Með starfseminni á Vogi næst engan veginn að sinna þeim fjölda sem þarf á aðstoð að halda vegna fíknivanda.
Dæmi um hóp sem ekki henfur fengið þá þjónustu sem hann þyrfti eru konur í mjög erfiðum aðstæðum. SÁÁ, í samstarfi við Reykjavíkurborg og velferðarráðuneytið, rekur búsetuúrræðið Vin fyrir heimilislausa karlmenn sem stríða við alvarlegan fíknisjúkdóm, sprauta efnunum í æð og hafa ítrekað leitað meðferðar en ekkert sambærilegt úrræði er til fyrir konur.
„Vin er fyrir 24 karlmenn og við höfum viljað reka sambærilegt úrræði fyrir konur því við sjáum að það vantar,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. Hún segir 10 til 15 rými myndu mæta þörfinni en ástæðan fyrir því að konurnar hafi setið á hakanum sé líklega sú að þær hafi gjarnan átt greiðari aðgang að annarri þjónustu, m.a. vegna þess að þær eru oft með börn á sínu forræði. Um sé að ræða viðkvæman hóp. „Konur eru oft í erfiðri stöðu og fá kannski ekki tækifæri til að jafna sig nógu lengi og safna kröftum og fá trú á sjálfum sér aftur. Þær þurfa miklu meira en sex vikur; þær sem eru í erfiðustu stöðunni þurfa meira. Og húsnæðisvandinn er auðvitað stór þáttur, ekki bara fyrir þennan hóp heldur alla bara.“
Fjallað er ítarlega um málefni SÁÁ í helgarblaði Mannlífs.