Sunnudagur 24. nóvember, 2024
-2.3 C
Reykjavik

Kristinn var hetja hafsins sem fór alltof snemma: „Mikið er sárt að kveðja þig elsku Kiddi bróðir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sjómaðurinn og líffræðingurinn Kristinn Ólafur Kristinsson verður borinn til grafar í dag eftir að hafa orðið bráðkvaddur til sjós daginn fyrir gamlársdag. Hann lætur eftir sig einn son.

Kristinn var sannkölluð hetja hafsins en hann stundaði sjómennsku til fjölda ára ásamt því að vinna að rannsóknum fyrir Fiskistofu og Veiðimálastjórn. Hann lauk meistaragráðu í líffræði árið 2010 og rannsakaði hann meðal annars hrygningargöngur laxa og kortlagði botngerð.

Kristinn fæddist í Reykjavík 2. júlí 1963. Kristinn átti þrjár systur, Sigrúnu Kristinsdóttur, Valdísi Kjartansdóttur og Gunnhildi Kjartansdóttur. Kristinn átti einn son, Skúla Jón. Systur hans minnast hans með hlýjum minningarorðum í Morgunblaðinu í dag.

Blessuð sé minning Kristins.

„Hann Kiddi er dáinn, hann er bara farinn frá okkur. Þetta eru ein erfiðustu orð sem ég hef heyrt. Frá því við vorum unglingar höfum við verið góðir vinir og lengi vel vorum við í sama vinahópnum, sem enn og aftur er höggvið skarð í. Samleið okkar hefur verið mikil í gegnum árin og varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að hafa þig við hlið mér í mörgum af stórum stundum lífs míns. Fyrstu íbúðina okkar keyptum við saman. Þú varst á hliðarlínunni ef Bragi næði ekki í fæðingu Bríetar. Þú fórst og keyptir fyrstu bleyjurnar á hana því hún þurfti svo litlar og fengust ekki í venjulegri búð. Keyrðir okkur heim af fæðingardeildinni, varst skírnarvottur hennar. Mættir austur í skírnir hinna barnanna líka. Varst bílstjórinn minn/okkar í brúðkaupinu og vandaðir þig svo við að keyra virðulega og ég svo spennt að ég hnippti í þig og sagði: „Þú mátt alveg keyra hraðar.“ Ég hringdi reglulega í þig og á eftir að sakna þess að heyra í þér. Nú sitjum við ástvinir þínir og syrgjum góðan bróður og vin. Elsku Kiddi, þakka þér fyrir allt sem við áttum saman á lífsleiðinni,“ segir Valdís.

Gunnhidur minnist bróður sín einnig á fallegan hátt. „Elsku Kiddi bróðir minn. Mikið er sárt að kveðja þig. Ég er svo glöð að þú skyldir koma í heimsókn 19. desember sl. Við áttum svo frábæra stund saman. Þú varst svo glaður og það geislaði af þér. Eftir að þú borðaðir hjá okkur fórstu vestur og frétti ég að þú hefðir sungið alla leiðina því þú varst svo hamingjusamur. Það er gott að hugsa til þess. Þú varst frábær stóri bróðir og ég leit alltaf svo upp til þín. Þú hafðir alltaf tíma fyrir mig og varst áhugasamur um hvað ég var að gera. Fallegur varstu, skemmtilegur og með sterkan persónuleika, fróður, duglegur, hreinn og beinn. Ég sakna þín,“ segir Gunnhildur.

Og það gerir Sigrún einnig. „Sólin var farin að hækka ögn á lofti eftir vetrarsólhvörf og næstsíðasti dagur ársins var einstaklega fallegur og veður stillt þegar Kiddi bróðir minn varð bráðkvaddur. Þá dró ský fyrir sólu í huga okkar, svo óraunverulegt að hann væri ekki lengur á meðal okkar. Kiddi var náttúrubarn sem nýtti hverja lausa stund til að veiða, útiveru, skíðaferða á vetrum og ferðalaga um víðan heim. Börnunum okkar leiðbeindi hann um réttu handtökin við að blóðga silung og hvernig ætti að beita sér við veiðarnar. Kiddi horfði alltaf fram á við, hlakkaði til nýrra áskorana og verkefna í leik og starfi. Hans er nú sárt saknað en góðar minningar lifa áfram í huga okkar og hjarta,“ segir Sigrún.

- Auglýsing -

Kristinn verður jarðsunginn í dag kl. 13 frá Fossvogskirkju. Hægt verður að fylgjast með streymi af athöfninni hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -