Kór Lindakirkju bauð til tónlistarveislu sunnudaginn 3. nóvember. Flutt var blanda af kraftmikilli gospeltónlist undir dyggri stjórn Óskars Einarssonar.
Einsöngvarar úr röðum kórfélaga stigu á stokk og hljómsveitin var skipuð: Óskar Einarsson, píanó, Páll E. Pálsson, bassi, Brynjólfur Snorrason, slagverk og Andreas Hellkvist, hammond.
Aðgangur á tónleikana var ókeypis en tekið var við frjálsum framlögum til styrktar forvarnarverkefninu Eitt líf/Minningarsjóði Einars Darra.
Viku seinna, sunnudaginn 10. nóvember mætti síðan faðir Einars Darra, Óskar Vídalín, og tók við hálfri milljón sem kór Lindakirkju safnaði fyrir Eitt líf/Minningarsjóð Einars Darra. Ásta Sóllilja Sigurbjörnsdóttir sá um afhendingu á söfnunarfénu fyrir hönd kórsins.
Lindakirkja var upplýst að utan í bleikum lit sem var uppáhaldslitur Einars Darra, bæði á tónleikunum og sunnudaginn 10. nóvember. Lindakirkja er komin með útilýsingu sem lýsir kirkjuna upp og hægt er að velja nokkra liti en bleikur var valinn fyrir Einar Darra.