- Auglýsing -
Eldar loga innan Þjóðkirkjunnar vegna deilna um það hvort Agnes Sigurðardóttir biskup hafi umboð til að sitja í embætti eða ekki. Mogginn hefur verið duglegur við að bera sprek á bálið og kynda undir illindunum í hinni heilögu kirkju. Á forsíðu fimmtudagsblaðsins var greinarkorn þar sem skilja mátti að Kristrún Heimisdóttir, einn af varaforsetum Kirkjuþings, teldi að Agnes hefði ekki umboð til að sitja áfram. Kristrún var misboðið og hún brá skjótt við og fordæmdi fréttaflutninginn. „Í dag gerðist það – sem aldrei skyldi henda nokkurn og ég hef ekki orðið fyrir áður. Á yfirlýsingum á forsíðu Morgunblaðsins mátti skilja að ég hefði kúvent í afstöðu til mála biskupsembættisins. Steindór Runeberg sem stóð fyrir þessuhafði til þess engan rétt en tók sér hann. Steindór talar ekki ekki fyrir mig og mun aldrei gera. Allt sem ég hef sagt áður um þetta mál stendur,“ skrifaði Kristrún á Facebook. Í athugasemdum voru þónokkrir sem sýndu henni hluttekningu. Aðrir bentu á að Mogginn er „ekkert sérlega víðlesið blað“ og ekki ástæða til að fjargviðrast yfir rangfærslum hans …