Föstudagur 25. október, 2024
0.4 C
Reykjavik

„Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kiana Sif Limehouse var barn þegar brotið var ítrekað á henni kynferðislega, að hennar sögn. Meintur gerandi var þáverandi stjúpfaðir hennar, sá hinn sami og Helga Elín sagði í 12. tölublaði Mannlífs hafa misnotað sig kynferðislega í sumarbústað þegar hún var tíu ára gömul. Kiönu blöskrar að maðurinn, sem er lögreglumaður, fái enn að starfa, en hún er ein þriggja stúlkna sem hafa sakað manninn um kynferðisbrot. Í kjölfar erfiðrar æsku leiddist Kiana út í fíkniefnaneyslu og var farin að reykja kannabis daglega aðeins þrettán ára. Hún hefur verið edrú í þrjú ár og þarf að vinna í því á hverjum degi að elska sjálfa sig á ný.

„Ímynda ég mér stundum hvernig lífið hefði verið öðruvísi ef þetta hefði ekki gerst? Já, algjörlega. En maður lifir bara með því sem hendir mann. Föðurættin mín er mjög trúuð og hefur föðuramma mín talað um að Guð sendi einungis það til manns sem maður getur tekist á við. Ég er ekki eins trúuð og hún og get því miður ekki fundið neina réttlætingu á því sem gerðist,“ segir Kiana.

Hún verður 21 árs í nóvember, er að læra að verða félagsliði og vinnur á elliheimili. Í fyrstu virðist sem henni finnist auðvelt, ef svo má segja, að tala um fortíð sína. Hún er opin og einlæg og segir frá barnæsku sinni eins og hún sjái hana ljóslifandi fyrir sér. Kiana á bandarískan föður og íslenska móður sem skildu þegar hún var þriggja ára gömul. Þá byrjaði móðir hennar að vera með manni sem Kiana segir að hafi brotið á sér kynferðislega.

„Ég man enn í hvernig buxum hann var þetta skiptið“

„Ég fann alltaf fyrir því að ég var ekki tekin í sátt. Ég man að hann átti erfitt með að stjórna skapi sínu og ég var skömmuð fyrir minnstu hluti. Mín upplifun sem krakki var að ég væri bara fyrir,“ segir Kiana. Hún segir að þegar hún hafi nálgast kynþroskaaldurinn hafi áhugi mannsins á sér aukist.

„Ég svaf alltaf uppi í rúmi hjá mömmu þegar hann var að vinna. Þegar hann færði mig á milli rúma man ég eftir að hann byrjaði að þukla brjóstin á mér. Ég var vakandi en lét sem ég svæfi. Ég vissi að þetta var ekki rétt en ég sagði ekki neitt. Ég var lítil og hafði ekki vit á því að þetta væri óeðlilegt. Síðan fór þetta að vinda upp á sig. Hann bauð mér að smakka áfengi og einhverju síðar man ég eftir honum standandi í dyrunum á herberginu mínu þegar ég var sofandi. Þá hafði hann verið að drekka og þuklaði á sjálfum sér. Eitt kvöldið tók hann það skref að koma inn í herbergið mitt og snerta mig. Hann setti puttana inn í píkuna á mér og hélt mér þannig að ég myndi ekki snúa mér við. Þegar ég bað hann um að hætta sagði hann að þetta væri bara leyndarmálið okkar. Ég man enn í hvernig buxum hann var þetta skiptið. Ég man enn hvernig rakspírinn hans lyktaði,“ segir Kiana og augun fyllast af tárum. Konan sem ætlaði að rekja þessa sögu án þess að láta bilbug á sér finna getur ekki haldið aftur af tárunum, enda enn að glíma við afleiðingar ofbeldis og á eflaust eftir að takast á við þær alla ævi.

„Mér þótti virkilega vænt um hann. Hann var fyrirmyndin mín. Það særði mig svo ofboðslega mikið að manneskja sem mér þótti svo vænt um skyldi bregðast mér. Að horfa á einhvern sem föðurímynd í lengri tíma og svo að þessi manneskja brjóti svona rosalega á þér. Það var bara sálarmorð. Ég hugsaði bara: Gerði ég eitthvað rangt? Gaf ég of mikið af mér? Var ég of sexí? En ég var bara krakki. Ég var bara ég og ég gerði ekkert rangt,“ segir Kiana.

„Mig langar að vera fyrirmynd fyrir stelpur og stráka og mig langar að hafa áhrif á að meira sé gert í þessum málum í okkar samfélagi og öðrum samfélögum,“ segir Kiana sem dreymir um að hjálpa öðrum þolendum kynferðisofbeldis í framtíðinni.

Sér eftir að hafa ekki gargað á hjálp

Mæðgurnar Helga Elín og Halldóra Baldursdóttir sögðu, eins og fyrr segir, sögu sína í 12. tölublaði Mannlífs. Þær sögðu frá meintri misnotkun á Helgu Elínu sem átti sér stað í sumarbústaðarferð, að þeirra sögn. Sumarbústaðarferð sem Kiana, ein af hennar bestu vinkonum, hafði boðið henni í.

- Auglýsing -

Sjá einnig: „Ríkislögreglustjóri brást dóttur minni“.

„Ég sat aftur í og stjúpfaðir minn keyrði. Ég var mjög spennt að fá vinkonu mína með upp í sumarbústað og það var ofboðslega gaman hjá okkur. Við lékum okkur mikið og fórum í nornaleik. Við fífluðumst við einhverja mýri og ég festi mig í henni. Það var alveg ógeðslega gaman hjá okkur,“ segir Kiana og brosir áður en hún verður þungt hugsi.

„Síðan kom vinafólk mömmu og stjúppabba míns. Þau voru með dætur sínar með sér og við Helga vorum voðalega duglegar í mömmuleik og svæfðum dæturnar og litla bróður minn. Síðan byrjaði fullorðna fólkið að drekka en vinahjónin komu með tvo fulla poka með sér af einhvers konar klámefni. Við vorum náttúrlega krakkar og forvitnir um hvað væri í pokunum en þá fengum við að vita að þetta væri ekki fyrir krakka. Við Helga sváfum á uppblásinni dýnu við hliðina á sófanum og þegar stjúpi minn og vinur hans héldu að við værum sofnaðar byrjuðu þeir að tala um kynlíf. Það næsta sem ég man er að seinna um nóttina kom stjúpi minn fram og allt í einu greip Helga í hendina á mér og bað mig um að hjálpa sér. Ég stirðnaði. Ég vissi nákvæmlega hvað var að gerast en ég gerði ekki neitt. Eins ógeðslegt og það hljómar þá var ég fegin að þetta væri ekki ég en í dag vildi ég að þetta hefði verið ég, í staðinn fyrir að þetta kæmi fyrir einhvern annan. Daginn eftir vildi Helga fá að hringja í mömmu sína en hún fékk það ekki. Restin af ferðinni er bara í móðu,“ segir Kiana. Í kjölfarið flosnaði upp úr vinskapnum.

- Auglýsing -

„Hún forðaðist mig og ég vissi alveg af hverju, en á sama tíma vissi ég það ekki. Ég skildi ekki af hverju hún vildi ekki tala við mig. Ég gerði ekki neitt,“ bætir Kiana við. Í dag eru þær Helga kunningjakonur og finna styrk hvor í annarri.

„Við erum sterkari saman og við skiljum hvor aðra,“ segir Kiana. Hún er þakklát þeim mæðgum fyrir að hafa stigið fram í viðtali við Mannlíf og deilt sinni reynslu. „Mér fannst magnað að lesa viðtalið við þær. Þær hafa sína hlið og ég hef mína. Þær gefa mér mikinn drifkraft. Mér þykir ofboðslega vænt um þær báðar,“ segir Kiana. En var erfitt að lesa viðtalið?

„Nei, ekki beint erfitt. En það fékk mig til að hugsa til baka og ég gerði mér grein fyrir hvað þetta var slæmt. Ég lokaði á þetta í svo langan tíma. Mér fannst ég bera ábyrgð á að þetta hefði komið fyrir hana svo lengi og því fylgdi mikil skömm. Mér fannst eins og ég hefði valdið henni vonbrigðum og að ég hefði ekki verið sönn vinkona. Í dag veit ég að þetta var ekki mér að kenna. Langt frá því. Hefði ég getað gargað og öskrað á hjálp? Já, en ég gerði það ekki. Það er ein mín stærsta eftirsjá í lífinu.“

Upplifði höfnun frá móður sinni

Eins og kom fram í Mannlífi sagði Helga ekki frá þessu meinta ofbeldi fyrr en þann 5. október árið 2011. Hún trúði vinkonu sinni í skólanum fyrir þessari reynslu og í kjölfarið var móðir hennar kölluð í skólann. Halldóra, móðir Helgu, sagði í viðtalinu að breytt hegðunarmynstur dóttur hennar hefði skýrst við þessa uppljóstrun, en hegðun Kiönu tók einnig miklum breytingum eftir að meint brot hófust.

„Ég var hætt að hafa áhuga á skólanum. Ég byrjaði að stelast í sígarettur. Ég hafði enga trú á mér og mig langaði ekki til að lifa. Ég vissi ekki hvernig ég ætti að tækla vandamálin og þorði ekki að segja neitt því ég var hrædd við viðbrögð fólksins í kringum mig. Ég hélt að enginn gæti elskað mig. Mér fannst eins og ég væri skemmd. Eftir fyrsta skiptið fór ég algjörlega inn í skel. Ég fór að vera lengur úti á kvöldin og var slétt sama um allt og alla. Ég fór að stela rosalega mikið og finna flóttaleið til að þurfa ekki að hugsa um þetta. Ég fór að fikta við áfengi og kom mér í alls konar vandræði. Ég taldi mér trú um að ég væri bara geðveik og var farin að finna fyrir miklum skapsveiflum. Ég réð ekki við tilfinningar mínar og ofsareiði braust út,“ segir Kiana. Hún sagði loks frá ofbeldinu þegar hún var ellefu ára.

„Kvöldið áður en ég sagði frá misnotaði hann mig í seinasta skiptið,“ segir hún og klökknar. „Daginn eftir mætti ég í skólann og ég man bara að ég sturlaðist. Það var eins og hefði verið kveikt á rofa í hausnum á mér. Ég kastaði borðum og stólum og síðan brotnaði ég niður. Kennarinn minn skildi ekki hvað var í gangi og bauð mér að tala við skólahjúkrunarfræðinginn, sem ég þáði. Ég gekk inn til hennar og vissi ekki hvort ég ætti að segja henni sannleikann eða ekki. Síðan rann það upp fyrir mér að ég var alltaf að finna afsakanir til að hitta hana. Mér var illt á ýmsum stöðum því ég var að reyna að finna einhvern annan stað fyrir verkinn innra með mér. Þarna sagði ég henni að stjúppabbi minn hefði snert mig á stöðum sem hann ætti ekki að vera að snerta mig á. Hún benti á ýmsa staði á líkamanum og ég sagði já við þeim stöðum sem hún benti á. Síðan gaf hún í skyn að hún þyrfti að láta vita af þessu. Þá var eins og þúsund kílóum væri lyft af öxlum mínum og ég gat loksins andað. Þetta væri búið.“

Kiana er búin að vera edrú í þrjú ár.

Í kjölfarið var móðir hennar kölluð á fund í skólanum.

„Ég fór til hennar og horfði á hana. Hún horfði á mig eins og ég hefði brugðist henni. Ég fékk þvílíka höfnunartilfinningu. Það var hringt í ömmu mína og hún kom og náði í mig. Ég veit ekki hvar ég væri án hennar. Hún er demanturinn minn og mér þykir svo vænt um hana. Ég fór til hennar og móðursystir mín bjó hjá henni á þessum tíma. Heima hjá ömmu brotnaði ég algjörlega niður. Ég fékk taugaáfall ellefu ára. Ég náði ekki að sofa og starði bara út í loftið. Þær sögðust ætla að standa með mér í gegnum þetta allt og að þær elskuðu mig. Að þetta breytti ekki þeirra áliti á mér og að þetta væri ekki mér að kenna. Þær brugðust hárrétt við og ég fékk alla þá ást sem ég átti að fá og þurfti á að halda. Á þessum tímapunkti gerði ég mér ekki grein fyrir því að þetta væri bara rétt að byrja,“ segir Kiana og heldur áfram.

„Ég bjóst við því að ég þyrfti að tala við lögguna, hann yrði handtekinn og fengi það sem hann ætti skilið. Það sem gerðist var að ég fór í nokkur viðtöl í Barnahúsi og var ekki einu sinni send í læknisskoðun, þó að það væri bara einn dagur frá meintri misnotkun,“ segir hún. Hún lifði í þeirri von að móðir hennar myndi loks horfast í augu við sögu hennar og trúa henni.

„Það skipti ekki máli hvað var sagt við hana, hún trúði mér ekki. Ég fékk það beint í andlitið að mamma elskaði mig ekki og að hún afneitaði mér. Hún ætlaði bara að vera með honum. Þarna myndaðist tómarúm innra með mér. Ég sem stelpa á leið inn í unglingsárin fann í fyrsta sinn fyrir virkilegu hatri og reiði í garð manneskju sem átti bara að elska mig. Sem átti bara að vera til staðar fyrir mig. Og hún var það ekki. Það bókstaflega drap mig að innan.“

Flúði í heim eiturlyfja

Kiana hætti að vilja fara í viðtöl í Barnahúsi og valdi frekar hugarbreytandi efni til að flýja raunveruleikann. Þrettán ára var hún byrjuð að reykja kannabis á hverjum degi og fjórtán ára héldu örvandi efni henni gangandi.

„Þetta var rosalega góður flótti og ég væri að ljúga ef ég segði að mér hefði ekki fundist þetta skemmtilegt. Ég var mjög dugleg þegar kom að fíkniefnum og með mikinn metnað fyrir neyslunni,“ segir Kiana og bætir við að hún hafi snúið mönnum um fingur sér til að hafa efni á fíkninni.

„Það er auðvelt ef maður er ung og falleg stelpa. Þá þarf maður bara að gefa mönnum undir fótinn og ég var mjög dugleg að því þegar kom að fíkniefnum. En ég gerði ekki meira, ekkert kynferðislegt með þeim. Ég notfærði mér fólk og menn þegar ég var í neyslu. Ég hataði sjálfa mig. Sjálfseyðingarhvötin var á milljón og sjálfsálitið ekkert. Ef ég elskaði mig ekki, hver ætti þá eftir að gera það? Ég sóttist eftir ást á öllum röngu stöðunum. Ég fór að vera með eldri strákum, sérstaklega þeim sem gátu skaffað fyrir neyslunni. Strákum sem ég notaði til að gera hluti fyrir mig,“ segir Kiana. Eins og áður segir sagði Helga vinkona hennar frá meinta ofbeldinu þann 5. október, en Kiana sneri lífinu við og hætti í neyslu þann 5. október fyrir þremur árum. Einskær tilviljun, en mikilvægur dagur í lífi þeirra beggja.

„Það var annaðhvort að duga eða drepast. Fíkniefnin voru ástin í lífi mínu. Þau voru það eina sem elskaði mig, að ég hélt, en þau voru farin að bregðast mér. Mig langaði ekki að nota þau lengur. Ég hafði brotið svo mörg prinsipp og leið ömurlega. Ég var búin að steikja í mér hausinn. Vorið 2015 var ég tekin fyrir að reyna að koma fíkniefnum til Vestmannaeyja. Eftir það var ég edrú í heila fjóra mánuði að leita mér að annarri fíkn. Ég leitaði að staðfestingu frá hinu kyninu en ég höndlaði ekki sjálfa mig og fór aftur í sama farið og byrjaði að nota aftur. Þetta var orðið mjög sorglegt í endann. Seinasta djammið mitt var þannig að ég fór í bíó. Ég fór á Sicario sem fjallar um fíkniefnahring. Ég var svo biluð að ég hélt að allir í salnum væru í löggunni. Ég fór í meðferð morguninn eftir, fyrst til að friða alla í kringum mig en ekki fyrir sjálfa mig. Þetta var besta ákvörðun sem ég hef tekið. Inni á Vogi byrjaði ég að finna fyrir tilfinningum. Ég var svo hrædd því allt kom upp aftur og ég þurfti að díla við hlutina. Ég fékk taugaáfall inni á Vogi. Kjálkinn á mér festist og ég var í svo miklum fráhvörfum að ég slefaði. Mér leið eins og ég væri að kafna og að tungan í mér væri að leka niður í háls. Ég var svo ofboðslega hrædd og búin á því. Þá kom reiðin upp aftur og ég réð ekkert við hana. Ég var svo rosalega reið.“

„Ég trúði því að réttlætið myndi sigra“

Við hoppum aftur nokkur ár aftur í tímann þegar Helga ákvað að stíga fram og segja frá meintu kynferðisofbeldi. Kiana segir að þá hafi kviknað smávonarglæta í brjósti hennar.

„Ég vonaði svo innilega að hún yrði heppnari en ég. Það var það eina sem ég vonaði. Þegar hún sagði frá komu tveir lögreglumenn heim til mín og ræddu við mig um mitt mál, hennar mál og mál þriðju stelpunnar. Ég vissi ekki af þriðju stelpunni. Á því augnabliki hefði ég getað logið einhverju en ég vildi vera hreinskilin. Ég trúði því að réttlætið myndi sigra,“ segir Kiana, en þessar þrjár kærur á hendur manninum voru allar felldar niður. Honum var ekki vikið úr starfi meðan á rannsókn málanna stóð og hélt starfi sínu innan lögreglunnar þegar málin voru látin niður falla.

„Ég skil þetta ekki. Voru orð mín ekki nóg? Eða hinna tveggja? Ég bara fatta þetta ekki,“ segir Kiana, en mál hennar og Helgu voru ekki rannsökuð saman. „Auðvitað átti að rannsaka málin saman. Og auðvitað átti að senda mig í læknisskoðun þegar ég sagði frá til að athuga með innvortis áverka. Svo vill enginn taka ábyrgð á þessu,“ segir Kiana og bendir á þá staðreynd að embætti Ríkislögreglustjóra og Ríkissaksóknara hafi bent hvort á annað þegar móðir Helgu setti út á rannsókn máls dóttur hennar í Mannlífi.

„Það benda allir hver á annan. Hvað ef þetta væri dóttir einhvers innan þessara embætta? Eða sonur? Væru þetta viðbrögðin þá? Ég efast um það. Ég fyllist viðbjóði að hugsa til þess að þessi maður fái enn að vinna innan veggja lögreglunnar. Að hann fái að vinna þar sem brotnir einstaklingar leita sér hjálpar. Það gerir mig bilaða. Réttarkerfið á Íslandi er til háborinnar skammar. Það hefur ekki bara brugðist mér og Helgu, heldur svo ótal fleirum.“

Vill hjálpa öðrum þolendum

Kiana prýðir forsíðu Mannlífs.

Kiana glímir í dag við ýmsar þekktar afleiðingar kynferðisofbeldis. Hún kann illa á samskipti við fólk þar sem hún á erfitt með að greina muninn á réttu og röngu. Henni finnst óþægilegt að snerta börn því hún er hrædd um að snerta þau á óviðeigandi hátt. Hún er með ofsakvíða og áfallastreituröskun. Hún er logandi hrædd við að gera mistök. Hún hefur unnið mikið í sjálfri sér síðustu þrjú árin og meðal annars leitað sér hjálpar hjá geðlæknum, sálfræðingum og hjá Stígamótum.

„Ég vinn í því á hverjum degi að elska sjálfa mig. Mér finnst eins og ég kunni ekki að vera vinkona. Að ég þurfi að æfa mig í því. Að ég þurfi að læra að vera systir. Ég get leitað mér hjálpar til að hjálpa sjálfri mér en hvað með réttlætið? Mig langar að berjast fyrir réttlætinu í þessu máli en ég veit ekki hvernig ég á að gera það. Ég get ekki leitað til lögreglunnar því ég veit ekki hvernig ég á að fara að því að treysta henni í þessu máli. Það er sagt að rétt skuli vera rétt þegar kemur að lögum og reglum og þetta á að vera fólk sem á að vernda íbúana í landinu. En það getur samt ekki opnað augun fyrir eigin breyskleikum,“ segir Kiana sem dreymir um að hjálpa öðrum þolendum kynferðisofbeldis í framtíðinni.

„Mig langar að vera fyrirmynd fyrir stelpur og stráka og mig langar að hafa áhrif á að meira sé gert í þessum málum í okkar samfélagi og öðrum samfélögum. Það er enn tabú að hafa lent í kynferðisofbeldi, hvort sem það er nauðgun eða áreiti. Samfélagið er lokað og það breytist ekkert nema við gerum eitthvað í því. Viljum við virkilega að börn framtíðarinnar upplifi heiminn svona? Að þau þurfi að lifa í stanslausum ótta, að ekkert sé gert ef eitthvað kemur fyrir þau og hvort þau fái réttlæti eða ekki? Það er náttúrlega bara fáránlegt. Ég horfi á börnin í kringum mig sem ég elska ofboðslega mikið og finnst vont að sjá að þetta sé heimurinn sem við bjóðum þeim upp á.“

„Ég er tilbúin að mæta því sem kemur“

Í dag býr Kiana hjá móður sinni, sem er ekki sátt við að dóttir sín stígi fram í þessu viðtali, að hennar sögn. Móðir hennar sleit fyrir nokkrum árum samvistum við manninn sem Kiana sakar um kynferðisofbeldi, en að sögn Kiönu er samband þeirra mæðgna enn stirt á köflum.

„Mamma mín verður alltaf mamma mín. Ég elska hana og það mun aldrei breytast. Það koma tímabil þar sem ég finn fyrir reiðinni og hatrinu og mér finnst erfitt að geta ekki rætt þessa hluti við hana. Ég hef þurft að taka það í sátt að hún muni ekki ræða þetta. Ég stjórna henni ekki og ég ber ekki ábyrgð á hamingju annarra, einungis minni eigin. Ég er mjög þakklát fyrir fjölskyldu mína. Svo ég tali nú ekki um vinina. Ég veit ekki hvar ég væri í dag ef ég ætti ekki þær vinkonur og vini sem ég á í dag. Þau taka mér eins og ég er og ég get verið ég sjálf í kringum þau,“ segir Kiana. Hún svaf lítið í nótt. Hún var með hugann við þetta viðtal. Þessa opinberun sína. Hún segist ekki stressuð fyrir því að Ísland fái að vita hennar sögu. Þótt það sé erfitt að rifja upp þennan sára tíma, segir hún það að vissu leyti gott. Ákveðinn létti.

„Ég er ekki stressuð fyrir viðbrögðunum sem ég á eftir að fá. Ég get ekki gert öllum til geðs. Kannski á ég eftir að fá fullt af jákvæðum viðbrögðum en ég veit að ég á eftir að gera einhverja mjög reiða. Ég veit það, en ég vil koma hlutunum frá mér eins og þeir eru. Rétt skal vera rétt og það sem kemur, kemur. Ég er tilbúin að mæta því sem kemur.“

Málið í hnotskurn

Mæðgurnar Halldóra og Helga sögðu sína sögu fyrir tveimur vikum.

Lögreglumaðurinn sem þrjár stúlkur sökuðu um kynferðisbrot starfaði áfram meðan á rannsókn allra málanna þriggja stóð. Málin voru ekki rannsökuð saman. Eftir að málin voru felld niður hélt lögreglumaðurinn starfinu. Í máli Helgu Elínar liggja fyrir skýrslur frá sérfræðingum í Barnahúsi sem staðfestu að Helga Elín hefði orðið fyrir miklum skaða í umtalaðri sumarbústaðarferð.

Eins og hefur komið fram voru vinur lögreglumannsins, sem er háttsettur embættismaður hjá hinu opinbera, og eiginkona hans með í sumarbústaðarferðinni. Að sögn Halldóru Baldursdóttur, móður Helgu Elínar, tók skýrslutaka yfir vinahjónunum aðeins örfáar mínútur og fór fram á skrifstofu embættismannsins. Þau hjónin og eiginkona sakbornings báru fyrir sig minnisleysi vegna áfengisdrykkju og niðurfelling málsins var meðal annars byggð á þeirra vitnisburði. Við rannsókn málsins kom fram að klámefni hafði verið haft fyrir börnunum í umræddri sumarbústaðaferð. Umrædd vinahjón voru aldrei spurð út í klámmyndaáhorfið og tölva sakbornings var ekki skoðuð. Þegar lögregla skoðaði sumarbústaðinn fór hinn meinti kynferðisafbrotamaður með á vettvang.

Að sögn Halldóru kemur fram í rannsóknargögnum að lögreglumaðurinn hafi sakað stelpurnar þrjár um samsæri gegn sér og að ekkert hafi verið gert til að hrekja slíkt. Halldóra hefur óskað eftir því við Nefnd um eftirlit með lögreglu að málsmeðferðin verði skoðuð. Eitt að því sem hún gagnrýndi harðlega var að þrátt fyrir að þrjár stúlkur hefðu kært lögreglumanninn hefðu málin ekki verið rannsökuð saman og ekkert brugðist við fullyrðingum lögreglumannsins um að stúlkurnar þrjár hefðu uppi samsæri gegn sér.

Sjá einnig: Segist ekki hafa brugðist dóttur Halldóru.

Enginn tekur ábyrgð

Í viðtali í 12. tölublaði Mannlífs sagði Halldóra að henni hafi verið bent á að senda erindi á Harald Johannessen ríkislögreglustjóra, af þáverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, Stefáni Eiríkssyni, þegar mál dóttur hennar kom upp. Í samtali við Mannlíf lýsti hún þeirri tilfinningu sinni að ríkislögreglustjóri hafi brugðist henni og dóttur hennar, þar sem hann vildi „ekkert fyrir okkur gera.“

Embætti ríkislögreglustjóra hefur andmælt þeirri fullyrðingu Halldóru að ríkislögreglustjóri, Haraldur Johannessen, hafi brugðist dóttur Halldóru,

Haraldur Johannessen hefur ekki viljað svara spurningum Mannlífs persónulega um þetta mál. Samkvæmt yfirlýsingu frá embætti ríkislögreglustjóra fór embættið þess á leit við ríkissaksóknara að fá afhent rannsóknargögn málsins til þess að unnt væri að taka ákvörðun um hvort leysa skyldi lögreglumanninn frá embætti um stundarsakir eða að fullu. Ríkissaksóknari hafnaði erindi Embættis ríkislögreglustjóra með vísan til heimildarskorts í lögum. Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari sagði hins vegar í samtali við Stundina að ríkissaksóknari hafi sent „ríkislögreglustjóra allar upplýsingar um málið vegna fyrirhugaðrar ákvarðanatöku hans um það hvort veita ætti viðkomandi lögreglumanni lausn frá störfum“.

Stefán Eiríksson starfaði sem lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins meðan á rannsókn málsins stóð. Stefán kveðst ekki hafa fylgst með umfjöllun um málið og neitar að tjá sig um það við blaðamenn Mannlífs.

Myndir / Heiðdís Guðbjörg Gunnarsdóttir
Förðun / Silja Dröfn Jónsdóttir með vörum frá Urban Decay

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -