Laugardagur 28. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Kristján Einar gerir upp fangelsisvistina á Spáni: „Mér var réttur hnífur og sagt að stinga mann“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Það var að éta eða vera étinn. Til dæmis á fyrsta degi sat ég í matsalnum með matarbakkann minn. Þá labbaði til mín Spánverji og byrjaði að fikta í brauðinu mínu. Ég þurfti að standa upp og lemja hann með bakkanum til að sýna að ég yrði ekki beita strax. Þetta var bara gengi. Ég var útlendingurinn. Það var reynt að drepa mig þarna inni,“ segir Kristján Einar Sigurbjörnsson, sjómaður og áhrifavaldur, í ítarlegu viðtali við Sölva Tryggvason en hann losnaði fyrir nokkrum dögum úr fangelsi á Spáni þar sem hann hafði setið í átta mánuði. „Ég áttaði mig á því að ef ég kæmi mér ekki í klíku þá hefði ég verið drepinn þarna inni.“ Kristján Einar talar meðal annars um nauðgun á 19 ára pilti og morði sem hann varð vitni að innan fangelsisveggjanna.

 

Kristján Einar, eða Kleini eins og hann kallast, varð þjóðþekktur þegar hann og söngkonan Svala Björgvins tóku upp ástarsamband. Það var í mars sem Kristján Einar var handtekinn á Spáni í kjölfar slagsmála. „Ég var að labba með tveimur Norðmönnum sem ég hafði kynnst um kvöldið og var búinn að þekkja þá í tvo til þrjá tíma. Þeir enduðu í rifrildi við einhvern heimamann og byrjaði einhver ýtingur og tætingur; engin slagsmál. Ég stökk inn í það og ýtti stráknum. Ekkert meira en það. Og hann kallaði bara á lögregluna. Það var eins og lögreglan hefði verið að bíða eftir þessu því hún var komin 10 sekúndum seinna. Það var byrjað að tala við strákinn og hann talaði einhverja spænsku og ég skildi ekki orð af því sem þeir voru að segja. Svo kom annar lögreglumaður yfir til mín og fór að spyrja mig á spænsku og ég tala ekki spænsku. Þá var ég settur upp við vegg og handjárnaður,“ segir Kristján Einar við Sölva Tryggvason.

Það hefur komið fram að enginn hafi slasast alvarlega.

„Þetta gerðist svo hratt,“ segir Kristján Einar. Hann segir að farið hafi verið með sig á lögreglustöð. Fjórir dagar liðu.

Hann var síðar leiddur í dómssal og var með lögfræðing sem talaði spænsku og segist Kristján Einar ekki hafa skilið orð. „Svo þegar það var búið, þetta tók kannski 20 mínútur, þá kom einhver túlkur inn, en lögfræðingurinn var farinn, og var mér sagt að ég ætti að fara í fangelsi.“

- Auglýsing -

Hann segir að hann hafi ekki vitað fyrir hvað hann var settur inn. Hann hafi verið læstur inni í klefa og ekki fengið neinar upplýsingar. „Það eina sem ég hafði í hendinni var vatnsglas, gaffall og tannkrem. Ekki tannbursti. Bara tannkrem.“

Svo var það samfélagið innan veggja fangelsisins.

„Það var að éta eða vera étinn. Til dæmis á fyrsta degi sat ég í matsalnum með matarbakkann minn. Þá labbaði til mín Spánverji og byrjaði að fikta í brauðinu mínu. Ég þurfti að standa upp og lemja hann með bakkanum til að sýna að ég yrði ekki beita strax. Þetta var bara gengi. Ég var útlendingurinn. Það var reynt að drepa mig þarna inni.“

- Auglýsing -

Kristján Einar segir að hann hafi ekki mátt hringja fyrr en efir 10 til 12 daga og einungis tala í 40 sekúndur. „Ég hafði þessar 40 sekúndur til að hringja í fjölskylduna og segja að ég væri kominn í fangelsi.“ Hann segir að fjölskylda sín hafi þurft að leita að sér þar sem þau vissu ekki hvar á Spáni hann var og hvað þá síður í hvaða fangelsi. Móðir hans kom síðan út tveimur dögum eftir að hann hringdi. „Hún tók á leigu Airbnb-íbúð og var þarna alla átta mánuðina. Fór ekki frá stráknum sínum. Það er ekki hægt að biðja um meira.“

Kristján Einar segir að það hafi svo tekið um mánuð að fá „símasamning“ þannig að þá fékk hann 15 símtöl á viku og mátti tala í átta mínútur í hvert skipti.

Hann er spurður hvort íslenska utanríkisráðuneytið hafi ekkert gert. „Ég skipti þá engu máli. Það var ein manneskja sem hjálpaði. Það var kona hjá íslenska sendiráðinu á Spáni. Hún var sú eina sem tók þessu eins og manneskja.“

Dómur féll. Kristján Einar átti að sitja inni í sex ár.

Kristján Einar Sigurbjörnsson
Ljósmynd: Instagram-skjáskot

Verra en í bíómynd

Kristján Einar segist hafa verið settur í ranga álmu þar sem han hafi verið fyrstu sex mánuðina. „Ef þú ert erlendur þá áttu að vera settur í aðra álmu; þar eru Hollendingar, Norðmenn og allt þetta okkar fólk þannig séð. En þarna var ég settur með þeim alræmdustu.“ Hann segir að þarna hafi verið morðingjar og nauðgarar.

Svo voru það gengin. Klíkurnar. „Spánverjar, Egyptar, Frakkar og Pólverjar. Það voru klíkurnar. En þegar ég kom inn voru engir Pólverjar komnir í þá álmu sem ég var í.“

Hann segir að þarna hafi verið um 200 manns. „Ég gat ekki tjáð mig við neinn. Það talaði ekki ein einasta sála þarna ensku. Þetta var bara einangrun,“ segir hann um tímann áður en Pólverjarnir komu. „Það var stjóri í hverri klíku. Það er hann sem ákveður allt. Og þú skalt bara hlýða honum.“ Hann segist ekki hafa getað verið í klíku með Spánverjunum og hann var ekki velkominn í frönsku klíkuna.

Kristján Einar segir að ástandið hafi verið verra en í bíómynd. „Ég áttaði mig á því strax á fyrsta degi að ég þyrfti að leggja mannlegu hliðina til hliðar. Ég þurfti bara að vera skepna til að lifa af. Á fyrstu dögunum varð maður vitni að hlutum. Maður sá alveg hvernig þetta virkaði. Ef þú sýndir veikleika; það hafði gjald. Ekki eitthvað lítið gjald; ég hef horft á fullt af heimildamyndum um fangelsi sem kannski hjálpaði mér að vita eitthvað. Það sem ég sá í myndum var tittlingaskítur miðað við þetta. Það var hryllingur hvernig farið var með menn þarna inni.“ Hann segir að fangaverðirnir hafi tekið við mútum til að líta til hliðar. „Þeir sáu til dæmis um að smygla fíkniefnum inn.“

 

Stunginn

Svo voru þrír Pólverjar settir í sömu álmu. Og Kristján Einar fór í þá klíku.

„Ég þurfti að vinna verkefni til að fá vernd hjá þeim.“

Og hvaða verkefni var það?

„Má maður segja það?“

Ertu að tala um hræðilega hluti?

„Já. Mér var réttur hnífur og mér var sagt að stinga mann ef ég vildi fá vernd hjá þeim. Það var það sem ég þurfti að gera.“

Sjálfur var Kristján Einar stunginn.

„Ég var stunginn í einu „rioti“. Það voru reyndar tvö „riot“ sem áttu sér stað en í því „rioti“ sem ég var stunginn þá var ég kominn í klíkuna með Pólverjunum. Þeir laumuðu síma yfir til Spánverjanna og þeir voru með hann í einn eða tvo daga. Þegar þeir skiluðu honum var kominn raki inn í skjáinn og þá byrjaði einhver tætingur þar á milli. Svo voru þetta orðin hópslagsmál. Ef ég hefði ekki staðið með Pólverjunum þá hefðu þeir hent mér úr klíkunni. Ég þurfti að taka þátt og svo allt í einu fann ég tvö högg og áttaði mig ekki alveg á því hvað þetta var. Svo sá ég blóð byrja að leka og þá áttaði ég mig á að ég hafði verið stunginn.“

Kristján Einar segist ekki hafa fengið neina læknishjálp. „Þú bara felur þetta og harkar þetta af þér. Lætur eins og þetta hafi ekki gerst.“

Hvað með sýkingarhættu?

„Þeir voru að brugga og ég þurfti bara að kaupa það til að sótthreinsa sárin. Og ég fékk aldrei sýkingu. En þetta skilur eftir sig risaör.“

Kleini var stunginn tvívegis á Spáni, eins og sést.

Kristján Einar talar um annað atvik sem hann segir að hafi komist næst því að vera drepinn. „Ég veit ekki nákvæmlega hvað var í gangi. Pólverjarnir voru eitthvað að þræta við Frakkana og ég stóð aftast tilbúinn í hvað sem var. Svo var lagður hnífur að hálsinum á mér og ætlaði viðkomandi að skera en einn af mínum vinum í pólsku klíkunni náði að grípa í hendina á manninum og rífa af honum hnífinn og síðan stakk hann manninn sem hafði ætlað að aflífa mig á staðnum. Ég veit ekki af hverju.“

 

19 ára nauðgað

Kristán Einar varð vitni að mörgu innan fangelsisveggjanna og nefnir hann tvö verstu dæmin. Hann segir að það hafi ekki verið tekið vel í það ef menn klöguðu. „Þarna var 19 ára piltur, ég endurtek 19 ára, sem klagaði klíkuna. Í kjölfarið var hann rifinn úr öllu og allir látnir koma til að horfa á þar sem honum var nauðgað. Það var verið að senda skilaboð til okkar allra um að ef við klöguðum þá myndi þetta gerast.

Svo var það morðið sem ég varð vitni að. Menn voru að rífast á klósetti þar sem engar myndavélar voru og tók einn upp heimatilbúinn hníf og stakk hinn rétt fyrir neðan naflann og risti hann allan upp.“ Kristján Einar segir að allir hafi hlaupið út og svo voru menn yfirheyrðir. „Enginn sagði orð af því að ef einhver hefði sagt frá þá hefði það sama verið gert við viðkomandi eins og gert var við þennan 19 ára strák. Maðurinn var drepinn þarna og það létu allir eins og ekkert hefði gerst.“

Kristján Einar viðurkennir að hann hafi haldið að hann kæmist aldrei lifandi út úr fangelsinu. „Ég sagði í lok hvers einasta símtals við móður mína að ég elskaði hana. Ég vissi aldrei hvort þetta yrði síðasta samtalið eða ekki.“

Kristján Einar segir að menn hafi ekki leyfi til að sýna tilfinningar þarna inni. „Þú ert ekki mannlegur þarna inni. Þú ert bara skepna. Þarft að vera skepna. Tilfinningar voru ekki í boði. Það var ekki í boði að vera mannlegur.“

Ástandið breyttist eitthvað þegar Kristján Einar var eftir sex mánuði færður yfir í álmuna sem hann segir að hann hafi upphaflega átt að fara í. „Hún var slæm líka en tittlingaskítur miðað við þá fyrri. Ég hafði eftir létt slagsmál verið settur inn með raðmorðingjum og nauðgurum.“

 

Hvað gerir maður eftir svona?

Kristján Einar var skyndilega sleppt úr fangelsinu fyrir um viku. Og hann segir að hann hafi ekki fundið fyrir neinu. „Ég var búinn að loka á tilfinningar. Mér fannst ég ekkert vera fráls.“

Hann segist ekki ennþá vera búinn að kveikja á mannlegu hliðinni. „Ég þurfti bara að slökkva á henni. Ég veit ekki hvernig mér líður. Ég veit ekki hvernig mér á að líða. Ég veit ekki hvernig ég á að haga mér. Hvað gerir maður eftir svona? Þetta verður aldrei tekið til baka.“

Hann segir að hann verði að leita sér hjálpar. „Það er alltaf í huganum það sem ég sá og þurfti að gera. Það verður ekkert lagað. Þetta er skaði sem er kominn til að vera held ég.“

Hann segist lítið geta sofið. Hann losnaði fyrir tæpri viku og segist í heildina hafa sofið um átta tíma. Hann talar um sama drauminn: Að hann sé kominn aftur í fangelsið. „Ég er hræddur við að fara að sofa. Ég er að dæla í mig svefntöflum til að sofna og fá ró en þegar ég sofna þá er það alltaf sami draumurinn.“

Kristján Einar segist vera búinn að vera á fullu síðan hann kom til landsins. „Ég þarf að kaupa íbúð og bíl. Það er allt á fullu. Ég er reyndar með svakalegt ADHD. Það sem hefði átt að gera þegar ég kom hingað var að leggja mig beint inn á geðdeild.“

Viðtalið er í heild sinni í  podcasti Söðva Tryggvasonar.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -