„Þú þarft að hata sjálfan þig til að vilja drepa þig“ segir Kristinn Óli Haraldsson, betur þekktur sem Króli – sem hefur ekki alltaf átt sjö dagana sæla.
Þrátt fyrir ungan aldur hefur Króli sett mark sitt á íslenskt tónlistarlíf, ásamt samstarfsmanni sínum JóaPé; þeir áttu söluhæstu plötu ársins tvö ár í röð og flestir Íslendingar kannast við lagið þeirra B.O.B.A. frá árinu 2017.
Króli á líka að baki leikferil sem hófst þegar hann var tíu ára gamall. Þrátt fyrir þessi afrek á Króli erfitt með að lýsa sjálfum sér sem hæfileikaríkum; telur sig mislyndan og að þessi snögga frægð hafi haft mjög slæm áhrif á geðheilsu sína.
Króli segir að hann sé mislyndur einstaklingur sem hafi lent á botninum andlega fyrir tveimur árum; hann hætti að geta séð um sig sjálfur en Króli gekk í gegnum erfið sambandsslit á þessum tíma sem hann gerði ekki upp andlega.
Og segir um frægðina: „Hvaða sick djók er það að hleypa einhverjum fokking skrítnum rauðhaus sem kann ekki að syngja á bara bilað platform?“
Botn Króla tengdist ekki áfengi og öðrum eiturlyfjum og hann telur líklegt að ef hann hefði byrjað í neyslu hefði hann tekið eigið líf – en hann hefur aldrei neytt eiturlyfja.
Króli er með nokkrar greiningar á bakinu; greindur með kvíðasjúkdóm, ADHD, Tourette og einnig áráttu- og þráhyggjuröskun.
Króla leið það illa á tímabili að hann hafði ákveðið dagsetninguna þegar hann ætlaði að fremja sjálfsmorð. Þann dag vildi svo vel til að Jói vinur Króla var mikið með honum og gafst Króla því aldrei svigrúm til fremja sjálfsmorð. Í staðinn gafst Króla tími til að hugsa og daginn eftir lét hann móður sína vita að hann væri hjálpar þurfi og komst að lokum í úrræði sem hjálpuðu honum.
Króli segist í dag hættur að gera tónlist; hann hafi ekki gert neina tónlist í eitt og hálft ár og finnst sem hann sé dragbítur á samstarfsmanni sínum, JóaPé; finnst framlag sitt til tónlistarinnar vera ómerkilegt í samanburði við forvinnuna sem farið hefur í grunnana sem hann semur vanalega ofan á.
Í dag væri Króli til í að vera leikari og ætlar að þreifa fyrir sér í leiklist. Ekki fyrir svo löngu fór Króli með hlutverk Tóta tannálfs í uppsetningu Menningarfélags Akureyrar á leikritinu Benedikt búálfur, en hann lék fyrst í hlutverki hins unga Georgs Bjarnfreðarsonar í kvikmyndinni Bjarnfreðarson frá árinu 2009.
Heimild: Hlaðvarpið Snæbjörn talar við fólk.