Þung orð voru látin falla í garð landsliðsþjálfarans Arnars Þórs Viðarssonar í nýjum hlaðvarpsþætti á Vísir.is sem ber heitið Þungavigtin og er stjórnað af Kristjáni Óla Sigurðssyni.
Til umræðu var mál Arons Einars Gunnarssonar fyrrum landsliðsfyrirliða sem var ekki valinn í hópinn fyrir komandi verkefni landsliðsins. Meðal annars sem var látið flakka í þættinum voru þessi orð Kristjáns Óla:
„Aron átti að vera valinn á miðvikudag, þá á fyrirliðinn samtal við þjálfarann og þá á að velja hann. Verðandi formaður stígur inn í málið og tilkynnir Arnari að hann geti valið hann en honum yrði rakleiðis sparkað út þegar hún yrði orðin formaður. Þetta er klárt.“
Í þættinum var það fullyrt að Vanda Sigurgeirsdóttir sem tekur við sem formaður KSÍ hafi sett Arnari Þór stólinn fyrir dyrnar. Arnar sagði sjálfur á fréttamannafundi að hann hefði tekið ákvörðun um að Aron yrði ekki valinn, að stjórn eða neinn hjá KSÍ hefði komið nálægt þeirri ákvörðun hans. Kristján Óli gefur ekki neitt fyrir þessi orð Arnars Þórs:
„Arnar sagði ekki satt á fundinum, öll kurl eru ekki komin til grafar. Sambandið lítur ekki vel út.“
Annar stjórnandi hlaðvarpsins, Mikael Nikulásson var heldur ekkert að skafa utan af því:
„Arnar, þetta er orðið fínt. Hann kemur í gær í enn eitt viðtalið og lýgur! Hann lýgur upp upp í opið geðið á mér og lýgur uppi í opið geðið á þjóðinni. Tók hann Stefán Teit Þórðarson inn í hópinn í staðinn fyrir Aron Einar Gunnarsson af því að hann hentaði betur í þessa leiki eða. Hann laug því hann mátti ekki velja Aron Einar.“
Að mati Kristjáns Óla mun Aron Einar aldrei spila fyrir landsliðið aftur:
„99 prósent líkur á að hann spilar aldrei aftur.“