Laugardagur 21. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Kristrún Frostadóttir: „Ég er augljóslega að valda einhverjum titringi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kristrún Frostadóttir hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinnar. Í viðtali við Reyni Traustason talar hún meðal annars um hver sér finnist vera mistök Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, hún talar um Sjálfstæðisflokkinn og hvað gera þurfi innan Samfylkingarinnar til að reisa flokkinn upp. Kristrún talar um hvað fékk hana til að fara út í stjórnmál og viðbrögðin við innkomu hennar á svið stjórnmálanna. Þá talar hún um hvert henni finnist vera stóra verkefnið.

 

Þú hefur verið dugleg að skamma Katrínu.

„Ég meina, hún er forsætisráðherra. Hún er eiginlega æðst setti einstaklingurinn á Íslandi. Það er ekkert óeðlilegt að forsætisráðherra sæti gagnrýni,“ segir Kristrún Frostadóttir sem hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Samfylkingarinar.

Það er ekkert ótrúlegt að þú verðir forsætisráðherra ef allt gengur vel. Hvar eru mistökin hennar? Hvað þýðir þessi dans við Sjálfstæðisflokkinn?

Og ég sé ekki hvar kjarninn hjá Katrínu er lengur.

„Mér finnst hún hafa gefið allt of mikið eftir af kjarnanum. Það er grundvallaratriði hvernig ég er að stilla mínu framboði upp og sýnin sem ég hef fyrir Samfylkinguna; við skilgreinum svolítið kjarnann okkar af því að fólki hættir til að færast flokkum of mikið í fang, vera í öllu, og í fjórflokkasamstarfi sem mun alltaf verða á Íslandi þá muntu alltaf þurfa að gefa einhvers staðar eftir. Það liggur alveg fyrir. Og það er bara heiðarlegt gagnvart kjósendum þrátt fyrir að fólk getur vitað á hvaða línu þú ert í hinum og þessum málum; það finnst mér allt í lagi. En þú þarft að skilgreina hvar kjarninn þinn er. Hvar þú gefur ekki eftir. Og ég sé ekki hvar kjarninn hjá Katrínu er lengur. Það er í rauninni ekki mitt hlutverk að skilgreina VG eða skilgreina Katrínu en miðað við hvernig þau fóru fram á sínum tíma og hvað kjósendur bjuggust við þá er þessi kjarni finnst mér farinn ef ég er að hugsa um velferðarmál og almenna stýringu ríkisfjármála. Ég hef verið sérstaklega gagnrýnin á einmitt valdið sem felst í fjármálaráðuneytinu kannski vegna þess að þetta hefur verið mitt sérsvið: Efnahagsmálin og ríkisfjármálin. Og ég myndi vilja koma með þann styrkleika inn í jafnaðarmannaflokk vegna þess að sósíaldemókratískir flokkar á Norðurlöndum og í Evórpu eru sterkir flokkar líka í ríkisfjármálum. Þetta eru ekki bara mjúku málin. Þetta eru ábyrgðarflokkar að þessu leytinu til.“

- Auglýsing -

En það er alltaf hætt við að þetta verði útvatnað. Þú ert með Sjálfstæðisflokkinn með allt sitt vesen í farteskinu. Bjarna Ben. Og þarna koma saman þessir pólar. Flokkurinn sem var lengst til vinstri en er einhvers staðar nær miðjunni núna. Og það er það sem hefur náttúrlega gerst að menn hafa þurft að útvatna þetta mikið. Þið sögðuð fyrir kosningar „við munum ekki vinna með Sjálfstæðisflokknum“. Voru það mistök?

Það er verið að stunda pólitík í dag sem er þessi pólitík óhjákvæmileika.

„Ég veit það ekki. Ég er sjálf ekkert hrifin af því að fara að skilgreina fyrir fram nákvæmlega hvernig stjórnarsamstarfi við erum í. Ég held að fólk geti lesið það út úr mínum áherslum og áhuga hvar ég myndi helst vilja sjá stjórnarsamstarf. Aðalmálið finnst mér vera að við vitum bara hver er okkar innri áttaviti og kjarni; að við séum komin með trúverðugar lausnir þegar kemur að heilbrigðismálum, húsnæðismálum og ef við tölum um opinberar fjárfestingar í samgöngum; bara svona klassískt jafnaðarmannamál. Lífeyris- og tryggingamálin. Og síðan að við séum með trúverðuga ríkisfjármálastefnu, við sýnum skilning á því hvernig skattkerfið er rekið og hvar vantar fjármagn og hvar er hægt að breyta til og hliðra vegna þess að það er það sem hefur vantað inn í þessa ríkisstjórn. Það er eitthvað mótvægi við ríkisfjármálastefnu Sjálfstæðisflokksins vegna þess að þú getur sagt allt sem þú vilt, þú getur verið jafnaðarmaður fyrir kosningar eins og margir af þessum flokkum hálfpartinn eru af því að það eru svo margir Íslendingar í hjarta sínu, hvort sem ég sé að fara að skilgreina fólk eða ekki; fólk er velferðar- og samfélagssinnað. En mitt helsta ósætti við þessa ríkisstjórn er hversu oft er hægt að koma fram og segjast ætla að gera eitthvað sem þú gerir svo ekki vegna þess að þú færð ekki fjármagn fyrir því. Þetta snýst ekki bara um að finna þeim allt til foráttu og reyna að vera leiðinleg í stjórnarandstöðu. Fyrir mér snýst þetta líka um að þú ert að ala á vantrú fólks í samfélaginu á að kerfið okkar geti virkað. Þú ert að ala einhvern veginn á vantrú á stjórnmálunum. Ég vil að boðskapur jafnaðarmanna sé að við getum gert þetta, þetta sé í okkar höndum, þetta sé okkar samfélag og þetta er ekki alþjóðavandi. Við erum að tala um okkar heilbrigðiskerfi, okkar húsnæðismál. Ef við sem samfélag viljum leysa þetta þá eigum við að leita leiða og finna leiðir ef það þarf fjármagn; ef það þarf einhverja nýja stefnu. En það er verið að stunda pólitík í dag sem er þessi pólitík óhjákvæmileika: „Það er ekki hægt að gera þetta öðruvísi, ykkar hugmyndir eru einhver útópía.“ Og meira að segja inn á milli er sagt „við erum að gera eitthvað“. En svo opna ég fjárlögin eða fjármálaáætlun og segi „fyrirgefðu, þú ert að skera niður í þessum málaflokki; hvernig getur það verið?“ Og þetta finnst mér óheilbrigt fyrir stjórnmálin. Og ég er alveg tilbúin að segja af og til óvinsæla hluti til þess að fólk sjái að maður meinar það sem maður er að segja. Vegna þess að það vantar líka trúverðugleika inn í stjórnmálin og að fólk hafi trú og þar reynir á okkur eins og aðra flokka, Samfylkinguna.“

Ég talaði svolítið um það í ræðu minni í framboðinu að fara aftur í kjarnann.

Muntu ekki útiloka stjórnarsamstarf við neinn?

- Auglýsing -

„Ég er allavega ekki komin á þann stað að stilla hlutunum þannig upp. Mér finnst aðalmálið núna áður en maður fer að hugsa um ríkisstjórnarsamstarf vera að vinna í flokknum, styrkja flokkinn og að við kjörnum okkur betur. Ég talaði svolítið um það í ræðu minni í framboðinu að fara aftur í kjarnann; að leggja ofuráherslu á þessi klassísku jafnaðarmannamál – kjör, efnahag og velferð – og að við upplifum mikinn styrkleika þar og fólk treysti okkur og trúi okkur til verka þar. Og það er bara rosalega mikið verkefni. Það er mikið verkefni fyrir okkur. Síðan er það seinni tíma mál hvernig pólitíkin spilast, hverjir verða í forsvari hvar og hvernig áherslur liggja. Það er alveg ljóst af mínum áherslum hvers konar stjórnarsamstarf mér fyndist álitlegast. Síðan er það til umræðu þegar að því kemur.“

Og það er til vinstri frá miðju?

„Með þessum vinstri flokkum sem hafa trú á okkar kjarnamálum og vilja fjármagna þau og hafa áhuga á að reka samfélagið öðruvísi.“

 

Engar skyndilausnir

Kristrún er spurð hvar mistök Samfylkingarinnar liggja; flokkur sem var með 32% fylgi og fór svo niður í að rétt lafa inni á þingi og síðan kom upprisan með Loga en féll svo aftur.

„Ég veit það ekki og ég veit ekki hvort það sé mitt hlutverk að fara í eitthvað uppgjör á því. Ég held að það séu alls konar hlutir sem spili þar inni í. Við vitum til dæmis að flokkalandslagið hefur breyst eftir hrun.“

Kristrún bendir á að það hafi komið fram í könnunum að fólk eigi erfitt með að festa hendur á hvað Samfylkingin stendur fyrir. „Fyrir mér er það bara lykilatriði. Sama hvernig það gerðist. Hverjum það er að kenna. Það er staðan sem er uppi í dag. Mér finnst að það ætti að vera augljóst hvað jafnaðarmannaflokkur Íslands stendur fyrir. Partur af því er einmitt að fara svolítið út í það sem ég upplifi að sé í rauninni sameiningarmálin okkar af því að ég er á þeirri skoðun að það séu margir svona þenkjandi á Íslandi þótt ég ætli ekki að setja alla í Samfylkinguna á Íslandi. Ég er búin að ferðast út um allt land og finn það í samtölum mínum við fólk að það vill að þessir hlutir séu í lagi og er miklir velferðarsinnar; að við sameinumst um málin sem er meirihluti fyrir. Að við setjum alefli okkar og orku í þau mál. Þetta eru risastór mál. Það að leysa stöðuna í heilbrigðiskerfinu; ef það tekst að gera það í næstu ríkisstjórn þá er það mikill árangur. Ef það tekst að stíga stór skref í húsnæðismálum þá er það mikill árangur og ef það tekst að bæta stöðuna þegar kemur að samgöngum úti á landi. Þetta eru risastór verkefni. Flokkum hættir til að færast of mikið í fang og þá skapast þessi vantrú. Fólk upplifir að þú oflofar; þú skilar ekki af þér. Ég held að það mikilvægasta sem Samfylkingin geti gert núna sé að setja fókus á þau mál sem við gefum ekki afslátt á og þegar við komumst næst í ríkisstjórn sem verður á næsta kjörtímabili að skila þá af okkur því sem við lofuðum.“

Að upplifa ekki eins og við þurfum að sýna allt á einu kjörtímabili.

Kristrún nefnir líka trúverðugleika og að það sé langtímaverkefni að byggja flokkinn aftur upp. „Þetta mun ekki gerast í einum kosningum þannig að við verðum að hafa líka sjálfstraust þegar við förum inn í þetta núna; að stjórna eins og við séum ekki bara að fara að vera í eitt kjörtímabil. Að upplifa ekki eins og við þurfum að sýna allt á einu kjörtímabili. Af því að í fyrsta lagi er algert ofmat að það sé hægt að koma einhverju í gegn bara á fjórum árum. Það er oft ofmat hvað þú getur gert á einu ári og vanmat hvað þú getur haft mikil áhrif á 10 árum eins og þessi ríkisstjórn hefur í raun gert.“

Kristrún segist halda að það sé algert lykilatriði að flokkurinn finni innra sjálfstraust til að velja mál sem hann keyrir á og gefi ekki neinn afslátt og geti síðan séð fyrir sér að byggja þetta upp. „Þetta er lagskipt. Fyrsta kjörtímabil þetta. Á öðru kjörtímabili erum við komin með virkari tengingu við fólkið í landinu til að kynna til sögunnar önnur og fleiri mál. Það eru engar skyndilausnir.“

Kristrún Frostadóttir

Lét slag standa

Kristún er spurð hvað hafi rekið hana út í pólitík með öllu sem því fylgir.

„Ég veit ekki hver er hefðbundna leiðin inn í pólitík ef ég á að segja alveg eins og er. Ég var ekki búin að alast upp í flokknum og ég var ekkert virk í ungliðastarfi og ég hafði í rauninni verið í vinnu árinu áður þar sem ég gat ekkert verið pólitískt virk vegna þess að ég var mikið í sjálfstæðum greiningum og efnahagsmálum og þá auðvitað þykir viðkvæmt að vera einhvern veginn í pólitík því tengdu. En þetta var svo sem ekkert planað hjá mér en ég held að margir sem hafa þekkt mig í gegnum tíðina hefðu alveg getað séð þetta gerast. Ég hef alltaf haft miklar skoðanir á þjóðfélagsmálum. Þegar ég flutti heim 2017 frá Bandaríkjunum og Bretlandi þá var ég svolítið að fóta mig í því hvernig mitt framlag gæti verið hérna heima; á hvaða vetttvangi ég gæti starfað. Vinnumarkaðurinn er svolítið sérstakur hérna; það eru áhugaverð tækifæri hérna – ég get orðað það sem svo – en af því að þetta er lítið samfélag og lítið kerfi þá eru færri möguleikar í boði fyrir fólk með minn bakgrunn í greiningavinnu og þjóðfélagsmálamræðu og pólitík er bara mjög áhugaverður staður til þess að taka þátt í þjóðfélaginu í raun.“

Kristrún er svo spurð hvort haft hafi verið samband við hana og hún beðin um að gefa kost á sér.

Ég lét slag standa og ég vissi ekkert að þetta myndi þróast svona.

„Þetta var ekkert mjög skipulagt. Ég hafði tekið mjög virkan þátt í umræðunni í tengslum við Covid og efnahagsmálaaðgerðirnar í tengslum við Covid. Þegar ég var aðalhagfræðingur hjá Kviku þá skrifaði ég mikið um hvað var að gerast í efnahagslífinu og var mjög hugsi yfir því hvaða aðgerða var verið að grípa til og var kannski farin að sýna á mér einhverjar pólitískar hliðar þó ég hafi upplifað að þetta hafi verið mjög faglegt. En auðvitað hefur maður einhvern kjarna sem kemur svolítið í gegn. Og það hafði einhvern tímann verið nefnt við mig að fara í framboð en ef maður tekur mómentið þá var það að Jói, Jóhann Páll, sem er með mér inni á þingi,“ segir Kristrún og bætir við að hann hafi heyrt í sér hljóðið og spurt hvort hún gæti einhvern tímann hugsað sér að fara í framboð. Hún segir að það hafi verið um jólin 2020 sem hún hafi frétt í gegnum hann og fleiri sem voru í ungliðahreyfingunni að það væri mikill áhugi á að fá sig inn. „Og það væru hundruðir ungliða sem væru tilbúnir að koma og styðja mig. Þetta er náttúrlega svolítið sérstakt þegar það er komið að þér á þessum forsendum af því að ég hafði engar tengingar þannig séð inn í Samfylkinguna. Ég þekkti fólk sem var að starfa þar en ég hafði ekkert verið virk. En þá hafði fólk séð af mér og minn málflutning og þótti áhugavert. Ég lét slag standa og ég vissi ekkert að þetta myndi þróast svona. Þetta var eitthvað sem var í mér. Ég held að eins og með svo marga í Covid; það voru svo margir sem voru hugsi yfir því sem var að gerast. Þetta ástand hreyfði við mér og mig langaði til að gefa af mér og vera að vinna við eitthvað sem mér fannst skipta aðeins meira máli. Og ég hugsaði í lok dags að ef það verður ekkert úr þessu þá færi ég að gera eitthvað annað og ég fyndi bara út úr því.“

 

Mótsagnir

Svo fékk Kristrún eldskírn. Mogginn fékk „taugaáfall“ við þau tíðindi að það væri að koma kannski nýr og sterkur á vinstri vængnum. Og það var byrjað að djöflast svolítið í henni út af bréfum sem hún eignaðist í Kviku. Hvað finnst henni um þetta? Átti hún von á því að lenda í slíkum slag?

Mér finnst ekkert skrýtið að fólk vilji spyrja spurninga og sé forvitið af hverju manneskja sem var í hálaunuðu starfi og var með forréttindi og fríðindi fari fram fyrir jafnaðarmannaflokk.

„Hlutirnir gerðust svo hratt á þessu ári að ég var kannski ekki búin að hugsa þetta alla leið. Stundum getur það verið ágætt af því að ef maður hugsar um allar mögulegar útkomur þá bara fer maður ekki fram úr á morgnana. Ég held að það sem hafi kannski komið mér á óvart var að ég skyldi fá einhvern veginn það mikið vægi eða athygli að einhver myndi hafa fyrir því að stilla málunum svona upp. Ég kannski sá það ekki fyrir þó maður hafi trú á sjálfum sér og finnist maður vera með áhugaverðar hugmyndir og maður hafði séð hvernig hlutirnir geta verið í pólitík og svolítið leiðinlegir og ljótir oft en ég hugsaði að það væri varla komið að því hjá mér núna. Ég held satt best að segja að allir í kringum mig hafi heldur ekki búist við því að þetta myndi gerast einhvern veginn strax. Það eru margar skýringar á því af hverju þetta gerðist og af hverju hlutunum var stillt svona upp. Það er auðvitað ekkert gaman að lenda í því að fólk sé að reyna að stilla upp neikvæðri mynd af manni og teikna upp einhverja aðra mynd en að sama skapi er mér engin vorkunn. Ég hef notið velgengni og mér finnst ekkert skrýtið að fólk vilji spyrja spurninga og sé forvitið af hverju manneskja sem var í hálaunuðu starfi og var með forréttindi og fríðindi fari fram fyrir jafnaðarmannaflokk. Og það var auðvitað það sem var skemmtilegt fyrir hægri mennina í þessu vegna þess að það voru þessar mótsagnir. Þegar ég steig aðeins frá þessu þá hugsaði ég bara „veistu, þetta er allt í lagi; aðalmálið er bara að maður komi hreint til dyranna eins og maður er og maður getur ekki breytt því hver maður er“. Það er auðvitað betra ef maður fær að skýra hlutina út frá sinni hlið.“

Það er greinilega búið að skilgreina þig sem höfuðandstæðing hægri flokkanna. Höfuðandstæðing til vinstri. Framsetningin eins og: Þú gefur kost á þér til formennsku og það er ekki annar kominn og þá er talað um í fyrirsögn að þú verðir krýnd. það er verið að reyna að gera úr þér einhvers konar fyrirbæri.

„Já.“

Þetta er augljóst. Fyrir mér er þetta augljóst. Ég held að menn hafi getað sýnt þér þá virðingu að segja að þú yrðir væntanlega kosin.

Af því að ég var að fara í þetta svolítið bratt.

„Það er verið að búa til eitthvað narrative og reyna að búa eitthvað til úr manni. Það var einmitt einhver sem sagði við mig að af því að ég væri að fara í þetta frekar bratt, sem var aldrei mitt plan svo því sé haldið til haga; stundum lendir maður bara í einhverjum farvegi. Maður vill alltaf fá meiri tíma í lífinu. Það er eins og með allt. Af því að ég var að fara í þetta svolítið bratt þá væri það ennþá hættulegra vegna þess að þá væri meira svigrúm fyrir fólk að búa mína persónu til áður en fólk myndi kynnast mér. Maður verður bara að taka hlutunum eins og þeir eru og vonast til þess að fólk fái tækifæri til þess að kynnast mér. Mér finnst ekkert skrýtið að fólk sé forvitið. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að fólk vilji kynnast þjóðkjörnum fulltrúum og sérstaklega fólki sem er að bjóða sig fram til forystu. Já, ég er augljóslega að valda einhverjum titringi. Það er líklega bara gott. Þetta fer ekki mikið fyrir brjóstið á mér get ég sagt þér. Ég veit alveg hvaðan þetta kemur. Það eina sem maður getur gert er að halda áfram og vonast til þess að fólk sjái mann á manns eigin forsendum. Maður getur ekki stjórnað öllu þessu.“

Ánægt og þakklátt

Kristrún er spurð hvort hún sé ekkert smeyk við kastljósið og er minnst á finnska forsætisráðherann sem þurfti að fara í lyfjapróf nýlega eftir að hafa orðið uppvís að því að skemmta sér. Er Kristrún ekkert smeyk við að verða tekin öðrum tökum heldur en karlarnir? Að hún megi minna?

„Ég veit það ekki. Ég held reyndar að það eigi bara við konur í fleiri stöðum að mega minna. Ég hef verið á stöðum bæði hér og erlendis þar sem er ekki mikið af konum og ekki mikið af konum í mínum geira. Á langflestum stöðum hefur mér liðið mjög vel. Við búum hérna í 350.000 manna samfélagi; þetta hefur verið svolítið sérstakt fyrir fjölskylduna mína af því að ég kem ekki úr pólitísku baklandi; ég kem ekki úr fjölskyldu þar sem eru þekktir einstaklingar þar sem er fólk í fréttum. Þetta er venjulegt fólk sem er merkilegt í því sem það gerir en enginn veit af.“

Ég er ekkert að fara að bakka auðveldlega.

Pabbi þinn er þjóðháttafræðingur.

„Og móðir mín er læknir. Fyrir þeim er það auðvitað svolítið skrýtið að sjá myndir af mér á forsíðum. Þetta er auðvitað alveg ný hlið. Ég held að stundum megi maður ekki taka sig of alvarlega. Þetta er samfélagsþátttaka; það að fólk þekki þig, heilsi þér út í búð og segi eitthvað fallegt er 98% af viðbrögðunum. Fólk er bara ánægt og þakklátt. Maður verður líka að hugsa það þannig að þú færð líka rosa mikið jákvætt. Síðan hef ég sagt við minn mann og fjölskyldu að ef þetta kemst á þann stað að mér finnist eins og það sé verið að fara yfir mín mörk þá er ég ekkert handjárnuð við þetta starf. Maður hefur ástríðu og maður er fylginn sér og ég ætla alls ekki að senda þau skilaboð út að það sé hægt að taka mig auðveldlega niður. Ég er ekkert að fara að bakka auðveldlega. En í lok dags verður maður aðeins að standa í fæturna og vera með sinn kjarna og ef manni finnst manni misboðið þá er það í manns eigin höndum að taka ákvörðun um að gera eitthvað annað.“

 

Að tilheyra einhverju

Hvað er langstræsta verkefnið sem Kristrún sér til að laga samfélagið? Það er gríðarlegur launamunur. Það er fátækt. Við erum með alls konar vandamál. Hvernig vill hún auka jöfnuðinn?

„Mér finnst stóra verkefnið núna vera að snúa aftur af þessari auknu einstaklingshyggjubraut sem við erum á. Það er allt í lagi að hugsa um einstaklinga og það er allt í lagi að vera sjálflægur; það er ekki það sem ég er að meina. En grunnurinn að góðu samfélagsgerðinni á Íslandi er samfélag.“

Svo stór partur af lífi fólks er opinber þjónusta.

Kristrún segir að við höfum í rauninni séð hrun frjálshyggjunnar árið 2008. „Að einhverju leyti voru jafnaðarmannaflokkar líka í smávanda varðandi hvar þeir staðsettu sig og voru aðeins að nudda sér upp við kannski hægrið; þetta var sá tími. Síðan kom þetta hrun og við fengum stjórn sem var einhvern veginn að vinna úr hruninu og síðan 2013 þá vitum við ekki alveg hvernig pólitík við eigum að stunda. Það eru einhvern veginn allir að láta eins og þetta sé ekki hægri pólitík en þetta er fjármagnað eins og þetta sé hægri pólitík en talað eins og jafnaðarmenn. Og stóra málið núna er að við eigum heiðarlegt samtal við samfélagið um að það þarf þorp til. Það er búið að fara í mjög miklar veikingar á tekjustofnum ríkisins undanfarin fjögur fimm ár og lækka svigrúm ríkisins til þess í rauninni að fjármagna heilbrigðiskerfið okkar; húsnæðismál um hátt í 50 milljarða á ári hverju bæði með almennum skattalækkunum, sértækum lækkunum og alls konar afsláttum fyrir hina og þessa. Þetta hefur bara veikt getu okkar til þess að standa undir mjög mikilvægum kerfum. Og þetta er ekki bara mín pólitík að tala. Það hafa sérfræðingar bent á þetta. Það eru stór göt í því hvernig við rekum samfélagið okkar. Svo er verið að senda út þau skilaboð að kaupmáttur þinn sé kominn upp vegna þess að ég lækkaði skattana þína. En svo getur þú ekki sótt heilbrigðisþjónustuna eða þá að húsnæðiskostnaðurinn þinn hefur rokið upp úr öllu valdi. Þessir mælikvarðar eru mjög rangir að vera bara að horfa á laun og kaupmátt vegna þess að svo stór partur af lífi fólks er opinber þjónusta. Samfélagsleg þjónusta. Þannig að ég held að stóra verkefnið núna verði að taka þetta samtal af hverju við erum að þessu, af hverju við byggðum þessi kerfi og til hvers þetta er. Þetta snýst ekki um ölmusu eða byrðar þegar kemur að sköttum heldur að tilheyra einhverju. Eiga eitthvað saman. Vera ánægður að borga í sameiginlega sjóði en á sama tíma að upplifa tilgang með þessu vegna þess að þú færð eitthvað til baka. Vegna þess að í dag er verið að reyna að snúa ofan af kerfinu, veikja grunninn, minnka tiltrúna, tvístra fólki og gera það að verkum að fólk hólfar sig af fyrir að sjá um sig sjálft.“

 

Hættumerki

Kristrún er sérfræðingur í efnahagsmálum og er spurð hvort hún sé ekkert smeyk um að það sé hrun fram undan. Húsnæðisverð hefur farið upp úr öllu valdi og verðbólgan er á flugi.

Ef þetta fer upp allan tekjustigann þá getur þetta leitt af sér ofsaverðbólgu.

„Við stöndum á allt öðrum stað en við gerðum 2008. Það er staðreyndin um skuldastöðu fyrirtækja og heimila. Við erum ekki í sömu stöðu hvað það varðar. Erlendar skuldir þjóðarbúsins; við lentum í verulegum vandræðum þar vegna þess að það var ekki til gjaldeyrir í landinu. Og það er allt önnur staða ef þú skuldar í erlendu eða í innlendu vegna þess að þá ertu með einhvern fyrir utan hagkerfið sem liggur á hálsinum á þér bókstaflega. Og það var það sem var valdurinn að miklum vandræðum á sínum tíma. Það sem ég hef áhyggjur af núna eru þessir brestir sem maður er farinn að sjá myndast út af langvarandi vanfjármögnun í heilbrigðismálum og að það sé ekki búið að taka á húsnæðiskerfinu. Þetta er búið að skapa ákveðna togstreitu á nokkrum stöðum í samfélaginu. Og við erum til dæmis að sjá það núna í aðdraganda kjarasamninga; þetta er alveg hættumerki. Þegar þú ert kominn með 10% verðbólgu og fólk sér ekki fram á það að við getum í sameiningu leyst þetta, að fólk ætli að leysa þetta bara með launaliðnum og það er eitt að hækka laun tekjulægsta hópsins. En ef þetta fer upp allan tekjustigann þá getur þetta leitt af sér ofsaverðbólgu.“

 

Á róló

Á Kristrún eitthvað líf fyrir utan pólitíkina?

„Ég hef ekki mikinn frítíma en ég eyði honum mikið með fjölskyldunni minni. Og það er stóra forgangsatriðið í mínu lífi. Ég á litla stelpu sem er þriggja ára og maðurinn minn er í sinni vinnu og það er nóg að gera á okkar heimili. Við fluttum heim til að vera í íslensku samfélagi, til að vera nálægt fjölskyldunni okkar. Ég ver mestum tíma hjá foreldrm mínum og tengdaforeldrum mínum í frítímanum. Ég á auðvitað góða vini úr menntaskóla og háskóla sem ég hitti af og til en ég held að ég sé á sama stað og margir sem eru með ung börn en það fer bara mikill tími í að sinna þeim. Það þarf pössun ef við förum út úr húsi og við höfum sett það sem forgangsatriði að við vildum ekki gefa eftir þrátt fyrir að við værum í vinnu sem væri ákveðið álag í; þá vildum við ekki gefa eftir í því þegar kemur að því að eiga fjölskyldu. Og þá forgangsmaður bara þannig. Þetta er ótrúlega skemmtilegur tímir. Þetta er með því skemmtilegra sem maður gerir þótt þetta sé líka krefjandi. Þess vegna eru engin myndbönd af mér eins og Sönnu. Ég er ekkert mikið í bænum.“

Þú ert ekki mikið á djamminu.

„Nei, ég fer snemma að sofa. Svo er ég bara með barninu á róló. Það er rosa mikið þannig núna.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -