Fyrirsætan Tess Holliday skráði sig í sögubækurnar árið 2015 þegar hún varð fyrsta fyrirsætan í sinni stærð til að komast á samning hjá umboðsskrifstofu, en Tess er í amerískri stærð 22, sem er evrópsk stærð 54.
Síðan þá hefur hún veitt konum um allan heim innblástur til að elska líkama sinn eins og hann er og er til að mynda konan á bak við samfélagsmiðlaherferðina #EffYourBeautyStandards.
Hefur stundað mikið af slæmu kynlífi
Tess er einn af viðmælendum tímaritsins Cosmopolitan í seríu sem kölluð er Let’s (Actually) Talk About (Actual) Sex, þar sem hún tjáir sig um kynlíf og kynþokka.
„Kynlíf er skemmtilegt – sérstaklega þar sem ég elska nú líkama minn og er sjálfsöruggari,“ segir Tess aðspurð um hvað kynlíf sé fyrir henni.
„Kynlíf er leið fyrir mig að tengjast maka mínum og að finnast ég kröftug og góð. Veistu, ég hef stundað mikið af slæmu kynlífi í lífinu þannig að það er yndislegt að lifa góðu kynlífi núna. Og ef maður stundar kynlíf á réttan hátt þá ætti það ekki að vera subbulegt.“
Þarf að prófa kynlíf fyrir hjónaband
Tess segir að rassinn sinn sé í uppáhaldi hjá sér og að henni finnist hún kynþokkafull þegar hún hafi stjórn.
„Mér finnst ég kynþokkafull þegar ég stjórna því hvernig ég sýni líkama minn og hvernig ég er í þessum heimi. Hvort sem ég er nakin eða í einhverjum furðulegum búning,“ segir fyrirsætan, sem var alin upp á mjög ströngu heimili.
„Ég var alin upp við það að kynlíf væri eitthvað til að skammast sín fyrir og að maður ætti aðeins að stunda kynlíf innan hjónabands. Ég er svo glöð að ég hlustaði ekki á það. Mér finnst að ef maður nær góðri tengingu við einhvern að kynlífið gæti verið gott en ég þarf að prófa það áður en ég giftist viðkomandi.“