„Það fer tölvupóstur til nemenda og foreldra á morgun,“ sagði Kristinn Þorsteinsson, skólameistari Fjölbrautaskólans í Garðabæ.
Fundur var haldinn í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í dag og lauk honum skömmu fyrir hádegi. Fundurinn sem um ræðir var vegna Páls Vilhjálmssonar, kennara við skólann. Foreldrar hafa krafist þess að Páll láti af störfum vegna ummæla hans í bloggfærslu.
Kristinn Þorsteinsson skólameistari sagði í samtali við Mannlíf eftir fundinn að Páli hefði ekki verið sagt upp störfum að svo stöddu.
Aðspurður hvort honum þætti Páll hafa farið yfir línuna í bloggfærslum sínum er kemur að orðalagi sagðist Kristinn ekki geta svarað því.
„Ég veit í sjálfu sér ekki hvar línan er, það er ákaflega flókin spurning“.
Foreldrar og nemendur mættu búast við tilkynningu á morgun vegna málsins, en Kristinn vildi ekki tjá sig um innihald hennar að svo stöddu.
Niðurstaða málsins lægi ekki enn fyrir.
„Hún liggur ekki fyrir, það er ekkert að frétta í bili,“ sagði skólameistarinn.