Kristján Vilhelmsson, ein af stofnendum og aðaleigendum Samherja, vill hvorki staðfesta né hrekja fullyrðingar þess efnis að hann hafi óskað etir því að Helgi Seljan fréttamaður yrði sviptur Edduverðlaununum sem sá síðarnefndi hlaut sem sjónvarpsmaður ársins fyrir þremur árum.
Í upphafi ársins í fyrra er Kristján sagður hafa gert tilraun til fá Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíuna til að svipta Helga Edduverðlaunum. Á hann að hafa sent tölvupóst þess efnis til Auðar Elísabetar Jóhannsdóttur, framkvæmdastjóra akademíunnar, og var það umfjöllun Helga um málefni Samherja í Seðlabankamálinu sem fór fyrir brjóstið á Kristjáni. Fréttamaðurinn hlaut verðlaun sem sjónvarpsmaður Íslands á árunum 2016-2017.
Í samtali við Mannlíf vildi Kristján ekki ræða meint afskipti hans vegna Edduverðlaunanna. Aðspurður hvort hann hafi sent umræddan tölupóst og farið fram á verðlaunasviptinguna vildi hann ekki tjá sig. .„No komment. Ég hef ekkert um það að segja, bara no komment,“ sagði Kristján og lauk símtalinu skyndilega.