Ásgeir H. Ingólfsson, blaðamaður og skáld, lést í nótt eftir baráttu við krabbamein, aðeins 48 ára að aldri. Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og vinur Ásgeirs, sagði frá andláti hans á Facebook-síðu sinni.
„Kæru vinir. Hræðilegar fréttir. Ásgeir féll frá í nótt. Við vottum fjölskyldu og nánustu aðstandendum dýpstu samúð. Að ósk þeirra og í anda Ásgeirs mun viðburðurinn sem skipulagður hefur verið eigi að síður fara fram á umræddum tíma. Vonumst til að sjá sem flesta og minnast mæts manns. Húsið verður opið frá tvö í dag og upplestur hefst uppúr sjö í kvöld,“ segir á síðunni. Undir tilkynninguna rita Valur, Jón Bjarki, Hlín og Atli.
Þrátt fyrir að hafa glímt við ólæknandi krabbamein var Ásgeir óbugaður og stefndi að viðburðinum Lífskviða sem haldinn er í sumarbústað skammt við Kjarnaskóg í dag. Aðstandendur hans halda sínu striki þrátt fyrir andlát hans og halda viðburðinn á tilsettum tíma í dag. Listamenn koma fram og lesa ljóð eftir hinn látna og og ljóð honum til heiðurs.