Miklir kuldar draga úr drægni rafmagnsbíla svo um munar.
Óvenju stór hluti eiganda Tesla bíla býr fast við heimskautabauginn og munar þar mest um frændur okkar Norðmenn. Miklir kuldar hafa geisað þar í landi og eðlilega dregur veðurfarið úr drægni bílanna.
Langar raðir mynduðust við hleðslustöðvar í Oslo í síðustu viku þar sem eigendur bílanna komust ekki heim úr vinnunni án þess að hlaða þá á leiðinni.
„Það hefur aldrei verið einblínt á að bæta batterí í rafbílum svo þeir þoli -20 C°” sagði Ordne Stokke Burheim, prófessor við Norska Tækniháskólann í viðtali við norska ríkissjónvarpið. „Aftur á móti þola þau allt að 40°C hita en fari hitinn hærra en það minnkar virknin eins og í kuldanum.“
Hann bendir í kjölfarið á að með forsjálni er auðvelt að komast hjá þessum vandræðum, bæði þegar kemur að því að hlaða bílinn og ræsa hann. Reglan er einföld, þeim mun nær stofuhita sem þú kemur vélinni áður en kveikt er á bílnum og á meðan hann er hlaðinn, þeim mun betur endast batteríin.
Kuldinn fer ekki bara illa með rafmagnsbílana heldur díselbíla sömuleiðis og þessu hafa Norðmenn og Evrópubúar fengið að kynnast undanfarnar vikur. Forhitun vélarinnar krefst mun meiri rafmagns og getur mögulega tæmt rafmagnsgeyminn, og við -15 til 20°C á dísel olían það einfaldlega til að frjósa.
Bílaeigendur á Íslandi þurfa ekki að hafa miklar áhyggjur af áhrifum kuldans nema þeir hyggi á fjallaferðir því svo virðist sem -15 gráður sé þröskuldurinn fyrir vandræði tengd orkugjafa Tesla bílanna. Okkar helstu vetrar vandræði halda því áfram að snúa að því að skafa bílinn og losa um frosnar læsingar.