Sólbjört Sigurðardóttir er danshöfundur sem og einn dansaranna sem fylgdu hljómsveitinni Hatara til Tel Aviv, en hún er líka nemandi á samtímadansbraut á Sviðslistadeild Listaháskóla Íslands og var nýlega að skila inn BA-ritgerð sinni þar um hlutverk sitt sem dansari Hatara.
Ritgerðin kallast „Kvendansarar í Hatara og hlutverk þeirra: hin kvenlega og valdeflandi kona.“ Sólbjört er einn tveggja kvendansara Hatara, en þriðji dansarinn er karlkyns. Oftast eru slíkir dansarar kallaðir bakdansarar en Sólbjört leggur til orðið stuðningsdansari sem hún segir lýsa hlutverki þeirra betur.
Hugmyndafræði þeirra kemur að einhverju leiti til þess hluta þriðju bylgju femínisma sem kallast „lipstick feminism,“ eða varalitsfemínismi, þar sem konan eignar sér sinn eigin kynþokka.
Í ritgerðinni lýsir hún því að þetta snúist um „að viðurkenna það að konur geti verið femínistar án þess að afneita eða hunsa kvenleikann. Að konan geti t.d. talað opinskátt um kynhneigð og kynlíf án þess að vera kölluð drusla. Þessi tiltekni femínisti trúir því, í mjög bókstaflegum skilningi, að það sé hægt að ganga með varalit og kalla sig femínista, þar sem femínisminn snýst um svo miklu meira en það hvernig hver og einn er útlítandi, hvort sem viðkomandi notar farða eða ekki.“
Bannorðið kynþokki
Hún ræðir það einnig hvernig kynþokki hafi orðið ákveðið tabú í hinum ólíkustu kreðsum samfélagsins.
„Af hverju er svona viðkvæmt, tabú og stundum neikvætt að vera sexý? Af hverju er það stundum bannað? Erum við að særa blygðunarkennd fólks með því að vera eins og við erum? Megum við ekki vera sexý þegar við dönsum því við erum konur? Erum við þá sjálfkrafa orðnar druslur? Megum við það ekki því konur hafa barist fyrir auknum almennum réttindum kvenna svo og réttindum þeim að eiga sig sjálfar? Eigum við þá kynþokkann okkar ekki sjálfar?“
Í grein Nínu Hjálmsdóttur í Stundinni var framlag Hatara gagnrýnt harðlega og þar voru dansararnir ekki undanskildir.
„Ég átti erfitt með að leiða það hjá mér þegar þeir síðar bættu við tveimur kvenkyns dönsurum á sviðið, sem hafa það eina hlutverk að skreyta og magna upplifunina. Nú voru strákarnir búnir að taka á sig birtingarmynd valdsins, á meðan konurnar voru sýndar sem undirgefnar, vélrænar og raddlausar.“
Þessu er Sólbjört ósammála. „Kvendansarinn er hvorki að gefa sig á vald Matthíasar né Klemensar þó svo að dansinn leiki ekki endilega aðalhlutverk sviðsframkomunnar.“
Hún bætir við að hjá þeim hafi verið „mikilvægt að konan á sviðinu væri sterk og valdeflandi, örugg með sjálfa sig, kynþokka og kvenlega eiginleika. Kvendansarinn á sviðinu á alls ekki að vera bara til skreytingar.“
Raunar virðist það miklu frekar vera karldansarinn eini sem sé undirgefinn. „Klemens syngur með fallegri hárri röddu og er undirgefinn Matthíasi sem öskrar textana. Einar er trommugimp sem fær aldrei að tala, þar sem hann er klæddur í grímu með göddum á. Kvendansararnir eru valdeflandi konur. Þriðji dansarinn, eða Andrean, sem er karlkyns, er sá sem er undirgefinn, sem er meðvituð ákvörðun allra í Hatara. Ef við skoðum andstæður og núansa í sviðsetningu, á laginu Hatrið mun sigra, eru þær nokkrar. Andrean túlkar bælda sál Matthíasar og er sem hundur hans í bandi.“
Blankir dansarar með súperstjörnum
Það er þó ekki sældarlíf að vera stuðningsdansari. Sólbjört ræðir töluvert dansara og danshöfundana sem vinna með Beyonce – en þurfa að finna sér nýja vinnu á milli tónleikaferðalaga.
„Á hverjum degi fer þetta fólk í neðanjarðarlestirnar á leið sinni í kalt og afskekkt dansstúdíó eða inn um bakhurðir á leikhúsunum. Þú myndir ekki endilega þekkja andlitin þó þessi andlit taki þátt í flestum af vinsælustu söngleikjunum sem oftar en ekki er uppselt á, þó þessi andlit komi fram í stærstu sjónvarpsþáttum landsins. Þessir dansarar eiga oftast engan pening þó þau dansi með frægustu söngvurunum á tónleikaferðalagi um heiminn.“
En hvernig lýsir hún dansinum með Hatara?
„Hreyfingarnar hafa ekki bókstaflegan kynþokkafullan útgangspunkt en þær eru sumar hverjar kvenlegar, líklega þar sem kvenlíkamar eru að framkvæma hreyfinguna. Búningarnir eru kvenlegir og kynþokkafullir a.m.m., á meðan sumar hreyfinganna eru einföld skref, ýmist áfram eða afturábak, sem er ekki bókstaflega kvenleg eða kynþokkafull hreyfing. Á sviðinu er því samspil á milli margra þátta, tónlistar, búninga, hreyfinga o.fl. sem vekur upp tilfinningaleg hughrif hjá áhorfendum sem kunna að vera (sem dæmi) kvenleg, kynþokkafull, valdeflandi, undirgefin o.s.frv. Við sjáum í myndbandi ákveðna þversögn á milli búninga og hreyfinga þar sem hreyfingarnar eru ekkert sérstaklega kynþokkafullar en dansaðar í búningum sem eru, að mínu og annarra mati, bersýnilega kvenlegir og kynþokkafullir.“