Mánudagur 23. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Krefst rannsóknar vegna virkjunar

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ekki er nóg að framkvæmdum við Hvalárvirkjun hafi verið slegið á frest heldur þarf að fara fram opinber rannsókn á  öllu ferlinu. Elías Kristinssson, sjómaður á Dröngum í Árneshreppi á Ströndum, er sannfærður um að lög hafi verið brotin og krefst lögreglurannsóknar.

„Ég er nú bara trillukarl á Ströndum en ef ég væri ríkur færi ég alveg á fullt í þetta því óréttlætið er svo mikið. Málið verður að rannsaka ofan í kjölinn því ég er viss um að þarna hafa lög verið brotin,“ segir Elías sem heimtar opinbera rannsókn á öllu verkferlinu hvað varðar Hvalárvirkjun. Hann hefur með formlegum hætti óskað eftir því við Lögregluembættið á Suðurnesjum, stjórnendur HS Orku og stjórnendur Lífeyrissjóðsins Gildi að allt ferlið verði rannsakað frá upphafi til enda. Hann skilur ekkert í því af hverju engin svör fást frá viðkomandi aðilum.

Enginn samanburður

„Ég er búinn að rita öllum þessum aðilum en fæ engin svör til baka frá neinum þeirra. Það finnst mér ótrúlegt. Þeir ættu að minnsta kosti að geta svarað mér því að ég sé bara að bulla, það er þó allaveganna svar,“ segir Elías.

Sigurður Gísli Pálmason kaupsýslumaður hefur einnig gagnrýnt hvernig staðið var að málum með Hvalárvirkjun þar sem lagaskyldu hafi ekki verið sinnt með því að bera saman ólíka kosti. Hann bauðst á sínum tíma til að greiða úr eigin vasa mat á stofnun sérstaks UNESCO-þjóðgarðs í Árneshreppi á Ströndum og stendur við tilboð sitt verði til hans leitað. Sigurður Gísli telur að hugsandi menn hafi á endanum séð að þarna væri ekki á vetur setjandi. „Í þessu tilfelli var samanburðarkosturinn svokallaður núllkostur. Það var enginn samanburður og ég hef bent á að um það gildi lagaskylda. Ef fólk í Árneshreppi kemur til mín mun ég sannarlega taka á móti því,“ sagði Sigurður Gísli í samtali við Mannlíf.

Verður að rannsaka

- Auglýsing -

Elías segist spyrja sjálfan sig að því hvaðan allir peningarnir hafi komið til Vesturverks vegna framkvæmdarinnar. Hann segir allt of mörgum spurningum ósvarað. „Það er því miður svo margt í þessari vegferð sem vekur upp stórar spurningar. Til dæmis skil ég ekki þetta fyrirtæki Vesturverk. Samkvæmt ársreikningum þess virðist það eignarlaust félag með engar tekjur sem tekst að eyða milljörðum í þetta verkefni. Hvaðan komu peningarnir? Var þetta fyrirtæki með óútfylltan tékka frá HS Orku og lífeyrissjóðunum?“ spyr Elías.

„Þetta verður auðvitað að rannsaka því það er svo margt þarna skrítið. Að mínu viti er alveg pottþétt að þarna hafa verið brotin lög, svo langt sem réttarvitund almenns þegns nær. Ég krefst lögreglurannsóknar á þessu.“

Lítið um málið að segja

- Auglýsing -

Jóhann Snorri Sigurbergsson, forstöðumaður viðskiptaþróunar HS Orku, bendir á að þær framkvæmdir sem tengjast Hvalárvirkjun séu fyrst og fremst málefni Vesturverks að svara fyrir. Aðspurður segist hann ekki tjá sig um einstaka samskipti við aðila nema þau væru opinber. „Við reynum þó almennt að svara þeim fyrirspurnum sem er beint til okkar og tengjast HS Orku. Annars höfum við í sjálfu sér ekkert um þetta að segja. Varðandi kröfu um opinbera rannsókn þá er að sama skapi lítið um það að segja annað en að til þess bær yfirvöld eru best til þess fallin að taka afstöðu til þess.“

Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, kannaðist ekki við að hafa fengið beiðni frá Elíasi um lögreglurannsókn þegar Mannlíf leitaði viðbragða. Gylfi Gíslason, formaður Lífeyrissjóðsins Gildi, kannast heldur ekki við að hafa fengið erindið til sín. „Muni erindið berast verður tekin afstaða til þess,“ segir Gylfi.

Umdeildar framkvæmdir

Vesturverk sem er að mestu í eigu HS Orku hugðist reisa Hvalárvirkjun í Ófeigsfirði á Ströndum og virtist fátt koma í veg fyrir þær fyrirætlanir. Skipulagsstofnun taldi að virkjunin kæmi til með að hafa veruleg neikvæð áhrif á óbyggð víðerni Vestfjarða. Óbyggðanefnd hafði úrskurðað Drangjökul sem þjóðlendu og landeigendur stóðu í deilum vegna vegagerðar og landamerkja.

Eva Sigurbjörnsdóttir.

Náttúrfræðistofnun blandaðist í málið eftir að andstæðingar virkjunarinnar vísuðu á að friðaðir steingervingar væru á framkvæmdasvæðinu. Fjögur íslensk náttúruverndarsamtök börðust gegn áformunum, Landvernd, Náttúrverndarsamtök Íslands, Ungir umhverfissinnar og Rjúkandi, með því að leggja tvívegis fram kæru gegn deilduskipulagi og framkvæmdaleyfi Hvalárvirkjunar. Alþjóðlegu náttúruverndarsamtökin tóku undir þá kröfu að svæðið beri að vernda. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði stöðvunarkröfunni í fyrra og til stóð að nefndin tæki afstöðu til seinni kæru náttúrverndarsamtakanna fjögurra. Á endanum kom ekki til þess, framkvæmdum var slegið á frest í COVID-19 faraldrinum, en þær áttu að hefjast nú í sumar, skrifstofu Vesturverks var lokað og starfsfólki sagt upp.

Í samtali við Mannlíf segist Eva Sigurbjörnsdóttir, oddviti Árneshrepps á Ströndum, afar vonsvikin. Hún segir náttúruna skipta minna máli en orkuöryggi íbúa Vestfjarða. „Í nútímasamfélagi er þetta ekki ásættanlegt. Náttúran er bara lítill hluti af þessu máli. Að fá sæmilegt orkuöryggi vegur miklu þyngra en þessi litli partur af Vestfjörðum sem fer undir. Nema ríkisstjórnin vilji flytja okkur hreppaflutningum suður. Við myndum svo sem ekki taka mikið pláss í Reykjavík,“ segir Eva.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -