Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Kristrún Úlfarsdóttir á að baki erfitt líf: Lofaði eiginmanninum að fremja ekki sjálfsmorð

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég átti fremur erfiða æsku. Ég var mikið á spítala og ég var lögð í einelti og þar af leiðandi átti ég fáa vini,“ segir Kristrún Úlfarsdóttir sem mörgum árum síðar barðist við mikið þunglyndi eða á árunum 1998-2005.

Eineltið byrjaði í sjö ára bekk. „Ég var með króníska blöðrubólgu; ég fann ekki þegar ég þurfti að pissa og þá bara lak allt niður og þá byrjuðu krakkar í skólanum meðal annars að uppnefna mig.“ „Kristrún pissufýla“ var oft sagt. Hún var stundum læst inni á klósetti í skólanum og krakkar földu skólatöskuna hennar og úlpuna. „Þegar ég var komin í unglingadeild vildi enginn vera með einhverjum sem var með eitthvað pissufýlunafn á sér. Þetta fylgdi mér svolítið út skólann. Ég var mjög sorgmædd og reyndu mamma og pabbi á tímabili að fá mig setta í annan skóla en það gekk ekki. Ég var þó látin skipta um bekk og eineltið minnkaði við það inni í skólastofunni en ég þurfti samt að fara út í frímínútur þar sem ég hitti fyrrverandi bekkjarsystkini mín.“

Ég var mjög sorgmædd og reyndu mamma og pabbi á tímabili að fá mig setta í annan skóla en það gekk ekki.

Kristrún eignaðist sína elstu dóttur 18 ára gömul. Hún segist hafa öðru hvoru orðið döpur eftir fæðinguna. Þetta vatt svo upp á sig eftir að miðjudóttirin fæddist en hún fékk þá fæðingarþunglyndi og hún fékk svo alvarlegt þunglyndi eftir að yngsta dóttirin fæddist.

Miðjudóttirin fæddist með hjartagalla og segist Kristún alltaf hafa verið með áhyggjur. „Þetta kom í ljós þegar hún var sex mánaða og ég hélt að hún væri að fara að deyja. Hún var í eftirliti þangað til hún var þriggja ára en þá varð hún að fara í aðgerð af því að hún var hætt að stækka. Hún var alltaf veik; mikið frá leikskóla og fékk allar umgangspestir.“ Ástandið lagaðist eftir að hún fór í aðgerð.

 

Kristrún Úlfarsdóttir

- Auglýsing -

Kristrún var orðin þriggja barna móðir 22 ára. Hún þyngdist mikið á þessum tíma. Var orðin 125 kíló og það hafði áhrif á líðanina. Andlega og líkamlega. Hún fór á örorkubætur árið 2002 vegna þunglyndis og offitu. „Ég var komin með sykursýki, háþrýsting og kólesterólvesen út af offitu.“

 

Við áttum ekkert

- Auglýsing -

Hún segist hafa verið dofin á þessum tíma. „Ég man mjög lítið eftir þessu tímabili. Það er eins og heilinn hafi sett í lás. Ástandið var skelfilegt. Ég lá bara oft uppi í rúmi, grenjaði oft og ég var bara ömurlega leiðinleg á þessu tímabili. Ég tók ekki til og hugsaði ekki um börnin mín. Ég vildi bara fá að sofa af því að þá fann ég ekki til. Maðurinn minn varð eiginlega samdauna þessu. Þetta var bara normið. Ég fór til læknis en hann sagði mér að hætta þessu bulli og fara bara út og hreyfa mig. Svo fór mamma með mér til annars læknis og þá fékk ég töflur en þær höfðu lítið að segja. Ég prófaði þrjár tegundir af þunglyndislyfjum en ég hætti að taka þau þar sem mér fór að líða verr en læknirinn sagði að fólk geti farið í lægð áður en það fer svo upp. Maðurinn minn var mikið atvinnulaus á þessum tíma og við áttum engan pening. Við áttum stundum ekki mat. Við áttum ekkert. Þetta var hræðilegt. Við skráðum okkur ekki í sambúð af því að þá hefðum við haft ennþá minna á milli handanna og þá hefðu leikskólagjöldin hækkað. Hann var á atvinnuleysisbótum og ég á örokubótum og við gátum ekki lifað af þeim peningum sem við fengum. Mamma varð stundum að fara með okkur og kaupa handa okkur mat. Við keyptum til dæmis aldrei ost; ostur var munaður. Við leyfðum okkur einstaka sinnum að kaupa súkkulaði. Svo reyktum við mikið. Ég var farin að reykja hátt í tvo pakka á dag. Það gekk eiginlega fyrir á þessum tíma að geta gefið krökkunum okkar núðlur og að kaupa sígarettur fyrir okkur. Svo vorum við stundum með spaghettí sem var ódýrt. Við keyptum hvorki grænmeti né ávexti sem voru dýrir.“

Ég tók ekki til og hugsaði ekki um börnin mín. Ég vildi bara fá að sofa af því að þá fann ég ekki til.

 

Hefði viljað sofna svefninum langa

Elsta dóttir Kristrúnar bjó hjá ömmu sinni í nokkur ár vegna ástandsins. „Ég grenjaði svo mikið þegar ég samþykkti að hún fengi að fara. Mér fannst það vera svo mikil árás á mig. Mér fannst ég ekki vera góð mamma. Ég átti mjög erfitt út af þessu. Svo hugsaði ég út í hvað væri best fyrir hana þannig að ég samþykkti að hún byggi hjá mömmu. Við bjuggum þó hlið við hlið þannig að dóttir mín hljóp á milli.“

 

Mamman var sofandi og það var allt í ógeði

Þögn.

„Það bjargaði því alveg að hún gat hlaupið á milli.“

Ástandið var oft þannig að Kristrúnu langaði ekki til að lifa lengur. Framtíðarsýnin var engin. „Ég var það heppin að maðurinn minn var búinn að taka af mér loforð um að ég myndi aldrei fremja sjálfsmorð. Þess vegna er ég hér ennþá. Ég hefði annars viljað fá að sofna og ekkert vakna aftur.“

Þögn.

„Það var bara orðið þannig.“

Hún er spurð hvað hafi verið erfiðast.

„Þegar ég hugsa til baka þá var það að hafa aldrei verið til staðar fyrir börnin. Stelpurnar komu ekkert heim með vini sína. Mamman var sofandi og það var allt í ógeði.“

Þögn.

 

Eins og spark í rassinn

Barnaverndarnefnd hafði afskipti af fjölskyldunni um tíma. „Maðurinn minn sendi stelpurnar einn daginn í óhreinum náttfötum í leikskólann. Ég var búin að vera að senda þær í óhreinum fötum í leikskólann og þennan dag fann hann engin hrein föt en fann óhrein náttföt sem hann vissi ekki að væru óhrein. Þá kom Barnaverndarnefnd inn í málið. Ég var boðuð á fund en mætti ekki. Ég var síðan boðuð aftur á fund en mætti ekki heldur þá. Þá kom félagsráðgjafi og önnur kona á vegum Barnaverndarnefndar heim og börðu þær allt að utan þangað til ég neyddist til að opna. Þeim örugglega krossbrá við að sjá heimili mitt. Ég fékk svo þessa konu, sem var yndisleg, sem tilsjónarmann og hún kom næsta mánuð vikulega heim og sagði til dæmis að þá vikuna ætti ég að taka til á hillusamstæðunni; hún setti niður verkefni. Þetta var eins og spark í rassinn. Þetta bjargaði okkur held ég. Ég hugsaði nefnilega fyrst með mér að nú ætti að taka börnin af okkur en svo var ekki. Starfsfólk Barnaverndarnefndar var yndislegt og þau voru öll tilbúin til þess að hjálpa.“

Þetta bjargaði okkur held ég. Ég hugsaði nefnilega fyrst með mér að nú ætti að taka börnin af okkur en svo var ekki.

Maður Kristrúnar fékk svo vinnu og þá fór henni að líða enn betur þegar þau höfðu meiri pening á milli handanna. Og hún var farin að fara út að ganga. „Ég nánast bjó við hliðina á leikskólanum og ég man þegar bíllinn var bilaður einn daginn og ég ákvað að labba með  stelpurnar í leikskólann en það tók um þrjár mínútur. Ég var svo stolt af sjálfri mér að ég talaði um það þegar ég kom þangað að ég hefði gengið að heiman. Fólkinu fannst þetta ekki vera merkilegt.“

Hún hlær.

Þetta var stórt skref fyrir Kristrúnu.

„Svo fór amma að fara með mig reglulega að ganga í kringum Hvaleyrarvatn.“

Kristrún gekk og gekk og leiðin upp á við tók tíma en hún náði toppnum. Hún hætti á örorkubótum og segir að það hafi tekið tíma að fá vinnu en hún fékk svo vinnu árið 2008 sem skólaliði í grunnskóla. Hún vann síðan með fötluðum í mörg ár.

 

Kristrún Úlfarsdóttir

 

Vill hjálpa öðrum

Kristrún fór aftur á örorkubætur í fyrra vegna vefjagigtar en hún segist ekki taka nein lyf við henni; segist vera svolítið töfluhrædd. „Ég held ég sé búin að vera með vefjagigt síðan ég var unglingur. Ég var oft með verki og það var oft sagt að þetta væru vaxtarverkir; 18 ára með vaxtarverki.“ Hún hlær.

„Vefjagigtin var farin að hafa áhrif á líf mitt og starfsgetu. Ég var farin að sjá gömlu mig. Ég var alltaf svo þreytt. Ég fór fyrir nokkrum árum í aðgerð og missti mikið blóð og um ári síðar leið ég út af og fór á sjúkrahús þar sem ég fékk blóðgjöf og járn í æð. Ég hef verið mjög þreytt eftir þessa aðgerð og vefjagigtin versnaði í kjölfarið. Ég nennti ekki neinu. Þetta hafði áhrif á allt. Mér leið samt ekki eins og þegar ég var þunglynd.“

Hvað finnst Kristrúnu hún hafa lært af þessari lífsgöngu sinni þar sem hún hefur farið niður í dalbotna og upp á hóla og fell? „Ég held ég sé sterkari en ella og hef meiri innsýn í lífið og tilveruna. Ég get líka passað upp á sjálfa mig; ég ætla ekki að fara þessa leið aftur. Þetta hefur gert mig harðari. Ég læt meira yfir mig ganga. Og ég get hjálpað öðrum sem eru að ganga í gegnum það sem ég hef gengið í gegnum. Ef fólki líður illa þá á það að treysta einhverjum fyrir því sem það er að ganga í gegnum og fá hjálp. Ég sagði til dæmis ekki mikið frá því þegar ég var lögð í einelti en það er erfitt að hjálpa þeim sem segja ekki frá og enginn les hugsanir þeirra. Þannig að númer eitt, tvö og þrjú er að segja frá og tala um það.“

Ef fólki líður illa þá á það að treysta einhverjum fyrir því sem það er að ganga í gegnum og fá hjálp.

Kristrúnu líður vel í dag eða eins og aðstæður leyfa. Hún vill hjálpa öðrum og er með opið snapp, krissa4, þar sem hún ætlar að tjá sig um reynslu sína.

Hún átti sér enga drauma þegar henni leið sem verst. Hún á hins vegar drauma í dag.

„Mig dreymir um að ná betri heilsu og geta vonandi farið aftur út á vinnumarkaðinn. Mig langar til að ferðast af því að ég gerði ekki neitt í mörg ár.“

Hvert langar hana til að fara?

„Aðaldraumurinn er að sigla á skemmtiferðaskipi um Karabíska hafið.“ Hún hlær „Ég held að það væri geggjað.“

Hún hlær í dag. Það gerði hún ekki á sínum tíma.

„Fólk á ekki að gefast upp þótt það langi til þess. Ekki gera það. Það mega allir taka pláss í veröldinni.“

Fólk á ekki að gefast upp þótt það langi til þess.

 

Kristrún Úlfarsdóttir

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -