Miðvikudagur 25. desember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Kristján rekinn frá Krabbameinsfélaginu – Margvaraði við lélegri skimun – „Hræðilegt að þetta kosti mannslíf“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég margvaraði við þessu og það er hrikalega sorglegt að þetta kosti alvarleg veikindi og mannslíf,“ segir Kristján Oddsson, kvensjúkdómalæknir og fyrrverandi forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, sem telur sig hafa verið rekinn fyrir að vara við þeim alvarlegu afleiðingum sem fyrirkomulag krabbameinsskimunar kvenna gæti haft í för með sér. Hann getur alls ekki glaðst yfir að hafa haft rétt fyrir sér.

„Ég er afskaplega sorgmæddur yfir örlögum sem hefðu kannski ekki þurft að verða. Ég man nú varla hversu mörg minnisblöðin voru sem ég sendi og varaði við. Ég benti á að starfsemin gengi gegn hagsmunum kvenna og gætu haft alvarlegar afleiðingar fyrir líf og heilsu þeirra. Ég var rekinn þremur vikum síðar en því miður hefur þetta allt saman raungerst,“ segir Kristján.

Líkt og fram hefur komið hefur skjól­stæðingur Krabba­meins­fé­lagsins verið greindur með leg­háls­krabba­mein þrátt fyrir að hafa fengið nei­kvæða niður­stöðu árið 2018 í leg­háls­skimun hjá Leitar­stöð Krabba­meins­fé­lagsins. Leg­háls­sýnin voru einfaldlega ranglega greind og lögmaður konunnar hefur lýst því yfir að hann hafi á borði sínu önnur sambærileg mál.

Krabbameinsfélagið hefur beðist innilegrar afsökunar og skýrt á þann veg að um mannleg mistök hafi verið að ræða. Mistök af hálfu eins starfsmanns sem hafi glímt við veikindi og sé nú hættur. Félagið hefur tekið til endurskoðunar þúsundir sýna sem viðkomandi starfsmaður hafði í höndunum til greiningar og af þeim hafa 45 konur verið kallaðar aftur inn til frekari skoðunar.

Og það var ekki bara ég sem varaði við þessu heldur fleiri.

Kristján ítrekar að hann hafi margvarað við þessari brotalöm í starfsemi Krabbameinsfélagsins þegar kemur að skimunum fyrir krabbameini. „Ég benti margítrekað á að þetta gengi ekki upp og það er ástæðan fyrir því að ég var rekinn. Þar var faglegur ágreiningur á ferðinni, það voru hörð data sem sögðu okkur það að þetta fyrirkomulag gat ekki haldið áfram. Og það var ekki bara ég sem varaði við þessu heldur fleiri. Yfirstjórnin vissi af þessu. Hún fékk frá mér mörg minnisblöð þar sem ég varaði við. Ég var sístematískt búinn að vara við ferli og skipulagi skimunar,“ segir Kristján.

„Eftir á að hyggja hefðum við sennilega átt að grípa til aðgerða fyrr,“ sagði Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir og sviðsstjóri leitarsviðs Krabbameinsfélags Íslands, í Kastljósviðtali, og staðfesti þar að sex þúsund sýni starfsmannsins umrædda hafi verið endurskoðuð. Yfirlæknirinn segir að áætlað sé að 100 til 150 konur þurfi að koma aftur í skimum.

- Auglýsing -

Siðleysi eina orðið

Álfheiður Ingadóttir, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, sakar forsvarsmenn Krabbameinsfélags Íslands um siðleysi í færslu sinni á Facebook. „Þetta er eina orðið sem ég á yfir framgöngu forsvarsmanna Krabbameinsfélags Íslands. Í stað þess að gangast við ábyrgð sinni á þeirri staðreynd að allt að 150 konur hafi fengið rangar niðurstöður á Leitarstöðinni, er sök varpað á einn fyrrverandi starfsmann. Og það vegna veikinda hans,” segir Álfheiður.

Álfheiður segist vera annt um Krabbameinsfélagið enda hafi hún bæði gengið þar i gegnum krabbameinsmeðferð og þá koma faðir hennar að stofnun félagsins. Henni finnst ömurlegt að stjórnendur hafi skellt skuldinni á einn starfsmann. „Það urðu hörmuleg mistök. Það er hægt að kalla þau „mannleg mistök sem alltaf geta orðið”. En það er mikil einföldun. Ég get ekki orða bundist. Nú er ég lömuð og öskureið yfir aumingjadómnum sem birtist í kattarþvotti stjórnenda KÍ. Og get ekki fyrirgefið hversu grátt þeir hafa leikið hugsjónir þeirra sem byggðu upp þetta merka félag.”

- Auglýsing -

Aðeins helmings öryggi

Kristján bendir á að það geti verið erfitt að koma algjörlega í veg fyrir mannleg mistök. Hann segir mikilvægt að fólk átti sig á því að næmi þeirrar aðferðar sem notuð hafi verið sé aðeins um 50 prósent. „Þetta er skoðað af fólki og aðferðin greinir raunverulegan sjúkdóm í aðeins 50 prósent tilvika. Ég benti ítrekað á að við þyrftum að fara með skimunina í vel ígrundaðan og skipulegan farveg útfrá evrópskum leiðbeiningum. Sem betur fer er þetta að komast í þann farveg núna en þetta hefur félagið aldrei viljað heyra vegna fjárhagslegra hagsmuna af því að reka þessa skimun,“ segir Kristján.

Eftir að hafa starfað sem forstjóri hjá Krabbameinsfélaginu fullyrðir Kristján að söfnunarfé frá almenningi og ríkisfjármunir renni ekki til rannsóknarstarfa félagsins heldur alfarið í óháða starfsemi. „Þarna fer fram gríðarleg fjáröflun og þennan tíma sem ég er þarna inni kemst ég að því hvernig hlutirnir eru. Það er raunverulega beitt blekkingum og ég leyfi mér að segja þetta svikamyllu. Því miður og þetta er hrikalega sorglegt allt saman,“ segir Kristján.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -