Konráð Sigurðsson höfundur og Þórir Karl Celin teiknari bjóða nú upp á glænýja bók um Jóa kassa, Jói kassi og horklessan, endurgjaldslaust til að stytta börnum og foreldrum stundir í samkomubanni.
„Þetta er mitt framlag fyrir börnin á þessum erfiðu tímum,” segir Konráð og þakkar jafnframt fyrir stuðninginn og viðtökur við seríunni um Jóa kassa, en sú fyrsta kom út árið 2010.
Bókin fjallar á gamansaman hátt um ástandið sem nú ríkir um allan heim og er sett í skemmtilegan búning fyrir börn, sem læra handhæg ráð í baráttunni gegn kórónaveirunni. Bangsar í klukkum, hamstur á klósettpappír og fleira kemur við sögu.
Bókin kemur út á íslensku og ensku og býðst notandum einnig að ná í bókina og þýða á önnur tungumál. Nú þegar hefur bókinni verið hlaðið niður í tíu löndum.
„Stöndum saman og reynum að senda Jóa kassa á sem flesta svo að sem flest börn geta notið þess að lesa og lita,” segir Konráð.