Kristín María Stefánsdóttir er þrítug, tveggja barna móðir sem býr á Akureyri. Kristín hefur átt við bakvandamál að stríða síðan hún fór í fyrstu myndatökuna á baki þegar hún var fimmtán ára gömul. Hún eignaðist son árið 2006 og eftir meðgönguna hríðversnaði hún í bakinu og átti erfitt með að hreyfa sig, eins og hún var vön að gera.
„Hægt og rólega komu kílóin á mig. Með árunum og miklu brasi alltaf með bakið á mér, án þess að fá svör um hvað amaði að, versnaði það og einnig andlega heilsan,“ segir Kristín í samtali við Mannlíf. Eftir langa þrautagöngu ákvað Kristín að snúa vörn í sókn árið 2015.
„Ég hafði tekið þá stóru ákvörðun að taka mér frí frá vinnu og fara í það verkefni að finna út hvað væri að gerast í líkamanum mínum, enda löngu komin yfir hundrað kíló og gat á tímum ekki gengið fyrir verkjum,“ segir Kristín. Hennar fyrsta verk var að leggjast inn á bakdeildina á spítalanum á Stykkishólmi þar sem hún dvaldi í þrjár vikur. Þar fékk hún sprautur í bakið sem gerðu ekki mikið til að lina sársauka hennar.
„Þannig að ég fór heim eftir þennan tíma eins og ég var áður en ég fór, en auðvitað búin að læra margt. Eftir að ég kom heim var ég í sjúkraþjálfun og beið eftir svari að komast inn hjá Virk og byrja í endurhæfingu, þar sem ég þurfti virkilega á þvi að halda. Ég fékk síðan svar í maí um að ég gæti byrjað hjá þeim í ágúst,“ segir Kristín. Í millitíðinni fékk hún símtal frá Kristnesi, endurhæfingar- og öldrunarlækningadeild Sjúkrahússins á Akureyri, um að hún væri komin inní svokallaðan O-hóp fyrir of þungt fólk.
„Ég auðvitað stökk á það tækifæri. Ég hugsaði ekkert út í það hvort ég væri í raun tilbúin fyrir þetta ferli þegar ég labbaði inn á Kristnes í júní og var þar í 4 vikur á virkum dögum. En ég mætti og kynntist yndilslegu fólki, lærði helling en nýtti mér það ekki. Þegar ég hugsa til baka núna, þá gerði ég ekki annað en að kvarta og leið bara alls ekkert vel, ég var bara ekkert tilbúin. Á meðan á öllu þessu stóð, hélt ég áfram að versna í líkamanum.“
Fóstrið blómstraði ekki í kviðnum
Kristín fékk óvæntar fréttir í júlí sama ár um að hún væri með barni. Fréttir sem glöddu hana mjög.
„Þegar ég var komin 12 vikur, fékk ég að vita að það sæist ekki það sem ætti að sjást á tólftu viku og að öllum líkindum væri ekkert búið að gerast lengra en áttundu vika. Ég tók þetta mjög nærri mér,“ segir Kristín og bætir við að hún hafi strax vitað af hverju fóstrið blómstraði ekki í kvið hennar.
„Líkaminn minn var einfaldlega orðinn of veikur til þess að halda því á lífi. Eftir þetta versnaði allt mjög mikið líkamlega. Ég var flutt með sjúkrabíl frá sjúkraþjálfaranum mínum þar sem taugaverkir og annað var orðið það slæmt að ég gat bara ekkert staðið upp af bekknum,“ segir Kristín sem var orðin langþreytt á að fá ekki að vita nákvæmlega hvað amaði að bakinu.
„Kannski það leiðinlegasta við þetta er líka að svörin við bakverkjunum var alltaf það að ég væri orðin of þung og núna þyfti ég bara að fara heim og gera eitthvað í mínum málum. Ég veit ekki hvað ég var búin að fara oft niður á sjúkrahús og bara send heim með lyf og þá setningu að ég þyrfti að leggja af. Sem er ekki rétt leið að hjarta og hug manneskju sem er vel í ofþyngd. Sú manneskja veit það vel og ef það væri svo auðvelt að fara bara heim og leggja af, hugsa ég að það væru ekki margir í ofþyngd.“
Þrjátíu ára og 127 kíló
Í kjölfarið þurfti Kristín að ganga við hækjur í tvo mánuði vegna verkja og fresta endurhæfingu hjá Virk þar sem hún var ekki fær um að sinna henni. Í staðinn byrjaði hún í sundleikfimi með eldri borgurum í Akureyrarlaug og fór að hitta sálfræðing hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands reglulega. Það var þá sem Kristín gerði sér grein fyrir að hún þyrfti ekki síður að taka sig í gegn andlega.
„Ég áttaði mig heldur betur á því að ég þurfti ekki bara að fara í endurhæfingu með líkamann á mér heldur hausinn á mér líka. Þarna var ég orðin 127 kíló, ekki orðin þrítug. Það var ekkert bara bakið. Það kannski byrjaði þar, en það besta sem ég gerði í þessu ferli var að byrja hjá sálfræðingi og fara að hugsa um mín mál. Þarna voru gömul og ný mál sem ég þurfti, og átti bara eftir, að vinna úr og á þessum þremur árum sem ég hef verið að vinna í mínum andlegu málum hefur heldur betur margt breyst,“ segir Kristín, sem hélt áfram að sækja sálfræðitíma og sundleikfimi og er þakklát fyrir þá hjálp sem hún hefur fengið.
„Fólkið hjá Kristnesi og Starfsendurhæfingu Norðurlands er allt yndislegt fólk og ég á þeim margt að þakka. Þarna hitti ég fólk sem loksins hlustaði og gerði ekki lítið úr mínum vandamálum.“
Versnaði í bakinu eftir aðra meðgöngu
Kristín gat ekki hreyft sig mikið fyrir utan sundtímana, en ákvað í janúar árið 2016 að taka mataræði sitt í gegn.
„Ég tók þrjá mánuði sykur-, hveiti- og aukaefnalausa,“ segir Kristín og sá strax mikinn mun. „Ég missti 13 kíló á þessum þremur mánuðum. Ég losnaði endanlega við hækjurnar og var farin að labba niður í sundlaug og bæði fara í sundleikfimi og gera sjálf æfingar í lauginni. Markmiðið mitt daglega var að labba tvö til þrjú þúsund skref. Hægt og rólega urðu þessi skref fleiri og fleiri. Í lokin á þessum þremur mánuðum var mikil breyting á mér,“ segir hún og bætir við að eftir þetta tímabil hafi hún hætt á þessu mataræði.
„Ég gat það bara ekki lengur, en sá heldur betur að með réttu mataræði getur svo mikið gerst.“
Kristín var búin að losa sig við sautján kíló í apríl sama ár, stundaði enn sundleikfimi og gekk um sex þúsund skref á dag. Hún byrjaði í prógrammi hjá Starfsendurhæfingu Norðurlands og sá alltaf meiri árangur andlega og líkamlega. Þá varð hún ólétt af sínu öðru barni.
„Ég var mjög hrædd um bakið á mér en ég gat bara ekki annað en fagnað þessu litla heilbrigða lífi. Meðgangan gekk bara ágætlega likamlega og ég hætti ekkert að hugsa um mataræðið þrátt fyrir mikla ógleði og annað fyrst til að byrja með. Ég fór í göngutúra og var í meðgöngusundi,“ segir Kristín.
Það var svo í janúar í fyrra sem Kristín fékk litla stúlku í hendurnar og þá kom smá bakslag í lífsstílinn sem hún hafði tileinkað sér.
„Ég versna meira í bakinu, en fann þó að ég jafnaði mig fyrr eftir bakslagið, þar sem líkaminn var orðinn sterkari en áður. En ég missti tökin pínulítið í mataræðinu, og vá hvað það var heldur betur fljótt að gerast. Ég áttaði mig fljótt á því hvað var að gerast hjá mér, enda komin með mikil andleg tæki og tól eftir sálfræðitímana og sneri þessu við. Þess vegna segi ég, andlegi þátturinn er risastór í öllu þessu.“
Ekkert sem heitir skyndilausnir
Kirstín stundaði meðgöngusund í átta mánuði eftir að hún átti stúlkuna, gekk um allt með barnavagninn í hvaða veðri sem er og fór í sjúkraþjálfun. Hún segir að þarna hafi hún loks verið 100% tilbúin til að fara aldrei aftur í sama farið.
„Ég þurfti að minna mig á það á hverjum degi af hverju ég væri að þessu. Hausinn á manni á það til að vera það erfiðasta sem maður dílar við í svona ferli og þetta kostar blóð, svita og mörg tár. Það er ekkert sem kallast skyndilausnir í þessum málum. Það komu margir dagar þar sem bakið gafst upp og ég var rúmliggjandi, en þarna var ég búin að ákveða að þetta bak væri ekkert að fara verða það sem myndi láta mig gefast upp,“ segir Kristín, sem tók mataræðið heljartaki á þessu tímabili.
„Ég þurfti að endurskoða allt sem ég keypti, allt sem ég eldaði. Ég fann leiðir til að gera rétti hollari sem ég eldaði áður og eyddi miklum tíma í eldhúsinu bara til að finna út hvað mér fannst gott. Ég prófaði alltaf eitthvað nýtt. Ég las og tók næringarfræði í menntaskólanum á meðan ég var í endurhæfingu. Ég lærði að borða grænmeti. Já, lærði,“ segir Kristín og hlær. „Ég borðaði ekki mikið af því en í dag borða ég allt grænmeti. Það er svo ótrúlega mikið sem ég er búin að læra sem ég bara áttaði mig aldrei á.“
„Þetta er eilífðarverkefni“
Í kjölfarið fékk Kristín loksins svör um hvað amaði að bakinu.
„Það er komið mikið slit í neðstu tvo hryggjaliði og útbunganir á þremur stöðum. Ég reyndi aftur að fara í sprautur, en þær gerðu litið gagn eins og í fyrra skipti. Aðgerð hjá mér er möguleiki en ekki möguleiki inni á mínu heimili þar sem ég er með fimmtán mánaða gamalt barn, og bataferli eftir aðgerðina langt. Ég tók því ávörðun með mínum lækni að halda áfram mínu ferli og sjá hvert það kemur mér varðandi bakið. Ég get kannski ekki lagað þetta vandamál, en ég gat og get gert allt annað í líkamanum betra til þess að hjálpa mér við að díla við þetta ákveðna vandamál.“
Í dag er Kristín komin niður í 88 kíló, úr 127 kíló. Hún segir að þolinmæði og þrautsegja hafi verið lykillinn að velgengni hennar í þessari lífsstílsbreytingu.
„Ég fór loksins að nota það sem mér var kennt á öllum þessum stöðum sem ég hef verið á, nýta hverja mínútu sem ég hafði með öllum þessum fagaðilum sem voru þarna til þess að hjálpa mér. Markmiðið í upphafi var að léttast og fá svör við bakverkjunum, enda þurfti ég þess. En maður þarf að taka hausinn á sér með svo að maður sé tilbúinn fyrir þetta. Þetta er eilífðarverkefni ef maður ætlar að viðhalda sér. Þetta er erfitt, en ég er að gera þetta og ef ég get það, þá geta svo sannarlega aðrir það.“
Ekki bera þig saman við næsta mann
Hana dreymir um að hjálpa öðrum að lifa betra og heilsusamlegra lífi.
„Ég er búin að stunda bóklegt nám í gegnum þetta allt. Ég var búin að ákveða að læra læknaritarann og hef verið að stefna að því, en það er vinna sem bakið á mér kannski höndlar. En á þessum þremur árum hef ég fengið mikla trú á sjálfri mér og í dag langar mig að mennta mig í þá átt að geta hjálpað öðrum sem eru að ganga í gegnum þetta. Að kynnast fólki sem skilur mann, getur aukið mikinn skilning hjá manni,“ segir Kristín. En hvað vill hún segja við fólk sem er í sömu stöðu og hún var fyrir þremur árum síðan?
„Ekki gefast upp þó að ekkert gerist á vigtinni í einhvern tíma eða þú borðaðir óhollt og heldur að allt sé ónýtt. Það kemur alltaf dagur á eftir þessum degi og þá reynum við að gera betur. Þér þarf að líða vel og skilja að líkaminn er að ganga í gegnum miklar breytingar og styrkjast. Ef þú átt erfitt með hreyfingu, þá get ég sagt þér að á þessum tíma bjargaði sundleikfimi öllu hjá mér. Settu þér lítil markmið til að byrja með, gerðu girnilegu, hollu uppskriftina sem þú ert búin að ætla að gera lengi, labbaðu x mörg skref á dag og sigraðu sjálfan þig með því að bæta þig. Maður þarf alltaf að byrja á litlu hlutunum. Það ert þú sem þarft að gera þetta, taka þessar ákvarðanir fyrir þig, en nýttu þér hjálp frá fólkinu í kringum þig.
Ekki horfa á það sem næsta manneskja er að gera og bera þig saman við hana. Gerðu þitt eigið. Byrjaðu í dag, ekki á morgun.“
Myndir / Úr einkasafni