Föstudagur 10. janúar, 2025
3.8 C
Reykjavik

Kristinn Rúnar Kristinsson er með geðhvörf: Er ekki að taka strípalinginn aftur niðri á Austurvelli

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

 

„Ég var 13 ára þegar ég íhugaði alvarlega að fremja sjálfsvíg. Þá var ég í mínu fyrsta þunglyndi. Ég hélt að mér myndi aldrei líða betur en ég gat ekki gert fjölskyldunni þetta. Ég sá bara svartnætti,“ segir Kristinn Rúnar Kristinsson sem er með geðhvörf og hefur skrifað bók um reynslu sína því tengdu og heldur auk þess fyrirlestra í skólum og fyrirtækjum til að fræða fólk. Hann opnaði sig um veikindi sín árið 2014 og hefur síðan verið ötull baráttumaður um vitundarvakningu í landinu um geðsjúkdóma.

Fyrstu einkenni geðhvarfanna fóru að láta á sér bera einmitt þegar Kristinn var 13 ára. „Það er talað um 50% geðhvarfa tengist umhverfinu og 50% erfðum. Í mínu tilfelli eru þetta örugglega 90% umhverfi af því að það er enginn annar í ættinni með geðhvörf. Ég hef lent í tveimur áföllum sem ég held að hafi „triggerað“ þetta. Hið fyrra tengist því að atvinnumannadraumarnir í fótbolta gengu ekki eftir, en ég var í landsliðinu á Shellmótinu 1999, var markakóngur árið áður, og einn sá besti í körfunni, og svo lést Guðni, bróðir minn, í flugslysi þegar ég var 18 ára.“

Ég datt svona 20 sinnum í unglingadeildinni í þunglyndissveiflur eða -lotur sem vörðu í tvær vikur í senn.

Kristinn segist vera öfgakenndur maður almennt. Ýktur. „Ég þyngdist til dæmis hratt en sumarið 2001 fór ég úr 50 kílóum í 62 kíló; ég náði mér ekkert aftur á strik í boltanum og þetta var bara gígantískt áfall. Ég og fleiri voru búnir að sjá mig í atvinnumennsku í framtíðinni. Þetta er upphafið að geðhvörfunum. Ég datt svona 20 sinnum í unglingadeildinni í þunglyndissveiflur eða -lotur sem vörðu í tvær vikur í senn. Læknar og sálfræðingar höfðu ekki séð svona svartnætti hjá 13 og 14 ára dreng. Ég missti til dæmis einn þriðja af öllum 10. bekk; ég fór ekki í samræmdu prófin. Ég var bara metinn í lokin. Ég fór í sálgreiningu og var metinn það sem heitir „óyrtir námsörðugleikar“. Þetta er í raun og veru misþroski. Annaðhvort var ég mjög öflugur í hlutum svo sem tungumálum og málfari og svo var ég mjög heftur í til dæmis stærðfræði og náttúrufræði. Greindin mín er á milli 70 og 140; 70 á við mjög greindarskertan mann og 140 á við fluggáfaðan mann. Þetta var mikið vandamál fyrir mig í skóla.“

Kristinn var í Kópavogsskóla og þrátt fyrir mikla vanlíðan oft á unglingsárunum leið honum stundum svo vel og var svo kátur að hann var valinn húmoristi skólans í 10. bekk. Hann segist hafa skammast sín á þessum tíma fyrir þessar neikvæðu tilfinningar og vildi að enginn sæi sig þegar honum leið sem verst.

Kristinn fór í Menntaskólann í Kópavogi og segir að hann hafi verið erfiður nemandi; hann truflaði í tímum og var með fíflalæti og hann segist ekki hafa nennt að gera neitt þannig séð nema til dæmis þegar kom að ritgerðarskrifum.

- Auglýsing -

„Ég kláraði svo MK á átta árum. En ég kláraði allavega. Ég er sterkur á vissum sviðum.“

 

Fuck It Mode

- Auglýsing -

Kristinn fékk fyrstu maníuna árið 2009 og hefur hann sex sinnum farið í maníu í allt. Hann lýsir fjórum þeirra í bókinni sinni Maníuraunum sem er komin út í ensku þýðingu, Don’t Stop Me.

Sjálft aksjónið stendur yfir í um fjórar vikur þar sem ég sef þá kannski tvo til þrjá tíma á sólarhring og næ aldrei djúpsvefni.

„Maníurnar standa yfir í svona sex til átta vikur. Ég er með geðhvörf 1 sem eru þessar ýktu maníur; þeim fylgja ekkert endilega djúpt þunglyndi þannig að ég er eiginlega mitt á milli greininga en geðhvörf 1 endar yfirleitt á geðdeyfð eftir maníurnar. Sjálft aksjónið stendur yfir í um fjórar vikur þar sem ég sef þá kannski tvo til þrjá tíma á sólarhring og næ aldrei djúpsvefni. Aldrei. Ég fer aldrei að sofa; legg mig bara á daginn.“ Þörfin fyrir svefn leggst svo yfir hann þegar maníurnar fjara út og hefur hann sofið í 36 tíma samfleytt í kjölfarið. „Þetta er að dempast með aldrinum og ég er ekki að taka strípalinginn aftur niðri á Austurvelli,“ segir Kristinn en í einni maníunni á sínum tíma fækkað hann fötum niðri á Austurvelli og birtist mynd af honum nöktum í fjölmiðlum. Í annað skipti vildi hann stjórna umferðinni við Smáralind og var líka handtekinn í kjölfarið. Svo í einni maníunni var hann nýkominn úr kjálkaaðgerð og gekk þá samfleytt um 100 kílómetra. Hann talar um peningaeyðslu í maníunum og stundum eyðir hann um milljón krónum á nokkrum vikum með því að nota ýmsar leiðir til að verða sér út um peninga svo sem lán og raðgreiðslur. „Þetta er þá svo mikið „fuck it mode“; seinni tíma vandamál.

Það er alvarlegt að vera í þessu ástandi í einn til tvo mánuði á ári og vera að skandalísera svolítið og leggja þetta á skrokkinn og líka fjölskylduna. Það er rafmagnað andrúmsloft þegar ég er í maníu; fjölskyldan hefur áhyggjur af mér, sérstaklega þegar ég var aðeins yngri.“ Kristinn hefur nokkrum sinnum verið lagður inn á geðdeild og þar af verið nauðungarvistaður þrisvar sinnum.

Kristinn Rúnar Kristinsson

Heldur fyrirlestra

Eins og þegar hefur komið fram hefur Kristinn undanfarin ár haldið fyrirlestra í skólum og fyrirtækjum og rætt um reynslu sína og geðsjúkdóma. Fyrirlesturinn kallast Rússíbanalífið mitt og verkefnið heitir Vitundarvakning um geðsjúkdóma.

„Ég er búinn að vera með 70 fyrirlestra og meira að segja uppistand. Ég held stundum fyrirlestra í skólum eftir að nemendur eru búnir að lesa Engla alheimsins eða horfa á myndina.“

Ég klippti efni frá því í fyrra til að sýna hvernig manía er.

Margir hafa að undanförnu tekið eftir síðu Kristins á Faceook, https://www.facebook.com/krkbipolar. Kristinn heldur úti þeirri síðu en þar vekur hann athygli á geðhvörfum og birtir meðal annars myndbönd sem hann tók í maníum. „Þetta eru átta mínútur,“ segir hann um nýjasta myndbandið. „Ég klippti efni frá því í fyrra til að sýna hvernig manía er. Það er rosalega sterkt að eiga svona maníumyndbönd til að sýna fólki hvernig hún er af því að það er erfitt að útskýra maníu.“

Hvað hefur Kristinn lært á þessari vegferð sinni? „Ég hef lært á sjálfan mig og kynnst mörgu eins og geðdeildum. Ég hef lært hvað við eigum langt í land; hvað fólk veit lítið um geðsjúkdóma. Mér er hrósað að vera hugrakkur og segja sögu mína og koma fram eins og ég er klæddur. Ég held að ég sé vel liðinn en svo finnst sumum ég kannski vera snarklikkaður.“

Það er einmitt ein ástæða þess að þörf er á fræðslu um þessi mál.

Kristinn Rúnar Kristinsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -