- Auglýsing -
Mótmælt var á Keflavíkurflugvelli í gærkvöld þegar konurnar þrjár frá Nígeríu, Blessing, Esther og Mary voru sendar nauðugar úr landi eftir að þær höfðu dvalið ólöglega á landinu undanfarin ár. Konurnar voru handteknar í síðustu viku og vistaðar í ríkisfangelsinu á Hólmsheiði. Í gær voru þær sendar úr landi. Fulltrúar No Borfers samtakanna mótmæltu en allt kom fyrir ekki. Baráttukonan Sema Erla Serdaroglu staðfestir að brottrekstur kvennanna hafi gengið eftir í gær. Hún segir á Facebook að ein kvennanna, Blessing, sé sárveik.
„Blessing kom til Íslands árið 2018 í leit að vernd frá mansali. Blessing er í dag með æxli í kviðarholi sem fer stækkandi og kallar á greiðan aðgang að bráðaþjónustu sérhæfðra kvennadeilda á sjúkrahúsi. Blessing getur ekki gengið vegna veikinda sinna,“ skrifar Sema Erla.
Hún hefur eftir lækni að Blessing sé ekki ferðafær af heilsufarsástæðum og að brottvísun ógni lífi hennar. Þrátt fyrir þetta var hún send úr landi.
„Útlendingastofnun telur það að stofna lífi fólks í hættu með beinum hætti einfaldlega ekki vera ástæðu til að fresta brottvísun. Svona koma íslensk stjórnvöld fram við konur á flótta. Svona kemur ríkisstjórnin fram við þolendur nauðgunarmansals. Þvílík ævarandi svívirða sem valdhafa halda áfram að kalla yfir land og þjóð,“ skrifaði Sema Erla.
Hún upplýsir að sumarið 2023 hafi konurnar verið sviptar rétti til húsnæðis, heilbrigðisþjónustu og „í raun allra grundvallarmannréttinda“. Sema Erla hefur eftir talskonu Stígamóta að þetta sé gróft brot á alþjóðaskuldbindingum Íslands.