Laugardagur 21. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Kristinn Rúnar gekk 100 km samfleytt í maníu: „Að vera á geðdeild er svolítið eins og að vera góður í póker“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristinn Rúnar Kristinsson, sem er 31 árs að aldri, hefur glímt við geðhvörf í rúman áratug, en hann var greindur með geðhvörf árið 2009. Í maníum hefur hann margoft lent í ýmsum uppákomum, sem margar eru hálflygilegar að heyra.

Kristinn Rúnar gaf bókina Maníuraunir: Reynslusaga strípalingsins á Austurvelli út í lok ársins 2018, og las hana síðar sjálfur inn sem hljóðbók á Storytel. Í bókinni segir hann frá því þegar hann berháttaði sig á Austurvelli, sem hann varð landsþekktur fyrir eftir að fréttir birtust af atvikinu, hvernig hann reyndi að tengjast Cristiano Ronaldo í gegnum Herbalife og stýrði umferð á sundskýlunni einni fata.

Bókin Maníuraunir

Kristinn Rúnar hefur verið opinn um andleg veikindi sín, og vill vekja fólk til umhugsunar um geðsjúkdóma. Núna í júní fór hann í sína fimmtu maníu, og segist hann hafa gengið fram af sjálfum sér í bókstaflegri merkingu.

„Ég gekk 100 kílómetra samfleytt dagana 17.-18. júní í 30 klukkutíma án þess að stoppa neitt,“ segir Kristinn Rúnar í samtali við Mannlíf, en hann hóf gönguna heiman frá sér í Furugrund í Kópavogi.

„Þaðan labbaði ég í Mosó, og var þar í tvo daga án þess að sofa og labbaði síðan aftur heim,“ segir Kristinn Rúnar. Í færslu á Facebook segist hann hafa ákveðið eftir mikið labb um Mosfellsbæ að hann ætlaði að flytja í eina af blokkunum þar í framtíðinni. „. Hún er rosalega flott, með glæsilegum stórum gluggum og nokkuð vel falin. Ég var að spá í að ganga vestur í Borgarnes en hætti við það og ákvað að skoða Mosó betur og var þar í rúmlega tvo daga, svaf ekki neitt. Skoðaði mörg íbúðarhverfin og byggingar gaumgæfulega. Gekk hljóðlega framhjá hestum í kring, skoðaði náttúruna og vötn. Var orðinn töluvert skítugur og blautur eftir þessar raunir. Fékk mér sjeik, vatn og Coca Cola á Barion Bar og gekk síðan aftur í Kópavoginn.“

Kristinn Rúnar hélt aftur heim, en þó ekki til að hvíla sig. „Ég gat heldur ekki sofið vegna birtunnar og orku. Það var mjög erfitt í marga daga. Þannig að þarna sá eg ekkert annað i stöðunni en að klára sjálfan mig og hvílast síðan i kjölfarið.“

- Auglýsing -

Að hans sögn var síminn hans óvirkur, líklega vegna þess að hann sló leyninúmerið of oft rangt inn, sennilega sökum þreytu. Bíllinn hans var einnig bilaður. „Ég keyrði því ekki neitt í þessari maníu og gekk allt sem ég fór.“

Kristinn Rúnar á göngunni

Atvik með lögreglunni

Kristinn Rúnar hélt áfram göngunni, heiman frá sér beint í miðbæinn á föstudagskvöldinu, þar var hann alla nóttina að skoða hótel, byggingar og styttur. „Í hádeginu á laugardag ákvað ég síðan að labba í Skeifuna til að hefna mín á lögreglunni, eftir atvikið á föstudagskvöldinu.“

- Auglýsing -

Atvikið sem Kristinn Rúnar vísar til varð að hans sögn þegar hann var mættur í miðbæinn í slæmu ástandi, sem hann segir ekki hafa farið framhjá neinum. Hann gaf sig á tal við lögreglumenn sem þar voru.

„Ég treysti mér ekki til þess að ganga í Kópavoginn sökum þreytu og einnig var ég farinn að finna gríðarlega til í hásinunum sem ég hélt fyrst að væru hælsæri því ég var að vígja nýju Jordan skóna mína þessa daga í maníunni. Þeir litu út eins og tveggja ára eftir á,“ segir Kristinn Rúnar, sem segist hafa beðið lögregluna um að skutla sér á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, „því ég ætti nokkuð stóra og langa sögu þar inni, undanfarinn rúma áratuginn. Ég var ekki búinn að sofa þarna í þrjá daga og leit ekki vel út, svarið sem ég fékk frá þeim var að geðdeildirnar væru ekki starfræktar lengur og að þeir væru uppteknir við annað og gætu því ekki hjálpað mér,“ segir Kristinn Rúnar, sem segist í sínu skrítna og maníska ástandi þarna hafa hugsað með sjálfum mér hvort barátta hans undanfarin ár, hefði skilað svo miklum árangri að við þyrftum ekki geðdeildir lengur.

Kristinn Rúnar segist þá hafa ætlað að ganga heim en ekki haft orku til þess og verið sárkvalinn í hásinunum. Hann hafi hins vegar getað gengið á lögreglustöðina við Hverfisgötu, þar sem enginn var, en hann hringdi í lögregluna og lét vita þannig af sér.

„Þrír ungir lögregluþjónar komu og spjölluðu við mig, tvær stelpur og einn strákur. Þau voru frekar leiðinleg og dónaleg, sérstaklega strákurinn. Sögðust ekkert kannast við mig eða mína sögu og tjáðu mér að þau gætu ekki verið leigubílstjóri fyrir mig. Ég brjálaðist af reiði, sagði þetta ömurlegan leikþátt hjá þeim og strunsaði öskrandi í burtu. Ekki alveg það sem ég þurfti á að halda í þessu ástandi, sem var orðið alvarlegt og lögreglan, af öllum aðilum, að gera það ennþá verra,“ segir Kristinn Rúnar.

„Þau lásu bara rangt í aðstæður, ég var bláedrú og virkaði kannski of eðlilegur. En ég var blautur, í mjög skítugum skom og draghaltur eftir að hafa misþyrmt hásinunum dagana a undan,“ segir Kristinn Rúnar í samtali við Mannlíf. „Aðrir lögregluþjónar, án hroka og leiðinda hefðu lesið aðstæður betur. Hvernig ég brast við þegar mér var tjáð að þau væru ekki leigubíll fyrir mig var atriði út af fyrir sig, ég varð rosalega reiður, og þau löbbuðu bara frá því eins og ekkert hefði gerst. Ég var mjög greinilega í andlegu ójafnvægi.”

Aðspurður segir hann að hans reynsla sýni honum að margs konar fordómar og stælar þrífist innan lögreglunnar gagnvart andlega veikum einstaklingum. „Þau verða svakalega góð með sig þegar í búninginn er komið. Mér skilst að skrif mín séu skellur fyrir lögregluna, og fordóma lögreglumanna gagnvart andlegum veikindum fólks. Einnig oft á tíðum slæmt viðmót þeirra gagnvart vandamálum borgara.“

„Mynd af mér í sjúkraþjálfun vegna verulega bólginna og illa tognaðra hásina. Sjúkraþjálfarinn minn sagði mér að ef ég væri atvinnumaður í íþróttum þá væri ég frá æfingum og keppni í þrjár vikur.“

Stjórnaði umferð í Skeifunni í maníuástandi

Kristinn Rúnar segir að þar sem lögreglan tók hann ekki alvarlega hafi hann tekið þá ákvörðun að fara í Skeifuna og fikta í umferðinni. „Það hefur verið mitt „go to move“ síðustu ár þegar ég er í þessu ástandi,“ segir Kristinn Rúnar. Aðspurður segist hann alveg hafa vitað hvað hann var að gera.

„Algjörlega, ég vissi hvað ég þyrfti að gera. Flestir eru ekki meðvitaðir og ekki með mikið innsæi. Muna lítið sem ekkert eftir maníunum. En ég hef gott innsæi, veit alltaf hvernig mér líður og man allt, 320 blaðsíðna bók sannar það,” segir hann. „Ég öskraði og hótaði bílum í 20 mínútur þar til allt fór í panik, og tveir lögreglubílar og lögreglumenn komu í losti. Loksins var ég tekinn alvarlega og að ég þyrfti aðstoð.“

Í færslunni á Facebook lýsir Kristinn Rúnar atburðarásinni þannig: „Ég bjó til atriði í hausnum á leiðinni í Skeifuna, fann mér svona oddhvasst tréspjót sem er oft við umferðareyjur og öskraði á ökumenn og hótaði þeim. Spurði þá hvort þeir væru sekir eða saklausir yfir einhverju alvarlegu sem ég bjó til og náði að ,,sæka“ mig upp og öskra stanslaust yfir í 15-20 mínútur. Tók góðan hring í Skeifunni og endaði uppi á brúnni ofan í bílum þar til lögreglan kom á tveimur bílum í algjöru losti og panikki yfir þessu leikriti sem ég hafði búið til. Ótrúlegt að ég hafi haft orku í þetta eftir allt það sem hafði gengið á dagana á undan. Þetta þurfti til svo að lögreglan tæki mig alvarlega. Hún spurði mig samt sem áður, þegar í lögreglubifreiðina var komið, hvort ég vildi fara heim til mín eða á geðdeild. Ég sagði: ,,Ég þarf að fara á geðdeild og fá tveggja vikna hvíld.“ Dagarnir þar inni urðu fimmtán talsins.“

Í samtali við Mannlíf segir hann hafa fundið leið sem skaðaði engan. „Létt panikk samt a fólki og löggu, ekki í fyrsta sinn svo sem.“

Aðspurður um hvort hann hefði ekki fengið pláss á geðdeild hefði hann einfaldlega gengið þar inn og beðið um aðstoð, segir hann plássleysi valda því að aðeins þeir veikustu fái aðstoð. „Það er mjög erfitt að fá innlögn á geðdeild og maður þarf helst að hafa gert eitthvað af sér og koma i lögreglufylgd til að fá pláss. Ég hefði sennilega komist inn með herkjum þarna sjálfur fyrir Skeifu-dæmið. Alls ekki víst samt. 50% líkur að ég hefði verið sendur heim með lyf ef ég hefði komið sjálfur. Ég vissi alveg af þeim möguleika, þrátt fyrir mína sögu. Þess vegna fór ég líka og tryggði mitt pláss,“ segir hann.

„Það var virkilega erfitt en nauðsynlegt að fá rammann utan um sig. Það eru alltaf 2-3 aðilar sem búa á bráðageðdeild 32 C hverju sinni og eru með gríðarleg læti. Engin önnur úrræði eru fyrir þessa aðila. Öll sú mikla spenna sem er þarna inni fer í lappirnar á mér, og voru þær gríðarlega viðkvæmar fyrir að þessu sinni. Fyrstu dagana á deildinni voru þær eins og á líki, skjannahvítar og ekkert blóðblæði var til staðar,“ segir Kristinn Rúnar.

En hvernig er að vera á geðdeild?

„Að vera á geðdeild er svolítið eins og að vera góður í póker. Þú ert oft á tíðum að sýna að þér líði vel þó svo að þér líði alls ekki vel, ert að sýna að þú sért æðstur eða einn af þeim æðstu þarna inni og að gríðarleg læti, pípandi varnartæki og sprettandi starfsmenn fái ekkert á þig og að þú sért ,,Cool as ice“ yfir ástandinu. Að vera inni á bráðageðdeild hljómar ekkert svo svakalegt, en að vera þar í 2-3 vikur er algjör sturlun,“ segir Kristinn Rúnar, sem líður vel í dag. „Ég hef það fínt í dag, kominn mánuður frá þessu actioni.”

„Jordan skórnir sem voru glænýir fyrir 100 kílómetra gönguna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -