Kristmann Eiðsson, þýðandi og kennari, lést af völdum COVID-19 þriðjudagskvöldið 20. október síðastliðinn í hópsýkingunni skæðu sem upp kom á Landakoti. Í dag verður hann borinn til grafar. Kristmann var 84 að aldri er hann lést af völdum kórónuveirunnar og lætur hann eftir sig fjóra syni.
Gauti, prófessor og sonur Kristmanns, tilkynnti um andlát föður síns með eftirfarandi orðum:
„Jæja, þá er hann farinn, fallinn fyrir veirunni skæðu. Söknuðurinn er mikill í allri fjölskyldunni“.
Kristmann fæddist á Búðum í Fáskrúðsfirði hinn 27. maí 1936. Hann lést í Reykjavík 20. október 2020. Hann starfaði lengst af sem enskukennari við Réttarholtsskóla og þýddi auk þess sjónvarpsefni.
Kristmann var alinn upp á Búðum í Fáskrúðsfirði og eftir barna- og unglingaskóla þar gekk hann í Menntaskólann á Akureyri og síðar í Menntaskólann í Reykjavík. Kristmann gegndi fjölmörgum störfum um ævina en lengst af var hann kennari, við Réttarholtsskóla og árið eftir að Sjónvarpið tók til starfa 1966 var hann fenginn til að þýða erlent efni fyrir Sjónvarpið, meðal annars hina frægu amerísku þáttaröð Dallas. Þýðingarvinna hans fyrir sjónvarpið stóð yfir í meira en fjörutíu ár.
Þorsteinn, sonur Kristmanns, minnist föður sín með hlýju í minningargrein í Morgunblaðinu. Þar segir hann að þeir bræðurnir hafi notið góðs af uppeldi og móðurmálskennslu Kristmanns. „Pabbi var kennari og þýðandi og hann kenndi mér og mörgum öðrum. Við feðgarnir áttum mjög vel saman og nutum samvista hvor við annan hvort sem það var á ferðalögum eða heima í stofu. Orðin sem fóru okkar á milli í sveitasímann forðum eru gleymd en gleðin sem þeim fylgdi ekki, hugur minn og andi því aldrei gleymir, né samverustundum og minningunni um kæran vin og dásamlegan föður,“ segir Þorsteinn.
Gauti fer líka fögrum orðum um föður sinn í minningagreinn. „Hann var maður sem auðvelt var að elska og sá ég það af því hve einstaklega vænt barnabörnunum þótti um hann. Það var því mikið áfall að missa hann úr Covid-19 á Landakoti síðastliðið haust. Það var sárt að sjá eftir honum og geta ekki kvatt hann almennilega og núna viljum bæta úr því, minna átti hann ekki skilið. Vertu sæll, pabbi, og takk fyrir þig, þú verður áfram í hjörtum okkar allra,“ segir Gauti.
Kristmann verður jarðsunginn frá Háteigskirkju í dag klukkan 15.