Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í borgarstjórn segir væntanlegan meirihluta Kryddpíanna í Reykjavík ekki endurspegla samfélagið eða niðurstöðu síðustu kosninga. Nýr meirihluti Samfylkingar, Sósíalista, Vinstri grænna, Flokks fólksins og Pírata er í burðarlið. Meirihlutinn nefnist Kryddpíurnar. Nafnið er til komið vegna þess að á fundi kvennanna fimm sem leiða nýju valdaflokkana bauð Heiða Björg Hilmisdóttir, leiðtogi Samfylkingar, upp á kryddbrauð á heimili sínu.
Atburðarásin sem leiddi til falls fráfarandi meirihluta hófst með því að Einar Þorsteinsson borgarstjóri sleit meirihlutasamstarfinu og virtist hafa uppi í erminni loforð frá Flokki fólksins um að standa að nýjum meirihluta ásamt Sjálfstæðisflokknum. Inga Sææland, formaður Flopkks fólksins, stöðvaði þau áform og Einar og Framsóknarflokkurinn því utangarðs ásamt Sjálfstæðisflokknum og Viðreisn.
Nýji meirihlutinn á 12 borgarfulltrúa af 23. Hildur Björnsdóttir er ekki sátt við framvinduna. Hún segir í samtali við Ríkisútvarpið að þrír flokka nýja meirihlutans hafi ekki náð ekki inn á þing í nýlegri könnun frá Gallup um fylgi flokka. „Þar er nokkuð ljóst að það er ekki eftirspurn eftir róttækum vinstri meirihluta hér í Reykjavík,“ segir Hildur sem sjálf hefur átt í basli með að halda saman flokki sínum sem hefur þríklofnað þegar verst lætur.
„En ef þetta verður lendingin þá verðum við auðvitað kröftug og í þrumustuði í minnihlutanum og reiðubúin í mikil tækifæri í næstu kosningum,“ segir Hildur.