Ýmis áhugaverð ummæli voru látin falla í vikunni. Þetta eru nokkur þeirra.
„Þessi samningur er ekkert annað en tvísköttun á fólkið í landinu.“
Vigdís Hauksdóttir, oddviti Miðflokksins í borgarstjórn, fer hörðum orðum um nýjan samgöngusamning.
„Íslenskan á nú meir undir högg að sækja en nokkru sinni fyrr. Við eigum ekki að sætta okkur við það að fólk sem vinnur verslunar- og þjónustustörf á Íslandi tali ekki íslensku þó ekki væri nema öryggisins vegna.“
Jón Magnússyni hæstaréttarlögmanni finnst mikið öryggisatriði að starfsfólk verslana tali íslensku.
„Svívirðilegar aðferðir í valdatafli.“
Haraldur Johannessen ríkislögreglustjóri segir aðför í gangi til að hrekja hann úr embætti ríkislögreglustjóra.
„Það er eins og honum líði eins og hann sé hafður einn úti í horni og enginn vilji lengur leika við hann.“
Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur, um ummæli Haralds.
„Ef að ríkislögreglustjóri veit af spillingu innan lögreglunnar ber honum skylda til þess að tilkynna slíkt.“
Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata.
„Það hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að spilling sé útbreidd innan lögreglunnar. Það er mikilvægt að hafa í huga að innan lögreglunnar er unnið mikið og gott starf.“
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ég get ekki séð að við þingmenn Sjálfstæðisflokksins getum stutt stjórnarsamstarf sem fer fram með þessum hætti. Það er best að gera grein fyrir því strax.“
Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir aðferðarfræði Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfisráðherra við friðlýsingar ekki standast skoðun. Ráðherra fari ekki eftir lögum.
„Ég er ósammála því að þarna sé ég ekki að fara að lögum. Ef við skoðum það sem kemur að friðlýsingum gegn orkunotkun, þá eru það þau svæði sem Alþingi ákvað að yrðu friðlýst árið 2013. Ég var ekki á Alþingi þá.“
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra.
„Kostar að leyfa græðginni að ráða för.“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir álagið á bráðamóttöku Landspítalans vera afleiðingar nýfrjálshyggju.
„Endurskoða þarf núverandi kerfi skóla án aðgreiningar. Ekki dugar að vera sammála um stóru drættina þegar ljóst er að okkur er að mistakast.“
Kolbrún Baldursdóttir, oddviti Flokks fólksins í borgarstjórn.