Lögregla var kölluð út í gærkvöldi vegna innbrots í fyrirtæki í Árbænum. Þegar lögregla mætti á vettvang var þjófurinn á bak og burt en saur blasti við þeim á gólfi fyrirtækisins. Síðar um kvöldið barst tilkynning um annað innbrot, að þessu sinni í hverfi 108. Gerði þjófurinn tilraun til þess að hlaupa undan lögreglu sem tókst þó ekki.
Tilkynnt var um umferðaslys á Grenimel í Vesturbænum í gær. Ekki kemur fram í dagbók lögreglu hvort einhver hafi slasast. Við Smáralind átti umferðaróhapp sér stað. Aðilinn sem ók á aðra bifreið ákvað að stinga af frá vettvangi. Aðili með falsað ökuskírteini var stöðvaður í Kópavogi en auk þess hafði hann aldrei öðlast ökuréttindi.
Íbúi á höfuðborgarsvæðinu gleymdi sér í gærkvöldi þegar hann hugðist fara í bað. Flæddi upp úr baðinu með tilheyrandi veseni eftir að gleymst hafði að skrúfa fyrir vatnið. Slökkviliðið mætti á staðinn og hreinsaði heimilið.