Laugardagur 11. janúar, 2025
5.8 C
Reykjavik

Konur minna virði en karlar?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

LEIÐARI Í fyrsta skipti í sögu íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta lítur út fyrir að uppselt verði á heimaleik þeirra á Laugardalsvelli, leik gegn Þýskalandi í undankeppni Heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Vinni íslensku stelpurnar leikinn eru þær búnar að tryggja sér þátttökurétt á HM sem fram fer í Frakklandi á næsta ári. Þegar íslenska karlalandsliðið var í sömu stöðu á síðasta ári og gat tryggt sér þátttökurétt á HM í leik á Laugardalsvelli gegn Kósóvó þá seldist upp á örfáum mínútum. Fyrir þann leik var þrenns konar miðaverð í boði eftir staðsetningu sætanna; 3000, 5000 og 7000 krónur og fimmtíu prósent afsláttur fyrir börn. Miðinn á leik kvennalandsliðsins og Þýskalands kostar 2000 krónur fyrir fullorðna og 500 krónur fyrir börn, sama hvar setið er.

Þrátt fyrir að miðar á þennan mikilvæga og einn stærsta leik kvennalandsliðsins séu á gjafverði sagði Klara Bjartmarz, framkvæmdastjóri KSÍ, í viðtali í morgunútvarpi Rásar 2 á þriðjudagsmorgun að fólk hefði í miklum mæli samband til að fá ókeypis miða, eða orðrétt: „Það verður að segjast eins og er, því miður, að fólk sækist meira í frímiða af því að þetta er kvennaleikur og ætlast til að fá frímiða. Við höfum fengið margar beiðnir um afslætti af barnaverði, fólk telur sig ekki eiga að borga inn á þennan leik því þetta er kvennaleikur.“

Hvernig gengur þessi jafna hins vegar upp í samfélagi þar sem fólk trú ir enn að konur séu minna virði en karlar?

Margir telja að á Íslandi ríki orðið fullkomið jafnrétti milli kynjanna, konur hafi öll sömu tækifæri og karlmenn, og sömu laun – sækist þær eftir þeim. Konur þurfa nefnilega bara að vera duglegri að biðja um kauphækkun, sækja um stjórnunarstöður og hætta að láta beita sig kynbundnu ofbeldi, svo dæmi séu tekin. Hvernig gengur þessi jafna hins vegar upp í samfélagi þar sem fólk trúir enn að konur séu minna virði en karlar? Að konur eigi að fá lægri laun en karlar eða jafnvel engin? Af hverju erum við tilbúin að láta konur spila fótbolta ókeypis meðan við borgum karlmönnum háar fjárhæðir fyrir það sama? Í fyrirlestri sem Þóra Helgadóttir, fyrrverandi landsliðskona í knattspyrnu, hélt á ráðstefnunni „Kyn og íþróttir“ lýsti hún muninum á aðbúnaði karla- og kvennalandsliðanna með skýrum hætti þegar hún sagði meðal annars: „Munurinn á kvennalandsliðinu og karlalandsliðinu var rosalegur. Þeir fengu að spila vináttuleiki og fengu dagpeninga. En það sem skipti mestu máli var að þeir fengu virðingu.“ Virðing. Er það kannski lykilorðið? Burtséð frá öllum launagreiðslum og peningamálum, erum við fær um að sýna konum þá virðingu að þær séu til jafns á við karla í þessu samfélagi? Getum við borgað þeim fullt verð fyrir þeirra vinnu? Getum við gert ráð fyrir þeim í stjórnunarstöðum? Getum við borið virðingu fyrir þeirra viðhorfum og vilja? Getum við hætt að beita þær ofbeldi? Getum við hætt að hlutgera þær? Getum við fyllt völlinn á landsleik kvennalandsliðsins í fótbolta og borgað uppsett verð?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -