„Ég er kominn aftur til starfa, eftir veikindaleyfi sem lauk í enda nóvember,“ segir sveitarstjórinn í Norðurþingi, Kristján Þór Magnússon í samtali við Mannlíf og bætir við:
„Ég nýtti mér ótekið sumarorlof í desember til áramóta.“
Aðspurður segir Kristján Þór að hann sé „búinn að ná mér vel af veikindum og er mjög ánægður með að vera kominn til baka. Hlakka til næstu mánaða.“
Hann segir að það sé „heilmargt á döfunni hjá Norðurþingi eins og gefur að skilja. Til að nefna nokkur dæmi: Framkvæmdir við nýtt hjúkrunarheimili, viðræður við áhugasama aðila um uppbyggingu atvinnutækifæra innan græns iðngarðs á Bakka, viðræður við Íslandsþara ehf um framtíðaráform þeirra á þaravinnslu, undirbúningur fyrir breytingar sem fylgja nýjum lögum um málefni barna verður fyrirferða mikið verkefni fyrri hluta árs.“
Það er gott hljóðið í Kristjáni Þór sem vonast „eftir því að uppbygging enn fleiri íbúða hefjist á Húsavík á næstu mánuðum, að nýjar íbúðir verði reistar á Kópaskeri og að uppbygging nýrra atvinnutækifæra á gömlu SR-lóðinni á Raufarhöfn líti dagsins ljós.“
Í vor verða kosningar og er Kristján Þór fullur tilhlökkunar og horfir bjartsýnn til framtíðar:
„Vart þarf að nefna að í vor verða haldnar sveitarstjórnarkosningar svo það líður að því að framboðin fari að blaka vængjum sínum af því tilefni. Það eru því spennandi tímar framundan hér fyrir norðan.“