Sunnudagur 12. janúar, 2025
6.8 C
Reykjavik

Kraftaverk við Hólmsheiði: 3 stungur í hjartað og björgunarsveitir ræstar út – „Við töldum hann af“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Þjóðinni var brugðið þegar ég opnaði mig um þunglyndi ástkærs föður míns í nóvember hins alræmda árs sem nú er liðið. Þann 21. nóvember 2020, reyndi pabbi að stytta sér aldur í afar átakanlegri sjálfsvígstilraun. Honum var ekkert hálfkák í hug.“

Þetta sagði Engill Bjartur Einisson, ljóðskáld og rappari, í lok nóvember er hann greindi frá tilraun föður síns til að svipta sig lífi. Þar lýsti hann á afar áhrifaríkan hátt skelfilegum raunveruleika þeirra sem glíma við þunglyndi og hvaða áhrif það hefur á fjölskyldu þeirra.

Í pistli á vef Mannlífs hefur Engill Bjartur birt einlægan og áhrifaríkan pistil þar sem hann lýsir hinni örlagaríku nótt, þegar hann vaknaði og uppgötvaði að faðir hans var horfinn ásamt ökutæki Engils Bjarts og hafði hann tekið öll sterkustu verkjalyfin sem var að finna á heimilinu. Lögregla og björgunarsveitir voru ræstar út til að bjarga föður hans sem hafði stungið sig þrisvar með hníf í hjartastað.

Faðir Engils Bjarts fannst í bíl er lagt var utanvegar við Hólmsheiði og í sætinu sat faðir hans vart með meðvitund. Hann hafði tekið banvænan skammt af sterkum lyfjum sem hann hafði aðgang að sem læknir og hafði ekið í skjóli nætur út fyrir bæinn.

„Við í fjölskyldunni töldum hann af. Þetta var sorglegasti dagur lífs míns án nokkurs vafa. Lífsreynsla sem ég myndi ekki óska mínum versta óvini að upplifa ef ég ætti óvini. Við pabbi erum ekki bara feðgar og bestu vinir; við erum sálubræður. En pabbi lifði af.“

- Auglýsing -

Landsmönnum var létt að harmleikurinn hefði sloppið fyrir horn. Markmið Engil Bjarts að opna sig um þessa sáru lífsreynslu er að hjálpa öðrum, þeim veiku og aðstandendum þeirra. „Og sjálfum mér að vinna úr áfallinu því ég hef verið sonur þunglyndissjúklings alla mína ævi,“ segir Engill Bjartur en það hefur verður þungur róður frá bernsku fyrir hinn unga Engil að upplifa veikindi föður síns og fjölmargar sjálfsvígstilraunirnar. „Ég man þegar þú sagðir mér eitt sinn að þú værir „þunglyndasti maður í heimi.”.

Engill telur einnig að létta megi á þjáningu fólks með því að lyfta bæði þögn og skömm af þunglyndi. „Það er enginn munur á þunglyndi og krabbameini í mínum huga. Fólk hrjáð af þessum sjúkdómum er því miður dauðvona í mörgum tilfellum.“

Kraftaverkið

„Pabbi var vægast sagt dauðvona aðfaranótt þessa átakanlega dags 21. nóvember 2020. En þessi pistill er ekki um dauðann. Hann er um lífið. Það sem fáir fréttu á sínum tíma er að kraftaverk bjargaði pabba. Þið heyrðuð rétt. Kraftaverk frá sjálfum Guði. Hvort sem fólk kýs að trúa því eður ei er aukaatriði því pabbi lifði af. Þetta var ekki hans dagur til að deyja.“

- Auglýsing -

Engill segir föður sinn hafa lagt bílnum út í móa og vonast til að lyfin sem hann hafði innbyrt myndu gera útslagið. En hann vaknaði. Við gefum Engli hér orðið:

„Hins vegar var hann með egghvassan vasahníf með í fórum sem var hans „plan B“ til að kveðja þennan heim og kvalir þunglyndisins með honum. Hann stakk sig þrisvar í hjartastað. Á bólakaf. Svo þung var sorg þessa svæsna sjúkdóms sem of sjaldan er talað um. En á þriðju stungunni kom Sonur Guðs – Drottinn Jesús Kristur – og bjargaði mínum ástkæra föður. Pabbi sá stutta sýn af Jesú og samtímis heyrði hann rödd Hans segja:

„Ég er Drottinn.“

Það sem gerðist í kjölfarið var eins og í ævintýri. Björgunarsveitin fann pabba örfáum sekúndum síðar. Hann labbaði sjálfur úr banasætinu og yfir í sjúkrabílinn; lagðist meira að segja hjálparlaust í börurnar.“

Engill segir að bati föður hans hafi verið kraftaverki líkastur.

„En það sem meira máli skiptir er hans andlegi bati. Það er mér mikil ánægja að tilkynna að Guð hefur gert mikilfenglega hluti fyrir pabba á liðnum mánuðum. Þunglyndið hans er betra en það hefur verið í yfir tvo áratugi. Og við eigum það engum öðrum að þakka en sjálfum Drottni Jesú Kristi sem greip í taumana á elleftu stundu.

Þegar pabbi var allsendis bjargarlaus – svo illa haldinn af þunglyndi að öll von var úti – kom Skaparinn og blés lífi í hann á ný. Það er nefnilega Guð sem hefur vald yfir lífi og dauða. Enginn annar. Við vitum ekki hvenær okkar dagur kemur. En það veit Guð,“ segir Engill Bjartur og bætir við:

„Og í tilfelli pabba míns, var sá dagur sannarlega ekki 21. nóvember 2020.“

Engill segir marga ekki vilja muna dagsetningar átakanlegra daga. Í huga Engils er dagurinn heilagur. Dagurinn þar sem allt breyttist.

Þetta er dagurinn sem Drottinn bjargaði besta vini mínum og sálubróður – ástkærum pabba mínum. Þess vegna fékk ég mér í gær húðflúr á hjartað til dýrðar Drottins; á sama stað og hnífsblaðið stöðvaði nærri því hjarta pabba,“ segir Engill Bjartur og bætir við að húðflúrið verði á hjarta hans til æviloka:

Rétt eins og þakklætið mun búa mér í brjósti um alla eilífð. Það minnir mig á að kraftaverkin gerast enn. Og það er yfirlýsing mín til allra að von er möguleg fyrir þá sem þjást.“

Hér má lesa pistil hins unga og efnilega rithöfundar, Engil Bjarts, á vef Mannlífs.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -