Formaður Samfylkingarinnar – Kristrún Frostadóttir – segist hafa verið með rólegri börnum í æsku.
Kristrún segir tilviljanir hafa skipt hana miklu máli í lífinu; segir það oft geta verið vandmeðfarið að búa yfir miklu sjálfstrausti.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í Einkalífinu á Vísi þar sem Kristrún lét gamminn geysa.
Kristrún segir samskipti skipta svo miklu máli, en hún segist hafa heyrt af sér sögur um að hún láti eldri karlmenn stjórna sér í starfi:
„Ég tala við allskonar fólk og þvert á stjórnmálaflokka. En ég hef alveg heyrt þessar sögur, að það sé einhver á bakvið mig og þetta eiga aðallega að vera eldri karlmenn sem eru að stýra mér. Það þykir rosalega vinsæl kenning, sem er auðvitað bara hlægilegt,“ segir hún og bætir við:
„Ég auðvitað leita mér ráða hjá reynslumiklu fólki en það er alveg þvert á hið pólitíska landslag og það er líka bara þvert á aldur, og kyn og reynslu og allt þetta. Þú auðvitað bara tekur inn allskonar upplýsingar; en í lok dags þá tekur maður ákvörðun sjálfur á eigin forsendum.“