Laugardagur 11. janúar, 2025
4.8 C
Reykjavik

Kynlífsvinna og vændi – val eða áþján?

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Heitar umræður um vændi og kynlífsvinnu hafa undanfarið átt sér stað meðal íslenskra femínista.

Skiptar skoðanir á eðli og skilgreiningu þessara hugtaka hafa orðið til þess að fólk hefur skipað sér í tvær fylkingar sem takast harkalega á. Eru kynlífsvinna og vændi normalísering nauðgunarmenningar eða frjálst val einstaklinga? Sólveig Anna Bóasdóttir og Elísabet Ýr Atladóttir eru forsvarsmenn ólíkra viðhorfa í deilunni og við fengum þær til að gera grein fyrir sínum viðhorfum.

______________________________________________________________

Vændisfólki ber að búa við grundvallarmannréttindi

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðileg siðfræði við HÍ, er ein þeirra sem vill gera greinarmun á kynlífsvinnu og vændi og virða frjálsan rétt einstaklinga til að stunda þá vinnu ef þeir kjósa það. Hver er hennar skýring á þeim ágreiningi sem upp er kominn innan femínistahreyfingarinnar í umræðu um þessi mál?

Sólveig Anna Bóasdóttir, prófessor í guðfræðilegri siðfræði við HÍ. Mynd / Hallur Karlsson

„Kynlíf hefur verið spennuvaldur í femínískri umræðu frá upphafi. Segja má að umræða um kynlíf meðal femínista hafi spennst milli tveggja andstæðra póla þar sem annars vegar hefur verið lögð áhersla á hættu á drottnun og ofbeldi karla og hlutgervingu kvenna og hins vegar á kynlífsánægju kvenna, atbeina og valfrelsi. Önnur bylgja kvennahreyfingarinnar í Bandaríkjunum klofnaði á sínum tíma vegna andstæðra skoðana á kynlífi, klámi og vændi. Heitin kynlífsvinna (e. sex work) og vændi (e. prostitution) eru yfirleitt skilgreind á sams konar hátt, þ.e. sem samþykkt kynlífsviðskipti milli tveggja fullorðinna einstaklinga. Ákveðinn hópur femínista leggur að jöfnu kynlífsvinnu/vændi a.v. og mansal h.v. og gerir þar með ráð fyrir því að allt vændisfólk vinni undir nauðung og þrælkun. Þar stendur hnífurinn í kúnni.“

Er einhver munur á kynlífsvinnu og vændi?
„Eins og ég segi er „sex work“ og vændi yfirleitt skilgreint á svipaðan hátt. Munurinn á heitunum er sá að vændisfólk, þ.e. er fólkið sem vinnur kynlífsvinnu er yfirleitt sátt við heitið „sex work“ vegna þess að það hefur sjálft átt þátt í að móta það. Það leggur áherslu á að „sex work“ sé vinna eins og hver önnur vinna. Því sama er ekki að heilsa með vændishugtakið, það er gildishlaðið og felur í sér neikvæða, brennimerkjandi merkingu.“

Þú hefur fjallað um kynlífsvinnu sem frjálst val einstaklinga og rétt kvenna til kynlífs á eigin forsendum, hvernig rökstyðurðu það?
„Í þau skipti sem ég hef tjáð mig um kynlífsvinnu (e. sex work) þá hef ég byggt á rannsóknum og skýrslum ýmissa frjálsra félagasamtaka sem byggjast á viðtölum við vændisfólk í ýmsum löndum um félagslegar aðstæður þeirra, reynslu, þarfir og vilja. Femínískt og siðfræðilegt sjónarhorn mitt felst í að byggja á reynslu hinna kúguðu og útskúfuðu og leggja trúnað á það sem þau segja. Þá tala ég um þetta mál fyrst og fremst í hnattrænu samhengi því umhverfið hér á landi eða á Norðurlöndunum endurspeglar ekki gjörvallan heiminn.

- Auglýsing -

Ég geri sterkan greinarmun á mannsali og kynlífsvinnu. Mansal slær siðfræðilega umræðu út af borðinu. Mansal er glæpur. Ef samþykki milli fullorðinna aðila er fengið með þvingunum, ógn, blekkingum eða svikum eða ef barn er aðili að máli er ekki verið að tala um kynlífsvinnu heldur glæp. Vændisfólk víðast hvar á það sameiginlegt að lifa við mikla fátækt. Reynsla fólks sem vinnur kynlífsvinnu á mismunandi stöðum í heiminum er sú að vinnumarkaðurinn sem þeim býðst sé ýmist enginn eða verri en kynlífsvinnan. Fátækt, brennimerking – einkum trans fólks – og aðstöðuleysi er yfirleitt orsök þess að fólk leiðist út í kynlífsvinnu. Það er að reyna að lifa og komast af. Í Kambódíu, svo dæmi sé tekið, kusu vændiskonur frekar að vinna kynlífvinnu en starfa í verksmiðjunum. Það var betur borgað og þægilegri vinna! Val þeirra stóð á milli tveggja slæmra kosta en slíkar valaðstæður eru ekki einsdæmi. Í mörgum löndum er kynlífsvinna eina lífsviðurværið trans fólks.“

„Það sem ég hef lagt fram í samhengi umræðu um kynlífsvinnu er að vændisfólki, sem öðrum, beri grundvallarmannréttindi eins og líf, virðing og mannhelgi.“

Er það ekki  andstætt femínískri hugmyndafræði að normalísera þá skoðun að líkamar fólks séu verslunarvara?
„Ég kannast ekki við neina femíníska hugmyndafræði sem talar fyrir þessu! Líkamar okkar og limir eru hins vegar til sölu á hverjum degi, með ýmsu móti. Immanuel Kant hélt því fram að það væri ekki siðferðilegt vandamál að maðurinn léti nota sig sem tæki, t.d. með því að lána hendur sínar, fætur og jafnvel allan kraft sinn til einhvers verks, svo lengi sem hann samþykkti þá notkun. Orð hans má túlka þannig að lögmálið um virðingu fyrir persónunni gefi fólki möguleika á að leyfa viss afnot af sjálfu sér, að því gefnu að fólk sé ekki samtímis beitt blekkingum, stjórnsemi eða valdbeitingu af einhverju tagi.“

Andstæðingar normalíseringar þeirrar skoðunar tala um að með því sé verið að réttlæta nauðgunarmenningu, hverju svararðu því?
„Þessi spurning er þannig að við henni á ég ekkert svar. Hér eru settir upp tveir andstæðir hópar. Meðmælendur og andstæðinga hvers? Hins hugmyndafræðilega rétta? Hverjir tala fyrir nauðgunarmenningu meðal femínista? Mín skoðun er sú að femínistar séu að langmestu leyti sammála um hvað einkenni gott samfélag og leggi áherslu á að jöfnuður og mannréttindi séu grundvöllur þess. Það sem ég hef lagt fram í samhengi umræðu um kynlífsvinnu er að vændisfólki, sem öðrum, beri grundvallarmannréttindi eins og líf, virðing og mannhelgi. Vændisfólki beri sjálfræði og við sem viljum ekkert heitar en að skapa gott og fullkomið samfélag skyldum fara varlega í forsjárhyggju gagnvart því. Öryggi, velferð og heilsa eru gæði sem vændisfólk fer að mestu leyti á mis við og því þarf samfélagið að breyta.“

- Auglýsing -

Er bara pláss fyrir eina gerð af skoðunum innan íslensku femínistahreyfingarinnar?
„Það er undir þeim komið sem taka þátt í umræðunni. Femínísk umræða hefur aldrei verið einradda kór og verður vonandi aldrei. Margar virkar raddir eru til þess gerðar að styðja við lýðræðið.“

______________________________________________________________

Normalísering á nauðgunarmenningu

Elísabet Ýr Atladóttir, heldur úti bloggsíðunni kvenfrelsi.wordpress.com og er ein af stofnendum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu, hópsins á Facebook. Henni var í vikunni hent út af femínistaspjallinu á Facebook vegna skoðana sinna. Hvaða skoðanir eru það sem ekki hljóta náð fyrir augum stjórnenda spjallsins? Um hvað snýst ágreiningurinn?

Elísabet Ýr Atladóttir, stofnandi kvenfrelsi.wordpress.com og ein af stofnendum Aktívismi gegn nauðgunarmenningu, hópsins á Facebook. Mynd / Hildur María Valgarðsdóttir.

„Ágreiningurinn snýst að mörgu leyti um hvernig vændi er skilgreint og hvernig það „má“ tala um vændi. Það hefur verið vaxandi bylgja frjálshyggju um allan heim og einn af fylgifiskum þess er sterk einstaklingshyggja – ef ég „vel“ eitthvað þá á ekki að mega hreyfa við því af ríki eða lögum, sama hversu skaðlegt það getur verið. Þetta snýst í raun um að fólk vill sjaldan tala um hvernig vændi tengist kerfisbundnu ofbeldi og hlutgervingu, heldur vill það frekar sjá þetta sem val einstaklinga sem hægt er að horfa fram hjá og hafa engar áhyggjur af. Með því að láta allt snúast um einstaklingsupplifanir verður það að persónulegri árás að gagnrýna vændi, sem gerir rökræður um efnið erfiðar. Og með því að snúa öllum rökræðum um vændi upp í árás á persónulegar upplifanir er umræðan fljótt afvegaleidd.“

Það er sem sagt þín skoðun að vændi feli alltaf í sér nauðung?
„Það þarf ekki að fela í sér nauðung nei, ekki alltaf. Það er samt sjaldgæft að einhvers konar neyð sé ekki til staðar, sama hvort sú neyð er af efnahagslegum ástæðum, ofbeldi, fíkn eða að einhver annar þrýstir á að fara í vændi, neyðin getur verið margs konar og oft jafnvel ekki vel greinanleg. Það er mín skoðun að vændi sé alltaf hlutgerving og að normalísering á vændi sé normalísering á nauðgunarmenningu.“

Er það ekki andstætt femínískri hugmyndafræði að normalísera þá skoðun að líkamar fólks séu verslunarvara?
„Jú, það er nákvæmlega það. Þróunin seinustu ár virðist hafa haft þau áhrif að þessi einstaklingshyggja hefur náð að festa rætur í ýmsum femínískum rýmum og það kemur fram í svona hugmyndum um að val einstaklinga trompi hag meirihlutans og að það megi allt í einu ekki ræða það hvað val einstaklinga getur verið skaðlegt bæði fyrir þá og aðra. Að normalísera vændi væri mikið högg fyrir réttindi kvenna, enda höfum við barist lengi fyrir því að vera ekki bara kjötskrokkur til sölu í einkaeigu eða almannaeign.“

Sumir verja vændi á þeim forsendum að það snúist um rétt kvenna til kynlífs, hvað finnst þér um það?
„Mér finnst það alls ekki eðlilegt að kalla vændi kynlíf kvenna, því ekkert í vændi snýst um nautn eða kynfrelsi kvenna. Vændi hefur alltaf snúist um það að „þjónusta“ þann sem kaupir – honum gæti ekki verið meira sama hvort líkaminn sem hann kaupir nýtur þess eða ekki, enda bara tól fyrir hann til að fá sínu framgengt. Margir kúnnar vændis hafa meira að segja sagt að þeir fíli það betur þegar konurnar sem þeir kaupa fíla það ekki, því þeir voru að borga fyrir sig, en ekki hana. Réttur kvenna til kynfrelsis og kynlífs snýst ekki um hversu auðvelt er fyrir okkur að vera keyptar af karlmönnum sem það vilja. Að skilgreina vændi sem kynlíf kvenna myndi ég telja hreint út sagt öskrandi nauðgunarmenningu.“

„Mér finnst það alls ekki eðlilegt að kalla vændi kynlíf kvenna, því ekkert í vændi snýst um nautn eða kynfrelsi kvenna.“

Er bara pláss fyrir eina gerð af skoðunum innan íslensku femínistahreyfingarinnar?
„Nei, alls ekki, það er alltaf pláss fyrir alls konar skoðanir. Það er mikilvægt að eiga gagnrýnar umræður til þess einmitt að sjá aðra vinkla og geta tengt saman púsluspilið, skipt um skoðanir, byggt upp almennilega mynd af því sem við erum að berjast við. En mér hefur alltaf fundist mikilvægt að hamra á því að þetta snýst ekki um skoðanir. Þetta snýst um staðreyndir og lausnir, ekki persónulegar upplifanir einstaklinga, sem eru með aðrar skoðanir en meirihlutinn, eða heimsspekileg fræði. Oft týnist femínísk umræða um alls konar mál í einhvers konar hugmyndafræðilegum pælingum sem hafa lítið sem ekkert að gera með raunveruleikann og hafa engar praktískar áherslur. Það er mikilvægt að eiga svoleiðis umræður en þegar við erum að tala um raunveruleikann og hvað er að gerast, staðreyndir lífs kvenna og hvað þær eru að upplifa dagsdaglega, þá getum við ekki einblínt á skoðanir og pælingar einstaklinga. Við þurfum að horfa á vandann sem kerfisbundinn, ekki persónubundinn, og þá gagnast skoðanir oft lítið.

Það sem skiptir öllu máli er að það sé hægt að ræða þessi málefni gagnrýnið og vernda þær sem eru þolendur vændis, gera þeim lífið auðveldara, kenna þeim aldrei um aðstæður þeirra. Normalísering á vændi er ákveðin týpa af victim blaming – því ef hún „valdi“ þetta þá hlýtur hún að geta dílað við afleiðingarnar – þannig virðist pælingin vera. Að konur þurfi bara að vera ákveðið sterkar ef þær ætla út í þennan bisness og þær sem koma út úr honum traumatíseraðar hafi bara ekki verið nógu klárar, nógu sterkar, nógu harðar á því að setja mörk. Það þarf að gera það skýrt að ábyrgðin liggur ekki hjá þeim sem eru í vændi heldur hjá þeim sem kaupa og nýta sér þeirra aðstæður, sama hvaða aðstæður það geta verið. Sama af hvaða ástæðu fólk fer í vændi, þá er það ekki þeirra að bera ábyrgðina á þessum iðnaði og það er á ábyrgð okkar allra að koma til móts við þau og gera þeim auðveldara að finna aðrar leiðir. Enginn ætti að þurfa að fara í vændi – aldrei.“

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -