Fimmtudagur 16. janúar, 2025
-0.2 C
Reykjavik

Krúnudjásn myndasöguheimsins

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ævintýri Leðurblökumannsins og undradrengsins Glóbrystings eru nú komin út á íslensku.

Verslunin Nexus, sem sérhæfir sig meðal annars í sölu á myndasögum og borðspilum, stendur fyrir útgáfunni og segir þýðandinn Haraldur Hrafn Guðmundsson að þetta séu fyrstu hefðbundnu ofurhetjusögurnar sem gefnar eru út á okkar ástkæra ylhýra síðan Siglufjarðarprentsmiðjan var og hét á níunda áratugnum.

„Þetta eru valdar sögur um Leðurblökumanninn, alveg frá 6. áratugnum og til dagsins í dag. Þarna er meðal annars að finna upprunasögu hans og eins af erkióvinum hans hins dulmagnaða Ra’s al Ghul. Við erum að raða sögunum þannig að þær myndi heildsteypta sögu, fyrst og fremst Leðurblökumannsins, en þær hafa aldrei verið settar fram í réttri lesröð áður. Það má því líta á þessa útgáfu sem ævisögu hans,“ lýsir Haraldur.

Þetta eru valdar sögur um Leðurblökumanninn, alveg frá 6. áratugnum og til dagsins í dag.

Spurður hvers vegna sögurnar um Leðurblökumanninn hafi orðið fyrir valinu frekar en til dæmis um Ofurmennið eða Undrakonuna segir hann svarið vera einfalt. Leðurblökumaðurinn hafi í gegnum tíðina laðað til sín marga af bestu myndasöguhöfundunum og teiknurunum og sögurnar séu því margslungnar og með eindæmum vel skrifaðar. Tónninn sé myrkari en í mörgum öðrum sögum sem helgist meðal annars af áhrifum frá drungalegum spæjaramyndum (film noir) og gotneskum bókmenntum.

Helsta aðdráttaraflið sé þó tvímælalaust Leðurblökumaðurinn sjálfur, breyska hetjan og sem beitir vafasömum aðferðum til að knýja fram réttlæti og er rekinn áfram af hatri á glæpamönnum og hefndarþorsta í kjölfar hrottalegs morðs á foreldrum hans. Allt geri þetta að verkjum að sögurnar um hann séu vinsælli en aðrar og þess vegna hafi þeir valið þær. Leðurblökumaðurinn sé einfaldlega krúnudjásn myndasöguheimsins.

Fyrst og fremst ástríðuverkefni

En er ekki svolítið áhættusamt að vera að gefa sögurnar út á íslensku fyrst þær eru þegar aðgengilegar á ensku? Er markaður fyrir þetta? Haraldur brosir. „Þegar við réðumst í þetta verk þá vissum við ekki hvernig sögurnar myndu seljast,“ viðurkennir hann hiklaust. „Bjuggum okkur alveg undir að það yrði smávegis brekka til að byrja með. En veistu, viðtökurnar hafa verið góðar, satt að segja farið fram úr björtustu vonum.“

- Auglýsing -

Hann bætir við að útgáfan sé hvort sem er ekki rekin í sérstöku hagnaðarskyni, þótt auðvitað sé fínt að hún standi undir sér. Fyrst og fremst sé þetta ástríðuverkefni sem miði meðal annars að því að fá ungmenni til að lesa. „Rannsóknir sýna að krakkar, einkum drengir lesa bækur á íslensku í minna mæli en áður, á sama tíma og myndasögur á ensku seljast vel. Okkur langar bara að sjá hvort við getum ekki tendrað áhuga krakkana á móðurmálinu með því að gefa svona sögur út á íslensku. Það má því segja að þetta sé eiginlega lestrarátak líka.“

Getur ekki beðið eftir næstu sögu

Haraldur tekur fram að ekkert sé til sparað við útgáfuna, prentun og pappír séu í hæsta gæðaflokki og sjálfur leggi hann sig allan fram um að gera þýðinguna sem best úr garði, sem sé tvímælalaust sú skemmtilegasta sem hafi rekið á fjörur hans sem þýðanda.

- Auglýsing -

„Ég er búinn að vera að þýða alls konar skjöl og gögn síðustu tíu ár og sjónvarpsefni og kvikmyndir annað slagið og verð að segja að þetta verkefni tekur öllu öðru fram. Það datt óvænt í hendurnar á mér þegar Gísli Einarsson, eigandi Nexus, hafði samband og við og ritstjórinn, Pétur Yngvi Leósson, höfum unnið að þessu saman. Maður getur eiginlega ekki beðið eftir næsta verkefni, þetta er svo gaman.“

Talandi um það, þá er nú ekki úr vegi að spyrja hvað sé fram undan? „Sko, við stefnum að mánaðarlegum ritum um Leðurblökumanninn og svo kemur saga, stór doðrantur um Réttlætisbandalag Ameríku, Justice League of America, út einhvern tíma með vormánuðum,“ segir hann leyndardómsfullur. „Vinnan við það er að klárast, þannig að unnendur góðra myndasagna eiga gott í vændum. Það er það eina sem ég get sagt.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -