Höfundur / Þóra Sigfríð Einarsdóttir, sálfræðingur hjá Domus Mentis, Geðheilsustöð.
Að finna fyrir kvíða öðru hvoru er hluti af því að vera manneskja. Kvíði er náttúrulegt viðbragð, svokallað varnarviðbragð, sem kviknar þegar eitthvað ógnar okkur, segir okkur að nú sé hætta á ferðum og undirbýr líkamann til að takast á við hana.
Við þekkjum því öll þetta viðbragð eða þessa tilfinningu sem hefur fylgt manninum svo lengi sem hann hefur gengið á þessari jörð. Í dag búum við auðvitað við allt annan veruleika en forfeður okkar sem þurftu endurtekið að takast á við lífshættulegar aðstæður enn það gera fæst okkar í dag.
En þegar kvíðinn kviknar í samfélagi nútímans, í aðstæðum sem eru langt frá því að vera lífshættulegar, bregst líkaminn við á sama hátt og hann gerði þegar forfeður okkar þurftu að kljást við rándýr á sléttum Afríku. Dæmi um slíkar aðstæður gæti verið að fara í atvinnuviðtal, taka próf eða halda ræðu. Flestir hafa fundið fyrir einhverjum kvíða í slíkum aðstæðum og er það fullkomlega eðlilegt og í raun hjálplegt því oft leggjum við okkur meira fram vegna kvíðans. Við lærum til dæmis sérstaklega vel fyrir það próf sem okkur kvíðir mest fyrir. Kvíðinn verður líka til þess að við tökum síður óþarfa áhættur, förum til dæmis ekki fram á ystu klettabrún.
Kvíði er því ekki sjúklegur í sjálfum sér heldur frábært lífsnauðsynlegt viðbragð sem varar okkur við hættu og hjálpar okkur að takast á við það sem ógnar okkur. Ef allt er eðlilegt þá verðum við vör við þessa tilfinningu í ákveðnum aðstæðum og þegar hættan er liðin hjá á að slokkna á kvíðanum. Viðbragðið á því ekki að trufla daglegt líf okkar en það er einmitt það sem gerist þegar fólk glímir við kvíðaraskanir eins og til dæmis almennan kvíða.
Í slíkum tilfellum er líkt og kvíðinn kraumi nánast allaf undir niðri og blossi upp þess á milli. Slíkt ástand getur haft töluverð áhrif á daglegt líf fólks og dregið verulega úr lífsgæðum þess. Og það sem verra er, þá á slíkur kvíði það til að breiða úr sér ef ekkert er að gert. Einfaldar athafnir (fyrir flesta) geta verið ógnvekjandi fyrir fólk með kvíðaraskanir.
Það að fara út í búð og versla í matinn getur verið afar kvíðvænlegt, að hringja og panta tíma í klippingu er erfitt, að fara í lyftu getur verið ógnvekjandi og það að sitja í bíl getur virst lífshættulegt. Stundum verður almennur kvíði því til þess að fólk einangrast mjög og kemur í veg fyrir að fólk láta drauma sína rætast.
Sem betur fer eru til mjög góðar gagnreyndar meðferðir til að takast á kvíða og er hugræn atferlismeðferð þar efst á blaði.