Mánudagur 23. desember, 2024
4.8 C
Reykjavik

Kórónuveiran: Önnur bylgjan sækir í sig veðrið

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

19 tilfelli kórónuveiru greindust á Íslandi eftir sýnatökur í gær, samkvæmt staðfestum tölum Embættis landlæknis. Þar af voru 12 utan sóttkvíar. Fleiri tilfelli hafa ekki greinst á einum sólarhring síðan í apríl, þegar fyrri bylgja faraldursins stóð hvað hæst og stíft samkomubann var í gildi. Önnur bylgja faraldursins virðist því ekki vera í rénun heldur þvert á móti sækja í sig veðrið.

Þetta á ekki bara við um Íslandi, því í byrjun þessarar viku skráði WHO metfjölda nýsmita á einum sólarhring. Alls greindust 307.930 tilfelli á heimsvísu á sunnudaginn var og virðist það hafa slegið tóninn fyrir vikuna. Mest var aukningin á Indlandi, Bandaríkjunum og Brasilíu.

Evrópa fer þó ekki varhluta af seinni bylgjunni, því á meginlandinu fer nú tilfellum ört fjölgandi. Stjórnvöld flestra ríkja halda að sér höndum við að beita viðlíka lokunum eins og gripið var til í vor. Er ekki að undra, því höggið fyrir hagkerfi heims er nú þegar orðið allt að fjórum sinnum meira en það var í heimskreppunni árið 2009, samkvæmt OECD. Til að forðast afturhvarf til lokana er hinsvegar víða í Evrópu kveðið harðar á um að almenningur virði samskiptafjarlægð að nýju og andlitsgrímur eru orðnar hluti af daglegu lifi.

Hvaða lönd glíma við aðra bylgju?

Enn sem komið er virðist önnur bylgjan ekki ætla að ná sömu hæðum í Evrópu og hin fyrri gerði í vor. Belgía, Ítalía og Bretland eru meðal þeirra Evrópulanda sem fóru verst út úr veirunni í vor, en þótt þar sé aukning tilfella nú er hún ekki í líkindum við það sem verst lét í fyrri bylgjunni.

Í sumum löndum austur Evrópu, svo sem Tékklandi, Búlgaríu og Albaníu, hefur seinni bylgjan hinsvegar risið hærra en hin fyrri. Þó ber að hafa í huga að þegar faraldurinn hófst höfðu mörg lönd litla getu til að framkvæma skimanir. Fjölgun tilfella í mörgum Evrópulöndum nú má því að hluta til skýra með því að fleiri séu prófaðir nú heldur en í vor.

Önnur bylgja veirunnar hefur líka valdið usla í Suður-Kóreu og Ástralíu. Ísrael hefur hinsvegar farið hvað verst út úr annarri bylgjunni með um 4000 ný tilfelli á dag. Fyrir vikið taka harðar lokanir gildi að nýju á morgun, sama dag og nýja árið hefst samkvæmt tímataldi gyðinga, og munu þær gilda í minnst þrjár vikur.

- Auglýsing -

Á Íslandi ríkja gildandi takmarkanir vegna faraldursins fram til 27. september og munu stjórnvöld endurmeta hvort unnt sé að aflétta þeim eftir því sem efni standa til. Haldi þróun mála áfram eins og verið hefur síðustu daga má telja líklegt að ekki verði gefnar frekari tilslakanir í bráð.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -