum lengur þar sem hann nái engu sambandi við fyrrum sambýliskonu sína, og foreldrar hennar segi honum að láta hana vera“.
Konan samþykkti „að taka við hvolpinum aftur, og kemur maðurinn (fyrrum sambýlismaður konunnar) með hann til mín sextánda október; skilar öllum pappírum og dóti sem fylgdi hundinum“.
Í kjölfarið fór konan með hvolpinn til dýralæknis í skoðun vegna þess að dýrið kveinkaði sér mikið og var greinilega mjög illt í fætinum, sem hafði brotnað.
„Hundurinn var þá nýlega laus úr umbúðunum þegar honum var skilað til mín.“
„Nokkru síðar hefur konan, sem fékk hundinn upphaflega, samband og segir hún sé komin aftur heim og vilji fá hundinn sinn til baka, en ég segi henni að honum hafi verið skilað af manninum hennar og hann væri alls ekki að fara aftur í þessar heimilisaðstæður. Hún segir að ég sé að ljúga og að maðurinn hefði ekki skilað hundinum heldur beðið mig um pössun“.
Segir konan að fljótlega eftir þetta hafi byrjað langt og leiðinlegt dómsmál fyrir héraðsdómi.
„Svo núna 16. júní réðst dópfélagi konunnar, ásamt vini sínum, inn á heimili mitt þar sem tólf ára gamall sonur minn og níu ára gömul dóttir mín og ég erum heima; tekur hundinn og ætlar sér að labba með hann út“.
Konan reyndi að stöðva manninn og vin hans – „og bið ég son minn um að hringja á lögregluna en á meðan er ég að berjast við að ná hundinum; elti ég manninn fram á gang og inn í lyftu, og þegar komið er á jarðhæðina reyni ég að koma í veg fyrir að þeir komist út úr blokkinni með hundinn. Þá rífur maðurinn í mig og þeytir mér frá með þeim afleiðingum að ég skell í gólfið og fékk högg á alla vinstri hlið líkamans og hnakka og þurfti að leita mér læknisaðstoðar og fá áverkavottorð“.
Í kjölfarið „hleypur maðurinn þá út með hvolpinn í fanginu, og reyni ég að elta hann, en vinur hans varnar mér leið út: Svo sé ég hvar maðurinn kemur bakkandi niður götuna hjá mér á bíl og er konan sem fékk hjá mér hvolpinn í farþegasætinu.“
Í kjölfarið lét konan lögregluna vita af innbrotinu, líkamsárásinni og þjófnaði af hendi þessa fólks.
Hún segir: „Hér eru börnin og ég í áfalli eftir þessa árás, og að hundurinn okkar sé í höndum ókunnugra aðila sem hann þekki ekki neitt, enda búin að vera hjá okkur frá því að honum var skilað fyrir átta mánuðum síðan.“
Árni Stefán Árnason er lögmaður konunnar og hann hefur þetta að segja um dómsmálið fyrir héraðsdómi:
„Því lauk með því að innsetning hafi verið heimiluð hjá þolandanum og merkir að sýslumanni er heimilt að krefjast þess að fá hundinn afhentan og ber gerðarþola að verða við þeirri beiðni. Sýslumaður hefur hins vegar aldrei frá því að úrskurður féll krafist afhendingar á hundinum en gerðarþoli hefur greitt 250 þúsund krónur samkvæmt málskostnaðarákvörðun dómara; sem er ígildi andvirðis hundsins. Með öðrum orðum verður sýslumaður eða lögmaður konunnar sem fékk hundinn að hafa frumkvæði að því að hundurinn sé sóttur,“ segir Árni Stefán og bætir við:
„Þetta háttalag í máli þessu varðar að mínu mati við ýmis ákvæði almennra hegningarlaga, sem við getur legið fangelsisrefsing og verður lögð fram formleg kæra „Hér eru íslenskar gæsalappir“hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu 24. júní næstkomandi. Þar mun skjólstæðingur minn áskilja sér rétt til verulega hárrar miskabótakröfu taki lögreglan þá ákvörðun að ákæra umræddan mann og aðstoðarmann hans sem réðust inn í íbúðina, en aðstoðarmaðurinn er ótvírætt hlutdeildaraðili að lögum og verður kærður líka.“