Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason segir að þótt forsetakosningarnar hér séu afstaðnar sé nóg framundan – í kosningum.
„Veðurstofan spáir hreti alla næstu viku. Forsetakosningarnar búnar. En við skulum átta okkur á því að framundan eru stórar kosningar sem hafa líklega meiri áhrif á líf okkar en kosningarnar í gær.“
Hvað á Egill eiginlega við?
„Ég á við kosningar til Evrópuþingsins 6.-9. júní. Þar er ystahægrið í gríðarlegri framsókn og getur verið mjög afdrifaríkt fyrir Evrópusambandið.“
Egill nefnir einnig „kosningarnar á Bretlandi 4. júlí. Við Íslendingar sækjum svo mikið af fyrirmyndum í okkar pólitík til Bretlands – hugmyndastraumarnir í pólitíkinni liggja frekar þaðan en t.d. frá Norðurlöndunum, sbr. thatcherisma Sjálfstæðisflokksins og blairisma Samfylkingarinnar.“
Og svo síðast en ekki síst:
„Loks eru það forsetakosningarnar í Bandaríkjunum 5. nóvember þar sem Donald Trump getur komist aftur til valda.
Það mun valda skjálfta um allan heim. Sem ég segi – þessar kosningar erlendis munu sennilega hafa meiri áhrif á tilveru okkar og stjórnarfar en kosningar um valdalítinn forseta hér heima.“