Fimmtudagur 12. desember, 2024
5 C
Reykjavik

Kraftaverkið og gamla konan í Kringlunni: Það sem skiptir máli

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir / Stefán Ólaf Stefánsson

Í nokkur ár starfaði ég í fataverslunni Next. Þar átti ég frábæra tíma með yndislegu samstarfsfólki ásamt því að kynnast mörgum skemmtilegum kúnnum. Einn viðskiptavinur mun þó alltaf standa upp úr og honum mun ég aldrei gleyma.

Þessi viðskiptavinur var eldri kona sem að gekk inn í verslunina einn daginn ásamt eiginmanni sínum. Ég hafði verið dapur í bragði og dagurinn þungbær en þessi dagur átti eftir að verða ein besta kennslustund sem ég hef setið í lífinu.

Ég bauð góðan dag og fann um leið að þetta var enginn venjulegur viðskiptavinur. Þau hjónin voru komin til að finna nýjar buxur en eiginmaðurinn hafði verið lengi rúmliggjandi á spítala og því grennst mikið. Fyrst og fremst vildu þau samt bara njóta þess að vera með hvort öðru eftir langa sjúkrahúsvist og rölta á milli búða.

Meðan maðurinn mátaði ýmsar gerðir af buxum spjallaði ég við gömlu konuna. Við töluðum saman  eins og við hefðum alltaf þekkst. Hún sagði mér frá syni sínum sem var læknir í Svíþjóð, sýndi mér mynd af honum sem hún gekk með í veskinu og ég heyrði á henni að sonurinn var henni afar náinn. Hún talaði mikið um fjölskyldu sína, manninn sinn og vini. Þau hjónin væru svo hamingjusöm þrátt fyrir að vera bæði mikið veik.

Hún var með krabbamein. En þegar hún talaði um krabbameinið vottaði aldrei fyrir vorkunn í rödd hennar. Hún hafði komið öllum börnum sínum til manns og það að hún myndi bráðlega fara væri bara gangur lífsins. Lífið hafði gefið henni svo margt nú þegar.

- Auglýsing -

Ég horfði á þessa eldri konu og hugsaði með mér hvernig hún færi að því að vera svona jákvæð.

Að glíma við svæsin og mikil lífshættuleg veikindi en um leið hafa tök á því að horfa svona björtum augum á lífið; það fannst mér vera einstakt. Ég fékk einnig samviskubit, því fyrr um daginn hafði ég vorkennt sjálfum mér fyrir nokkur smávægileg vandamál sem voru nú löngu horfin. Mín vandamál voru hjóm eitt við hlið hennar. Nákvæmlega ekkert.

Spjall okkar tveggja hélt áfram en að endingu kvöddumst við. Vikurnar liðu og þessi heimsókn sat föst í huga mér.  Ég vissi ekki hvað gamla konan hét og hafði aldrei séð hana áður en í þessari stuttu heimsókn hafði ég lært svo margt.

- Auglýsing -

Það var þó einn daginn að hjónin komu aftur. Þau sögðust ekki ætla að versla neitt en höfðu fundið þörf fyrir að koma og heilsa upp á mig. Gömlu konunni hafði þótt svo gaman að tala við mig seinast og fundist ég vera indæll og skemmtilegur drengur. En í þetta skiptið vildi gamla konan segja mér fréttir:

„Veistu, ég var að koma frá spítalanum og á ég að segja þér,“ sagði konan og tók sé örstutt hlé áður en hún hélt áfram og bætti við:

„ … Krabbameinið er bara farið!“

Ég stóð stjarfur. Það að hún skyldi deila þessu með mér var ótrúlegt. Ég þekkti þessa konu ekki neitt en ég var jafn ánægður við að heyra þessar fréttir eins og við værum náskyld. Ég vissi ekki hvað ég ætti að segja en sagði samt að kannski væru æðri máttarvöld að verki. Þetta þótti henni vænt um að heyra og brosti, kannski væri það bara rétt hjá mér.

Ég hef aldrei hitt þessa konu aftur og mun örugglega aldrei gera en þennan dag, minnti hún mig á hvað það er í lífinu sem raunverulega skiptir máli. Slíka áminningu er stundum gott að fá. Málið er nefnilega það að á vegi okkar allra verða margskonar hindranir sem þó eru miserfiðar viðureignar.

Við eigum að vera þakklát fyrir það ef við þurfum ekki að mæta þeim stærstu og erfiðustu en það eru hindranir sem snerta heilsuna. Það að fá að vakna á hverjum morgni í heilbrigðum líkama eru forréttindi og við sem erum það heppin eigum ævinlega að vera fyrir það þakklát.

Í samfélagi okkar eru nefnilega fullt af hetjum, bæði stórum sem smáum sem ekki eru það heppinn og þurfa kljást við slíkar hindranir í sínu daglega lífi.

Til þeirra eigum við að hugsa til reglulega.

Því það eru hinar sönnu hetjur.

Stefán Ólafur Stefánsson

Höfundur er uppeldis- og menntunarfræðingur

Stefán Ólafur Stefánsson var lengi einn vinsælasti pistlahöfundur Pressunnar. Hann er uppeldisfræðingur að mennt og er nýr pistlahöfundur á Mannlíf. Stefán hefur leikinn á Mannlíf með pistli sem sló í gegn fyrir nokkrum árum og var þá lesinn af tugum þúsund Íslendinga. Frásögnin hitti lesendur í hjartastað og ættu allir að geta tengt við skilaboðin sem bentu okkur á það sem skiptir máli!

Stefán  hefur látið gott af sér leiða og starfað mikið með unglingum sem glíma við andleg veikindi, svo sem kvíða, félagsfælni eða þunglyndi. Þá heldur hann úti síðu líkamsrækt (sjá hér) fyrir ungmenni á aldrinum 14 til 18 ára, er glíma við andlega vanlíðan.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -